
Fyrir stuttu bárust fréttir af aukinni unglingadrykkju í Reykjavík. Leitt var líkum að því að tenging væri á milli samverustunda barna og foreldra og drykkju unglinga. Síðustu árin hefur samverustundum foreldra og barna fækkað. Á sama tíma hafa drykkja og reykingar barna á höfuðborgarsvæðinu aukist. Þetta er merkilegt í ljósi þess að upplýsingar um skaðsemi drykkju og reykinga hafa aldrei verið aðgengilegri. Við höfum aldrei varið jafn miklu og einmitt núna í fræðslu og forvarnir. Meðferðarúrræði eru fjölmörg og félagsþjónusta á höfuðborgarsvæðinu hefur bólgnað út. Grunnskólinn er einsetinn og biðlistar eftir leikskólaplássi eru hverfandi í dag miðað við það sem áður var.
Þenslan tærirViðvarandi þensluástand hefur haft umtalsverð áhrif á lífshætti þorra Íslendinga. Aðgangur að lánsfé gerir það að verkum að meðalfjölskyldan er skuldsettari en áður. Eignirnar aukast en greiðslubyrði eykst jafnt og þétt. Íslendingar þurfa því að vinna meira ætli þeir sér að ná að greiða fyrir rándýrt húsnæði á þenslusvæðum og taka þátt í kapphlaupinu. Samvistir barna og foreldra, maka og stórfjölskyldu eru með allt öðrum hætti í dag en þekktist fyrir áratug eða svo.
Fólk hefur reynt að mæta hækkun á húsnæðismarkaði og hraða höfuðborgarinnar með því að flytjast á jaðarsvæði höfuðborgarinnar. Þannig ferðast mörg þúsund manns á milli þéttbýliskjarna í kringum höfuðborgina á leið sinni til og frá vinnu hvern dag. Eins og umferðarþróun hefur verið síðustu árin má ætla að fjöldi manna eyði hátt í tveimur klst. í ferðalög vegna vinnu á dag. Íslendingar vinna að meðaltali meira en aðrar þjóðir veraldar. Þegar heim er komið bíður fólks smátúrar í Bónus, með börnin í tómstundastarf og matseld í anda Jóa Fel. Það er því ekki að furða þó samverustundum foreldra og barna fari fækkandi í slíku umhverfi.
Tækifærin á landsbyggðinniÞað felast ótal tækifæri á landsbyggðinni. Margir sjá aðeins tækifæri í virkjunum og ferðamennsku en þá er helsti auðurinn eftir – samfélögin sem finnast út um allt land. Með stórkostlegum framförum á sviði fjarskipta og samgangna eru landfræðilegar hindranir á undanhaldi. Störf eru ekki lengur bundin við eina starfsstöð – óstaðbundin störf eru raunverulegur kostur í dag sem fleiri og fleiri fyrirtæki nýta sér. Húsnæðisverð er allt annað og nær raunverulegri kaupgetu fólks en á þenslusvæðunum. Þrýstingur auglýsingasamfélagsins er ekki jafn grímulaus og pressan þar af leiðandi minni.
Í Bolungarvík er samfélag sem byggir á þeirri grunnhugmynd að þjónusta og atvinnulíf sé innan seilingar við heimilið. Tækifæri þeirra fjölskyldna sem eiga þess kost að losna við klafa efnishyggjunnar eru mörg í Víkinni. Öll grunnþjónusta er í 5 mínútna göngufæri fyrir þorra íbúa sveitarfélagsins. Sundlaug, heilsugæsla, íþróttahús, grunnskóli, leikskóli, félagsheimili, kaffihús, bókasafn, sýslumaður, verslun, bensínstöð og bankaútibú – allt í 5 mínútna göngufæri. Sveitarfélagið greiðir götu fyrirtækja sem vilja sækja til bæjarins. Góð aðstaða er til staðar fyrir þau fyrirtæki sem hug hafa á að reka einmenningsstarfsstöðvar. Með þessu geta ólík fyrirtæki nýtt sama ritara og skrifstofubúnað. Þau fyrirtæki sem geta nýtt sér óstaðbundin störf eiga fjölmörg sóknarfæri. Hagræðingin sem skapast við það að losa dýrt húsnæði í höfuðborginni og eignast ánægðan og öflugri starfsmann er augljós.
Framtíðin er fyrir vestanÉg skora á fólk sem situr heima og hefur áhyggjur af reikningabunkum og tímaleysi að skoða kostina við einfaldara líf fjarri skarkala höfuðborgarinnar. Streð á þeim tíma sem börnin eru að vaxa úr grasi er ekkert lögmál. Það þarf enginn að vinna 12 tíma á dag til þess eins að keyra um á Landcruser og borga af íbúðinni í Vesturbænum. Kíkið vestur á firði – það er miklu innihaldsríkara og skemmtilegra.