sunnudagur, nóvember 05, 2006

Fenjafólkið


Jæja, það kom þá að því að einhver flokkanna tók upp málefni útlendinga í anda fáviskunnar. Frjálslyndi flokkurinn lenti í kröppum dansi í síðasta mánuði þegar Einar Kristinn heimilaði hvalveiðar. Frjálslyndir fengu á baukinn þar og þurftu nauðsynlega að finna sér nýtt mál til að berjast fyrir. Ég spáði því reyndar að hluti flokksmanna tæki þetta mál upp fyrr en raunin varð. Jón Magnússon er nýr liðsmaður frjálslyndra en hann og Magnús Þór Hafsteinsson eru Pia Kærsgaard og Mogens Glistrup okkar Íslendinga.

Í Danmörku eru það einna helst svokallaðir Bodega-Danir sem aðhyllast arískan hugsanahátt. Fenjafólk kýs ég að kalla fólk þar sem sleggjudómar og ömurleg fáviska stjórna ferðinni. Þetta er grafalvarlegt mál. Ég trúi því ekki að Margrét Sverrisdóttir taki undir þessi sjónarmið – hvað með Guðjón Arnar?

Ég vona svo sannarlega að hinn annars ágæti Frjálslyndi flokkur aðgreini sig sem fyrst frá þessum skoðunum. Ef þetta er leiðin sem flokkurinn ætlar sér á hann ekkert skilið annað en að þurrkast út af þingi. Við þurfum að henda fordómunum og hugsa aðeins út fyrir okkar litla garð. Heimurinn er stór og við erum þátttakendur í honum. Með því að hugsa útfrá heildinni, í stað þess að þvælast um með Litlu Gunnu og Litla Jóni, mun framtíð Íslands verða björt.

14 Comments:

At 6:33 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Eithvað er ekki að passa!
Geta menn kallað sig frjálslynda þegar þeir bulla svona?
Þetta er eins og ef sjálfstæðismaður myndi vilja að við tækjum aftur upp samband við Dani!!!

 
At 6:47 e.h., Blogger Grimur said...

Þetta er ágæt ábending. Enda trúi ég því vart að Guðjón Arnar, Margrét Sverrisdóttir, Ásta Þorleifs, Ólafur F. og Guðrún Ásmundsdóttir séu í dansklúbbi með Magnúsi, Sigurjóni (ef hann er sammála þessu) og Jóni Magnússyni. Spurning hvort Guðjón Arnar fari aftur heim og Ásta til sinna gömlu félaga....

 
At 10:02 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Bæjarstjórinn fer villur vegar ef hann hefur þá trú að við í Frjálslynda flokknum séum í einhverjum vandræðum með einhver ný baráttumál í kjölfar hvalveiða en rétt er að spyrja í framhaldinu hvort að bæjarstjórinn sé fylgjandi hvalveiðum?

Kvótakerfið hefur leikið nær allar sjávarbyggðir grátt. Þetta ætti bæjarstjórinn að vera búinn að kynna sér eftir nokkurra mánaða dvöl á Vestfjörðum og slást í hópinn og berjast fyrir árangursríkur og réttlátu fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég hef alls ekki séð bæjarstjórann taka þátt í þeirri umræðu og ekki nokkurn Samfylkingarmann né talsmann VG í óratíma.

Það er furðulegt að sumir hafa kosið að stefna þessari umræðu um óheftan straum erlends verkafólks í þá algjörlega ónauðsynlega farveg skotgrafarhernaðar þar sem þeir sem vilja hafa einhverja stjórn á þessari þróun eru útmálaðir sem fordómafullir rasistar á sama tíma og þeir hinu sömu vilja setja sjálfa sig á stall sem málsvara umburðarlyndis og víðsýni.

Það er rétt að spyrja í framhaldinu hvort að þessi viðbrögð við eðlilegri umræðu beri vott um víðsýni eða hvað þá umburðarlyndi?

Það er eins og að talsmenn óhefts innflutnings s.s. bæjarstjórinn í Bolungarvík geri sér ekki nokkra grein fyrir því að ef að þessi mál þróast áfallalaust að þá eru allar líkur því að það verst niður á þeim sem eru af erlendu bergi brotnir.

Óheftur innflutningur stefnir markaðslaunakerfi stórs hóps launafólks í hættu. þó svo að það snerti lítið langskólagengna sérfræðinga og jafnvel bæjarstjóra sem oft á tíðum stjórna umræðunni á Íslandi.

Ég vil benda lesendum síðunnar á heimasíðu verkalýðsfélags Akraness en þar er fjallað á opinskáan hátt um neikvæðar afleiðingar af stefnu annarra flokka en Frjálslynda flokksins.

