fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Hátíð


Átti að flytja ræðu á “ríjúníói” nemenda sem útskrifuðust úr Hlíðaskóla árið 1986. Þetta átti að gerast 4. nóvember en veður voru válynd og því fór Grímur ekki suður. Mér þótti það leiðinlegt. Hérna er ræðan:

Haustið
Klukkan er níu eða er hún kannski 12? Það er september og árið er 1979. Ég stend fyrir framan nýja skólabyggingu. Ég er nýkominn frá Raufarhöfn þar sem ég var með langömmu minni eins og önnur sumur eftir sveitina. Hafði byrjað á Egg í Hegranesi og endað á Ríben hjá ömmulín.

Ísaksskóla er lokið og nýr kapítuli að hefjast. Bý vel að teiknihæfileikum eftir árin hjá Herdísi Egilsdóttur. Búinn að fara í fisk hjá Rúnari Gests og stunda stríðsleiki með Árna Kristjáns. Ég er bjartur yfirlitum með ljósa lokka. Amy Engilberts spáði fyrir foreldrum mínum þegar ég var ókominn í þennan heim að fiðluleikari með ljósa lokka væri á leiðinni.

Á skólalóðinni má sjá börn að leik. Strákar í fótbolta og stelpur í parís. Tek strax eftir því að liðin á fótboltavellinum eru ansi misskipt. Í öðru liðinu er sterklegur strákur í teygju merktri Pelé og annar strákur frekar hippalegur til fara og greinilegt að foreldrarnir hafa tekið þátt í byltingarlegu vafstri. Hitt liðið saman stendur af öllum hinum – u.þ.b. 14 strákum sem elta Pele og kommúnistann.

Stelpurnar í parísnum vöktu auðvitað talsverðan áhuga enda nokkrar verulega sætar. Hallgerður Langbrók eða staðgengill hennar á 20. öldinni hafði sig mest í frammi og stjórnaði aðgerðum. Tilvonandi barnæskuást mín stóð þar skammt hjá og önnur þrætuepli - evukyns - næstu ára einnig.

Ég stend sem fastast enda kann ég hvorki fótbolta eða parís – ég var í Ísaksskóla, þar voru æðri listir ástundaðar og taktískir herleikir. Skyndilega hringir bjallan og ég álpast í röð. Þar sem ég stend og reyni að taka vel eftir umhverfinu er hendi laumað í lófann á mér. Hjartað tekur kipp – getur verið að þetta sé sæta stelpan sem var í parís? Stelpan sem ég tók eftir í fyrradag þegar ég var að fara til pabba í Grænuhlíðina? Ég læt mig dreyma – á örskotsstundu rennur allt líf mitt til þessa dags í gegnum huga minn og öll árin sem ég og stelpan þarna uppi í húsinu við hliðina á pabba munum eyða saman. Endalausir spagettívestrar á laugardagskvöldum með appolólakkrísafgöngum – er hægt að hugsa sér betra líf?

Ég gleymi mér alveg og loka augunum. Sný mér að stúlkunni og set stút á varirnar. Taugaveiklun fyrsta skóladagsins hefur komist í miðtaugakerfið og drepið alla skynsemi og alteregóið tekur við. Hún er mín – þessi eina hún er mín. Við göngum um akra bíóhúsanna, Star Wars, Grease og brilljantín. Ég er flottastur og hún er alveg sammála.

Ég opna augun og lít á drottningu minna drauma rétt áður en ég kyssi hana. Hjartað hættir að slá. Við hlíð mér stendur fremur renglulegur drengur með freknur og kartöflunef. Þetta er ekki stúlkan sem mér var ætluð. Þetta er eitthvað allt annað. Fyrirbærið segir hæ og spyr mig: Ertu nýr eins ég? Ég var að flytja í bæinn frá Akureyri – ég heiti Mörður.

Lok sögunnar eru öllum kunn. Hárlitur og allt mitt fas breyttist. Fíngerði listamaðurinn með ljósu lokkana vék fyrir makkinu með braskaranum að norðan. Tónlistarkennsla Jóns Kristins Cortes kom alveg í veg fyrir fiðluleik en hann reyndist vera hinn mesti fauti. Allur áhugi á íþróttum lagðist í dróma við kennslu hins natna barnahatara Þórarins R. En í hundana hefði maður algjörlega farið ef meistara Árna Pé hefði ekki notið við auk Ásdísar ömmu hans Krissa sem sinnti okkur svo vel á göngunum. Þóra og Sigurbjörg komu líka auga á að innst inni var drengurinn með ljósa lokka og fiðlustreng.

Góðlegi hippastrákurinn sem fékk slétt og fellt skódauppeldi í Hlíðunum er eins og allir vita innsti koppur í búri í ríkasta fyrirtæki Íslands þar sem hann lemur á saklausum lífeyrissjóðsgreiðendum – sendir þeim í besta falli teppi. Hann býr ekki lengur í Hlíðunum heldur í Arnarnesinu en þar búa menn af hans sauðarhúsi. Við getum aðeins gert okkur í hugarlund hvernig foreldrum þessa pilts líður.

Gulli Pelé með símanúmerið 50459 lifði á rækjusamlokum og krónukössum fram eftir grunnskóla. Hann fór þó að ókyrrast síðustu dagana í Hlíðaskóla og reyndi sitt besta í frægu skólaferðalagi í Þórsmörk. Hann kom fyrir í potti fiskbollum úr Oradós og hitaði. Að hræra var meira en Pelé réði við þannig að heitur var rétturinn efst en kaldur neðst. Honum hefur farið lítið fram við matseld þeim ágæta manni.

Drottningar drauma minna fóru allar í aðra átt en ég. En þær eiga árin frá því ég var 8 ára þangað til að ég fékk fyrsta skeggbroddinn. Skálum fyrir þeim og öllum þeim sem þvældust með okkur þessi ár hafta – fremstir í flokki voru þeir Utangarðsmenn og drengirnir í Rickshaw. Blue Nun, Torres og brennivín í póló....

Þetta voru ágæt ár.

6 Comments:

At 12:57 e.h., Blogger Gestur Svavarsson said...

Tja, hér fær maður nú alveg nostalgíufiðring, og þó var ég ekki fyrr en ári síðar, eða svo. . .

 
At 10:55 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þetta var skemmtileg lesning. Við áttum yndislega kvöldstund í Rvk og þín var sárt saknað. Minnist þess ekki að hafa boðið þér í kaffi í "Grænuhlíðinni" en endilega kíktu í kaffi fljótlega..

 
At 11:15 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Fín "ræða" hjá þér Grímur. Skil vel að þér þyki miður að hafa ekki getað lesið hana fyrir bekkjarsystkinin.
Góða helgi og komdu í lærið mitt á sunnudaginn!!!
Frau 12

 
At 11:16 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Lærið okkar Halla meina ég að sjálfsögðu.....
úff... þetta hljómar ekkert betur..

hætti bara núna.......
12

 
At 12:56 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég frábið mér svona dónatilboðum: Eitt frá Vg og síðan tvö frá Vestfirskum frúm! Þ.e. það má misskilja allt.

 
At 2:24 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ó ... fyrirgefðu. Þá býð ég þér bara í kássu.. hún er ekki eins dónaleg og lærin

12

 

Skrifa ummæli

<< Home