föstudagur, nóvember 10, 2006

Grjóthrun


Grjóthrunið mætir til leiks á laugardaginn. Lýður er í miklum ham enda tilnefndur til Edduverðlauna þetta árið. Læt hér fylgja meistaraverk Braga Valdemars um Víkina

Lesbók - Gagnrýni: Nói albínói

Ekki veit ég hvað ungum kvikmyndagerðarmanni gengur til, þegar hann heldur af stað með fríðu föruneyti, peningakistlum og vistum til að taka kvikmynd í fullri lengd - og velur til þess, fram yfir allar þær fannfergðu fjallahvilftir sem finnast á Vestfjörðum, - sjálfast erkiklóak hins siðmenntaða heims, vítispyttinn og ömurðarkvosina Bolungarvík!

Þetta þykja mér undarleg vinnubrögð, sérdeilis og sér í lagi í ljósi þess að steinsnar frá gallfylltri dómsdagsvíkinni þeirri arna má finna glitrandi perlu, unaðsreit sem hvílir þögull milli fannfergðra fjallstinda og horfir yfir djúpið. Já þar má líta heiðbláan Hnífsdalinn, hlýlegan, gjöfulan.

En það var ekki nógu gott fyrir borgalinn uppskafinn sirkússtjóra að sunnan, nei. Hann þeysti í blindni framhjá dalnum hvíta með allt sitt hafurtask, kaffi og meððí og kaus heldur að fremja sín vélabrögð og drísilkúnstir á náströndum þeirra Bolunga.

Gott og vel. Ég kyngdi stoltinu, beit mig fastan í stólbakið og lét mig hafa að horfa á ósköpin, enda sanngjarn maður. Mér að óvörum var myndin góð, meir að segja mjög góð - og smám saman fyrirgaf ég strákkvikindinu næstum að hafa valið þennan ógeðfellda tökustað.

Nói sjálfur var frábærlega leikinn af vandlega rökuðum pilti, hálffrönskum, og var ekki laust við að óvanalegt látbragð hans næði að hluta að bræða mitt helfrysta hjarta. Aðrir stóðu sig bærilega, þó ég fyrirgefi fjandakornið engum að taka að sér hlutverk andskotanna í norðri.

Sagan er einföld, einsemd og tilbreytingarþurrð veraldarhjarans skín úr hverju smáatriði og undir lokin óttast maður jafnvel pínulítið um afdrif Nóa. En allt fer þó vel að lokum og víkarahelvítin fá makleg málagjöld.

Og nú sum sé flakkar um heiminn bíómynd úr Bolungarvík, þessu höfuðbóli viðurstyggðar og óeðlis, Gómorru norðursins. Hef ég fyrir satt að myndin hali inn hin og þessi verðlaun og er það í sjálfu sér gott og blessað - en eitt vil ég þó segja leikstjóranum knáa að skilnaði: Það þýðir ekki að steyta hnefa og sjúga í nös að ári þegar þú horfir volandi á eftir óskarnum í hendur einhvers brasilísks fúskara - þá er of seint að slá upp búðum í Hnífsdal.


Þetta er einkar myndrænn kvikmyndadómur....

5 Comments:

At 12:49 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Það er vonandi að Valdemar/Nói geri fyrir Bolungavík það sem Borat er að gera fyrir Kazakhstan...

 
At 7:41 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Nefnið mér einn Ísfirðing/Hnífsdæling sem ekki hefur haft þessa skoðun á Bolungarvík!!!!!!!!!!
Og nefnið líka í leiðinni Bolvíking sem ekki hefur haft svipaða skoðun á Ísafirði!!!!!!!!!

 
At 10:17 f.h., Blogger Grimur said...

Við Súðvíkingar erum alveg lausir við svona nokkuð Hins vegar hef ég alltaf haft horn í síðu þeirra sem búa í öðrum hverfum en 105 í Reykjavík.....utan Kriss sem er auðvitað ekkert meira en innflytjandi....

 
At 11:34 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þeir vissu líka að þessu, því þegar þeir auglýsa myndina þá er það fjall í Önundarfirði sem príðir auglýsingaplaggatið!
kveðja
Halla SK

 
At 1:17 e.h., Blogger Grimur said...

Var það ekki bæjarhóllin í Önundarfirði?

 

Skrifa ummæli

<< Home