Sigurjón Þórðarson

 
At 10:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Bæjarstjórinn fer villur vegar ef hann hefur þá trú að við í Frjálslynda flokknum séum í einhverjum vandræðum með einhver ný baráttumál í kjölfar hvalveiða en rétt er að spyrja í framhaldinu hvort að bæjarstjórinn sé fylgjandi hvalveiðum?

Kvótakerfið hefur leikið nær allar sjávarbyggðir grátt. Þetta ætti bæjarstjórinn að vera búinn að kynna sér eftir nokkurra mánaða dvöl á Vestfjörðum og slást í hópinn og berjast fyrir árangursríkara og réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég hef alls ekki séð bæjarstjórann taka þátt í þeirri umræðu og ekki heldur nokkurn Samfylkingarmann né talsmann VG í óratíma.

Það er furðulegt að sumir hafa kosið að stefna þessari umræðu um óheftan straum erlends verkafólks í þá algjörlega ónauðsynlega farveg skotgrafarhernaðar, þar sem að þeir sem vilja hafa einhverja stjórn á þessari þróun eru útmálaðir sem fordómafullir rasistar á sama tíma og þeir hinu sömu vilja setja sjálfa sig á stall sem málsvara umburðarlyndis og víðsýni.

Það er rétt að spyrja í framhaldinu hvort að þessi viðbrögð við eðlilegri umræðu beri vott um víðsýni eða hvað þá umburðarlyndi?

Það er eins og að talsmenn óhefts innflutnings s.s. bæjarstjórinn í Bolungarvík geri sér ekki nokkra grein fyrir því að ef að þessi mál þróast ekki áfallalaust að þá eru allar líkur því að það verst niður á þeim sem eru af erlendu bergi brotnir?

Óheftur innflutningur stefnir markaðslaunakerfi stórs hóps launafólks í hættu. þó svo að það snerti lítið langskólagengna sérfræðinga og jafnvel bæjarstjóra sem oft á tíðum stjórna umræðunni á Íslandi.

Ég vil benda lesendum síðunnar á heimasíðu verkalýðsfélags Akraness en þar er fjallað á opinskáan hátt um afleiðingar stefnu annarra flokka en Frjálslynda flokksins.

Sigurjón Þórðarson

 
At 10:26 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Eitthvað er ekki að passa!
Það er eins og að talsmenn óhefts innflutnings s.s. bæjarstjórinn í Bolungarvík geri sér ekki nokkra grein fyrir því að ef að þessi mál þróast áfallalaust að þá eru allar líkur því að það verst niður á þeim sem eru af erlendu bergi brotnir.
Eru frjálslyndir allt í einu orðnir málsvarar erlends verkafólks?
Ekki get ég lesið það í skrifum Sigurjóns og hvað þá heldur í orðum Magnúsar eða Jóns!
Og hvaða máli skiptir þó svo að bæjarstjórinn sé fylgjandi hvalveiðum eða ekki?

 
At 10:54 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Gott kvöld. Áhugavert þegar bæjarstjórinn í Bolungarvík leyfir sér að uppnefna félaga í Frjálslynda flokknum með þessum hætti. "Fenjafólk". Hver er með fordóma?

Bestu kveðjur,
MÞH

www.magnusthor.is

 
At 11:19 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Áhugavert þegar tveir þingmenn geta varla svarað fyrir sig en koma þess í stað með comment sem hljóma eins það sé verið að leggja þá í einelti! Maður getur nú ekki annað en vorkennt þeim!!!

 
At 12:06 f.h., Blogger Grimur said...

Sælir herramenn allir. Er það tilviljun að við ræðum þessi mál núna í tengslum við vonda útkomu Frjálslynda flokksins um helgina? Merkilegt að málið skyldi ekki komast á dagskrá í lok sumars þegar kom í ljós að skólarnir okkar voru skyndilega með talsvert fleiri börn af erlendu bergi brotnu en áður.

Við vissum það að hlutirnir myndu breytast með opnuninni 1. maaí sl. Ég geri mér grein fyrir að Magnús Þór benti á þetta í vor en því fer fjarri að hann hafi verið einn um það þó hann haldi því fram núna. Ég er hins vegar á því að nálgun hans hafi verið og sé ósmekkleg.

Heimurinn kemst ekki út úr þeirri vondu stöðu, sem trúarbragðarugl og mismunandi menningaráherslur valda, með því að vestrænar þjóðir kalli aðrar þjóðir eitthvað og öfugt. Við þurfum að tala saman og nálgast hvort annað. Það tekur lengri tíma en hnefinn, sprengjurnar og lokuðu landamærin fljótt á litið virðast skila. Hins vegar verður árangurinn fullyrði ég margfalt meiri.

