mánudagur, desember 04, 2006

Samgöngur


Sorgleg helgi í umferðinni. Umferðarþunginn að aukast á helstu þjóðvegum með tilkomu sprengingar í bílainnflutningi og síðast en ekki síst með vöruflutningum sem færðar voru af sjó á land. Í framhaldi slíkra slysa fara eðlilega af stað umræður um samgöngumál og það sem betur mætti fara á þeim vígstöðvum. Fólk er reitt og krafist er tafarlausra úrbóta. Þetta er allt skiljanlegt en því miður ómarkvisst og jafnvel krampakennt.

Líkleg niðurstaða í þessu máli verður að þjóðarsátt skapast um að tvöfalda Suðurlandsveg að Selfossi og Vesturlandsvega að Hvalfjarðargöngum. Algjörlega réttlætanlegar framkvæmdir sem ekki nokkur mun mótmæla. En það er sorglegt að við skulum þurfa að ganga í gegnum tilgangslausar fórnir til þess að raunverulegt skrið komist mál.

Við verðum að komast upp úr hjólförum viðbragðslausna. Slíkar lausnir eru sjaldnast jafn farsælar og velígrundaðar lausnir. Samgönguyfirvöld bera ekki ein ábyrgð á þessari stöðu. Það era allir Íslendingar ábyrgð. Hvað á það t.d. að þýða þegar landshlutar berjast við aðra landshluta um fé til framkvæmda? Oddsskarð vs. Óshlíð – Reykjanesbraut vs. Suðurlandsvegur o.s.frv. Lobbyisminn tröllríður stjórnsýslunni og hagsmunapot einstaklinga getur skipt sköpum. Hér er ég ekki að taka út einhvern einn ráðherra eða einhvern einn flokk – þetta á við okkur öll. Lobbyisminn grefur skotgrafir á milli samherja.

Ég er fylgjandi tvöföldun hringvegarins eins og hann leggur sig eins og Styrmir Gunnarsson hefur ítrekað bent á í leiðurum og ræðum. Fyrsti hluti þeirra framkvæmda ætti svo sannarlega að vera í kringum höfuðborgina – það segir sig sjálft. En ég er líka á því að nú þurfi samgönguyfirvöld og landsmenn allir að sameinast um það að koma vöruflutningum aftur á sjó. Trukkarnir eru of stórir og of margir fyrir ásetið vegakerfi okkar. Kostnaðurinn kann að vera nokkur að koma þessu aftur í skipin en kostnaðurinn vegna hvers mannslífs og þeirra skemmda sem slysin valda er mun meiri.

Það þarf að hugsa stórt þegar samgöngur eru skoðaðar. Hættan við þá tíð sem nú ríkir er að í vor eru kosningar. Við slíkar aðstæður víkur skynsemin á stundum fyrir óttanum við slakt gengi í kosningum.

3 Comments:

At 12:22 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vel mælt

 
At 1:33 e.h., Blogger Unknown said...

Vitleysa. Tvöfalda hringveginn. Eru menn ekki búnir að gleyma sér í tilfinningahitanum? Erlendis eru vegir ekki tvöfaldaðir nema umferð nái a.m.k. 20.000 bílum á dag. Helstu umferðaæðar utan höfuðborgarinnr komast ekki í hálfkvisti við það. Það þarf að kenna fólki að keyra eins og menn og nota 2+1 leiðina sem samkvæmt rannsóknum eykur öryggi verulega en öryggi við að tvöfalda eykst lítið meira en 2+1. Ef tvöföldun verður að veruleika til Selfoss, máttu bíða ansi lengi Grímur minn, áður en þú kemst í sæluna á Ísafirði án þess að vera með hjálm. Bendi á góða grein um málið í mogganum í gær að mig minnir.

 
At 3:04 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef ekkert á móti 2+1 leiðinni. Það hefur sýnt sig á Reykjanesbrautinni að hún getur verið varasöm í hálku svona 2föld þar sem það vantar umferð sem aftur gerir það að verkum að salt nær ekki að vinna á hálkunni.

Hins vegar getum við illa borið okkur saman við aðrar þjóðir þegar kemur að þjónustustigi. Ef staðlar væru notaðir þá væri engin hjartadeild á Íslandi - 1 deild á hverja 700.000 íbúa o.s.frv. Við erum ekki samanburðarhæf sökum fámennis.

 

Skrifa ummæli

<< Home