föstudagur, nóvember 03, 2006

Scrooge


Í gær fór hún Eva mín að skoða skólann hennar Ástu Júlíu í Bolungvarvíkinni. Eva er í Melaskóla öllu jafnan en kemur til okkar í Víkina reglulega. Ég held að þetta hafi verið skemmtilegur dagur hjá henni. Ég var hins vegar á ferðalagi í gær en veðrið brá fyrir mig fæti. Ég lét það ekki snúa á mig! Keyrði vestur og svigaði framhjá 1300 músum sem voru greinilega á faraldsfæti líka.

En ég var að hugsa um skóla. Það er gott að hafa skóla í héraði. Ekki bara grunnskóla heldur líka framhaldsskóla. Nú á að spara á næsta ári og sá sparnaður eins og svo margt virðist engu skila öðru en smölunar nemenda af öllu landinu til Reykjavíkur. Undarlegur iðnaður er það sem unnin er í ráðuneyti menntamála. Er kominn einhver Scrooge í fólk? Sparnaður dagsins heitir reiknilíkan - ekki sparnaður eða niðurskurður. Öllu þarf nú að gefa nýtt nafn. Eftirfarandi sendu furðulostnir kennarar af NV-landi í fjölmiðla vegna þessara aðgerða:

Opið bréf til þingmanna Norðvesturkjördæmis

Við undirritaðir viljum með bréfi þessu vekja athygli á stöðu verknámsdeilda framhaldsskólanna í frumvarpi til fjárlaga 2007.

Allt iðnnám til Reykjavíkur?

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 verður dregið úr fjárframlögum til verknáms í framhaldsskólum. Þetta er gert með því að gera ráð fyrir fleiri nemendum í hópum í iðnnámi og öðrum starfsbrautum. Þetta er gert í gegnum svokallað reiknilíkan menntamálaráðuneytisins og er raunar ekki í fyrsta skipti sem skólar verða fyrir barðinu á því. Frá því það var tekið upp hefur það oft verið notað til að skerða fjárframlög til framhaldsskólanna.

Í nýjum viðmiðunarreglum frá menntamálaráðuneytinu er breytt fjöldaviðmiðum í áföngum í starfsnámi. Þar er miðað við að í fagbóklegum áföngum sé lágmark

18 nemendur á sama tíma og hámarks viðmið í verklegum áfangum er 12 nemendur. Lágmarksviðmið í fagbóklegum áföngum er sett vegna hagkvæmnissjónarmiða en hámarksviðmiðið í verklegum áföngum er sett af öryggisástæðum. Á sama tíma og þetta er gert er einnig aukin krafa um heildarnýtingu kennslustunda innan skólanna, og verður hún núna 80%. Má af þessu sjá að svigrúm skóla til að halda úti iðn- og/eða starfsnámi minnkar mjög, þar sem fullur hópur dugar ekki til að ná ofangreindu nýtingarhlutfalli.

Iðnnám er í eðli sínu dýrt nám. Nemendur eru vegna öryggissjónarmiða fáir og aðstaða og búnaður dýr. Þegar við bætist að viðmið er sett óhóflega hátt og aðsókn minnkar er viðbúið að illa fari. Það er augljóst að framhaldsskólar Norðvesturkjördæmis verða að skera niður í iðngreinum og jafnvel fella út.

Nú þegar á iðnnám undir högg að sækja í þessum skólum.

Á sama tíma og eftirspurn eftir iðnmenntuðu fólki hefur aukist, er kreppt að skólunum með þessum aðgerðum. Langar okkur undirritaða að spyrja ykkur þingmenn þessa kjördæmis hvernig geti staðið á þessari vitleysu? Ekki hefur vantað stóru orðin í hátíðarræðunum um að auka veg starfsnáms. Er það virkilega raunin að þingmenn okkar, hvar í flokki sem þeir standa, ætli að horfa á aðgerðarlausir? Þá er hætta á að iðnnám verði flutt frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, þar sem stærðarinnar vegna er hægt að halda þessi viðmið. Ef svo er, þá er það döpur niðurstaða, þar sem sífellt er talað um að gera verknámi hærra undir höfði.

Við skorum á ykkur að koma í veg fyrir að starfsnám verði lagt af í kjördæminu.

Verknámskennarar við:

Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranesi
Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra
Menntaskólanum á Ísafirði


Allt satt og rétt!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home