Varðandi þessa atvinnumálaumræðu að þá er eitt sem verður að halda til haga: Innflytjendur eru ekki vandinn - ef einhver er undirborgaður þá er það atvinnurekandinn sem ber ábyrgð. Því væri nær að þeir sem vilja bæta kjör almennings í landinu tryggi það að farið sé að leikreglum í stað þess að kenna fólki sem aðhyllist aðrar trúarskoðanir en það eða komi frá öðrum löndum.

Ég hef svarað því með hvalveiðarnar. Hvalkjöt er gott - þrátt fyrir að ég hafi verið rekinn úr rengivinafélaginu fyrir að borða pasta á milli funda. Hins vegar tel ég afar óráðlegt að veiða hval við þær aðstæður sem nú eru uppi. Auðvitað eru rökin sterk sem snúa að vistkerfinu og jafnvægi þess. Af hverju var farið af stað í haust?

Hugmyndir Sigurjóns um fiskveiðistjórnun (veit ekki hvort Magnús Þór er sammála honum) eru kannski ekki svo galnar í ljósi stöðunnar. Við veiðum æti þorsksins ásamt því að hvalurinn gerir það líka - þá getur veriða að þurfi að veiða meiri þorsk....

 
At 4:17 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Bara örstutt lína til að þakka þér fyrir gott inlegg. Það sem svíður sárast er að því miður virðist vera nokkuð frjór jarðvegur fyrir svona arfa-vitlausa þjóðernishyggju, en þegar betur er að gáð eru þessar vísanir í heildina (okkur Íslendinga/Ísland) lítið annað en illa dulbúin sjálfsupphafning. Efast ekki um að Magnúsi finnist hann nokkrum sentimetrum stærri með hverri tilvísun í ágæti Íslands og Íslendinga? Ég held að mikilvægt sé að taka á þessari þjóðernisvellu s.k. frjálslyndra og þá um leið leggja ákveðinn fórnarkostnað á möguleika þeirra á að leita að nýju kjörfylgi meðal óttasleginna og óupplýstra.

Ég vona að fleiri raddir bætist við þína á næstu dögum og geri þeim sem kosið hafa að flytjast til Íslands og leggja sitt að mörkum ljóst að þeir séu ekki einungis velkomnir heldur einnig að framlag þeirra til 'þjóðarkökunnar' sé metið - og hinum sem ala á þjóðernisrembingi og tilbúnum ótta við 'lituðu hættuna' að þeirra skoðanir fái ekki að gerjast óáreittar heldur verði mætt með staðföstum mótrökum og háði.

Mínar bestu kveðjur og vonir um að þú haldir ótrauður áfram,
Ragnar Hjálmarsson

 
At 9:14 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Mín kenning er sú að Magnús Þór og Jón Magnússon hafi kokkað upp þessa ógeðfelldu aðferð til að sækja flokknum fylgi og látið vaða. Restin af forystu þessa ógeðfellda smáflokks á svo um tvennt að velja, vera sammála þeim kumpánum eða kljúfa flokkinn. Þau sem hafa tjáð sig til þessa, hafa öll kosið að vera sammála.

Nú ríður á að gott fólk rísi upp gegn þessum hugmyndum.

 
At 12:39 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Lausn vandans er að skrifa bréf.
Húsmóðir gegn kerfinu.

 
At 11:58 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Fyndið, en í málflutningi Frjálslyndra á sínum tíma voru útlendingarnir á Kárahnjúkum að skapa aukna veltu, tekjur og margfeldisáhrif, en "hinir" útlendingarnir, sem talað er um nú, muni aðeins valda fátækt og hungursneyð meðal íslendinga.

Heitir slíkt ekki tvískinnungur?
(Flip floppers)

Eða bara gamla góða hentistefnan?
(Throwing policy)

 
At 10:02 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég átti heima í Englandi nálægt "The Fens". Þá var talað um að fenjafólkið væri skyldleikaræktað eða hvað undan öðru gegnum aldirnar. Það kallar fram sterka eiginleika, bæði snilld en jafnframt hið þveröfuga - ef svo ber undir. Gaman væri að vita í hvora áttina bæjarstjórinn telur Frjálslynda falla? Ave.

 
At 11:46 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

"Fenjafólk". "Bodega-Danir". Hver er með fordóma. Ég kannast bara ekkert við þessa lýsingu á Dönum. Þetta er engan veginn svona svart-hvítt hérna. Margir Danir gera sér ljós vandamálin við opið land án undirbúnings, - af fenginni reynslu. Þegar ég sagði danskri vinkonu minni frá þessari sérkennilegu umræðu á Íslandi varð henni að orði "vilja þeir EKKERT lære af mistökum okkar"?

 

Skrifa ummæli

<< Home