miðvikudagur, desember 13, 2006

Hagræðing


Íslandspóstur er fyrirtæki í samkeppnisrekstri og fyrirtæki sem skilar betri peningalegri afkomu í ár en síðustu ár. Reksturinn ku fara batnandi. Svona horfir dæmið við hinum hefðbundna endurskoðanda sem lítur málið úfrá beinhörðum krónutölum. Notendur þjónustu Íslandspósts eru kannski ekki alveg sammála þessu – sér í lagi þeir sem búa á landsbyggðinni.

Nú stendur til að loka póstafgreiðslu á Stað í Hrútafirði. Frá því að Íslandspóstur skipti yfir í markaðshaminn hefur afgreiðslustöðum fækkað verulega og öll umgjörð starfseminnar breyst. Þjónusta hefur verið skorin niður í réttu hlutfalli við markaðsstöðu svæða. Hagræðingin hefur tröllriðið öllu og eftir standa tóm pósthús. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé óskynsamleg þróun.

Hvað er grunnþjónusta og hvað er munaður? Póstþjónusta er grunnþjónusta og ein af forsendum byggðar í þessu landi. Með því að hlutafélagavæða póstþjónustuna á Íslandi, og gera það með jafn takmörkuðum kvöðum og raun ber vitni, er verið að rýra lífsgæði Íslendinga. Þetta er óheillaþróun sem byggir á ákvörðunum púrítanískra frjálshyggjumanna, sem tóku ekki með í reikninginn breytur, eins og búsetu í landinu, þar sem þeir sátu við teikniborðið og hönnuðu framtíðina.

Er hagræðing í því að fólk flykkist í hlíðar Úlfarsfells og eftir standi tóm hús utan höfuðborgarsvæðisins? Sumir halda því reyndar fram - en sé horft til framtíðar er alveg ljóst að blómlegir og öflugir byggðakjarnar út um allt land er forsenda vaxtar. Öflug landsbyggð og öflug höfuðborg er töfraformúlan. Þessari breytu þurfa hagspekúlantar að kynnast áður en hagræðingarplanið er hannað.

4 Comments:

At 6:14 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Það eru náttúrulega allir uppteknastir af því sem þeim stendur næst og það gildir líka um útbreiðslu pósthúsa. Því vil ég bæta inn í þessa umræðu að pósthúsið í Skipholti mun loka fyrir áramót.

En er málið ekki fyrir ykkur utanbæjarmenn aðallega tengt stöðugildunum í pósthúsinu frekar en þjónustunni. Er ekkí borinn út póstur áfram?

Ef pósturinn á að vera einhverskonar byggðastofnun sem tryggir að það séu stöðugldi í hverju plássi með ákveðnu lágmarksmillibili þá er ljóst að slík aðgerð verður ekki fjármögnuð af einkaaðilum.

Þeir sem seldu póstinn unnu þennan slag fyrir löngu síðan. Hvað ætlið þið að gera? Hætta að versla við póstinn? Safna undirskriftum?

Það hefur sýnt sig fyrir löngu að pósturinn er samansoðinn og láta mannlega harmleiki og samfélagið sig litlu varða. Þeir hafa kannski ekki alveg sagt fólki upp með SMS, en ég man eftir að á austfjörðum voru þeir heldur ekkert að hafa fyrir því að gera vel við fólk sem hafði alltaf unnið fyrir þá og voru næstum alveg komnir á eftirlaun.

Þess vegna er sanngirnismál að þið lendið í einka-póstinum eins og allir aðrir. Af hverju ættuð þið að sleppa bara þó þið séuð að vestan?

 
At 7:00 e.h., Blogger Grimur said...

Ég vann á skólaárunum heima í Reykjavík á R-1. Það er ótrúlegt hve mikið hefur breyst þar og í allri Reykjavík síðan þá. Mér þykir pósthúsið við Pósthússtræti ekki svipur hjá sjón. Skipholtið lokar, Rauðarárstígur löngu lokaður o.frv. Það er slæmt og mér leiðist að fara í Hagkaup til að senda bréf.

Hvað síðustu fullyrðinguna varðar þá þarf nú varla að segja mikið. Pósthúsin er flest seld og önnur starfsemi komin í þau. Póstur og Sparisjóðir sameinaðir. Ekki það bréfberar hér á svæðinu eru miklir snillingar og þjónustan starfsfólks og þeirra til fyrirmyndar. Vestfirðir hafa rétt eins og aðrir landshlutar sopið seyðið af markaðsvæðingu póstsins. Lokunin í Hrútafirði er ekki sú fyrsta.

 
At 9:25 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Saloth Sar talar:

Mæltu heilastur, bæjarstjóri.

Þetta mál er angi af stærra máli. Viljum við kosta einhverju til það þess að blómleg byggð sé til staðar í öllu landinu?

Mitt svar er já; hvað sem það kostar. Ég vil ekki að við breytumst í borgríki þar sem afgangurinn af landinu er í eigi stórfyrirtækja.

Ég væri tilbúin til þess að fórna nokkurra prósenta hagvexti í þessa þágu. Hagvöxtur verður að skila sér til þeirra sem landið byggja, annars er hann til lítils.

 
At 10:58 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

En VEISTU hvað póstberar eru með í laun???
Það veit ég. Ódýrari heilsurækt er reyndar ekki hægt að finna... má sosum alveg sýna þakklæti fyrir það en , nei, kommon. Launin er agaleg. Og eiginlega ættu póstútburðarmenn að fá áhættuþóknun. Veistu hve margir af þeim verða fyrir hundsbiti????
tíhí...
Tólfa.

 

Skrifa ummæli

<< Home