fimmtudagur, mars 29, 2007

Grjóthrun í Hólshreppi

Grjóthrunið hefur verið við upptökur að undanförnu og stefna á landvinninga. Reyndar varð upplausn í bandinu þegar einn limurinn ákvað að elta pólitískar ambisjónir sínar og bjóða sig fram til alþingis. Þetta setti nokkuð strik í þá hlutleysisstefnu sem viðhöfð hafði verið til þess dags. Eftir marga fundi og stranga náðust loks sættir. Þeir sem harðast deildu voru ónefndur bassaleikari og títtnefndur frambjóðandi. Bassaleikarinn vildi meira pönk á meðan frambjóðandinn hugaði að markaðssókn og búningum. Sættin felst í því að frambjóðandinn fær að sitja áfram á sínum lista – þrátt fyrir að hann sé í baráttusæti og allar lýkur á að hann setjist á þing – gegn því að búningar verði lagðir á hilluna og gítarsólóum verði stillt í mikið og gott hóf. Einnig verður hljóðblandað á hlutlausu landi og því haldið í Önundarfjörð til þess at arna. Við þessar málalyktir var hrært í vöfflur og haldið í Rúgbrauðsgerðina þar sem samningar voru undirritaðir.

Hér er svo Eliza Wrona – með aðeins of miklu Dolby fyrir minn smekk en það lagast í Önundarfirðinum.

þriðjudagur, mars 20, 2007

Furðulegt

Sumt er fábreyttum manni eins og mér fyrirmunað að fá nokkurn botn í. Ég tek heilshugar undir þessa yfirlýsingu frá Félagi heyrnarlausra:

Félag heyrnarlausra harmar mjög að frumvarp um viðurkenningu á íslensku táknmáli náði ekki í gegn á þessu þingi. Þetta hefur slæm áhrif á heyrnarlausa í samfélaginu þar sem barist hefur verið fyrir réttindum heyrnarlausa í áratugi. Máli okkar var enn vísað frá við þinglok. Félag heyrnarlausra gefst ekki upp í þessari réttindabaráttu og við vonumst til að fá stuðning í haust.

mánudagur, mars 19, 2007

Stutt samantekt

Flutningur opinberra starfa út á landsbyggðina hefur verið í umræðunni að undanförnu. Í samantekt iðnaðarráðuneytisins um þróun opinberra starfa á árunum 1995-2005, vegna fyrirspurnar Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, kemur margt athyglisvert fram. Landbúnaðarráðherra ku hafa verið sérstaklega iðinn við kolann og hefur skapað vel á annað hundrað störf í kjördæmi sínu. Gott hjá honum. Öðrum svæðum er flestum afar vel sinnt. Það er þó tvennt sem slær mig í þessari samantekt iðnaðarráðuneytisins: Í fyrsta lagi aumingjaskapurinn í flutningi opinberra starfa til Vestfjarða og í öðru lagi yfirlit yfir hve mörg opinber störf urðu til á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma. Opinberum störfum á Vestfjörðum hefur fjölgað um heil 6 frá árinu 1995. Það verður að teljast afleitur árangur.

Alverst í þessum málum er þó undarlegur flutningur opinberra starfa frá svæðinu til höfuðborgarinnar. Slíkar aðgerðir eru gjarnan vel faldar og þurfa ekki alltaf að liggja í því að opinbert starf er lagt niður á viðkomandi stað. Það er nefnilega þannig að ýmsir einkaaðilar hafa sinnt opinberum stofnunum út um allt land. Þannig hafa bókhalds- og endurskoðunarfyrirtæki sinnt heilbrigðisstofnunum á Ísafriði og í Bolungarvík um langt árabil. Nú hefur því verið breytt og þessi störf flutt til ríkisendurskoðunar. Þetta er stórmerkilegt og tel ég víst að engar krónur hafi sparast með þessari aðgerð – líklega hefur kostnaðurinn aukist. Þetta gerist á sama tíma og ratsjárstöðin á Bolafjalli flyst að mestu á Miðnesheiðina og með henni 9 stöðugildi. Bakvinnsla sem áður fór fram á Ísafirði fer nú fram hjá Reiknistofu bankanna. Velta Sparisjóðs Vestfirðinga minnkaði um 700 milljónir við þessa arfavitlausu aðgerð.

Til þess að ramma það inn í eitt skipti fyrir öll að Vestfirðir eru ekki baggi á þjóðinni er hollt að enda á eftirfarandi samantekt:

Aflaverðmæti á svæðinu: tæpir 6 milljarðar á ári
Útflutningsverðmæti: 10 milljaðrar á ári.
Tekjuskattar einstaklinga: 3.5 milljarðar
Hagnaður vestfirskra banka árið 2006: 1 milljarður.
Fjármagnstekju- og fyrirtækjaskattar: ekki ljóst en umtalsverðar upphæðir þar sem á svæðinu eru rekin blómleg fyrirtæki og talsverður fjöldi lifir á fjármagnstekjum eingöngu.

Það er rangt að halda því fram að Vestfirðir séu illa rekið svæði. Verðmætin sem stöndug og framsækin fyrirtæki skila þjóðarbúinu eru langt umfram það sem svæðið tekur úr ríkiskassanum á móti. Vöruskipti við útlönd eru jákvæð á Vestfjörðum en opinberar framkvæmdir eru á sama tíma í algjöru lámarki.

Ég er algjörlega með strandsiglingar á heilanum og lýk máli mínu alltaf á þeim. Hafnirnar sem skapa m.a. þessi gríðarlegu verðmæti hafa þurft að horfa á annarri af tveimur tekjulindum sínum sem eru útflutningstekjur. Með beinni aðgerð ríkisins var komið stoðum undir stærstu höfn Íslands sem eru Faxaflóahafnir. Útflutningur fer að langmestu leyti um þessa höfn þrátt fyrir að verðmætin séu sköpuð í 400-1000 km. fjarlægð frá höfninni. Þetta gerði ríkið með því að niðurgreiða landflutninga þannig að strandsiglingar lögðust af. Hvað ætli Faxaflóahafnir hafi grætt á þessari “byggðaaðgerð” ríkisins?

föstudagur, mars 16, 2007

Núll og nix


Af hverju ekki kynlíf með Zero forleik? Spyr Vfífilfell og eru bara svona ljómandi hressir. Þeir botna ekkert í móðursjúku vælukjóunum sem finna að þessum orðum.

Stefán Torfi Sigurðsson hjá Vífilfelli segir :

Það er afturhvarf til fortíðar í tíðarandanum þessa stundina. Mér finnst þurfa svolítið góðan vilja til að sjá eitthvað hroðalegt út úr þessu slagorði. Slagorðin í herferðinni eru öll í þessum gír: Af hverju ekki að snúa sér beint að kjarnanum og ekkert vesen.

Af hverju ekki að snúa sér að kjarnanum og ekkert vesen? Það þarf nú ansi góðan vilja til þess að mislíka ekki slíkar orðsendingar í tengslum við kynlíf. Tíðarandi sem byggir á því að ganga allt af einu skrefi lengra í dag en í gær er heldur ömurlegur enda held ég að fólk sé almennt ekki á bylgjulengd Vífilfells í þessum efnum.

Má ég þá heldur biðja um langan forleik með malti og appelsíni....ekkert Zero takk!

mánudagur, mars 12, 2007

Steingrímsfjarðarheiði

Steingrímsfjarðarheiði er heiði sem mér er ekkert sérstaklega vel við. Vond heiði að fara yfir – veður oft válynd. Lenti í hremmingum þar fyrir viku – velti bílnum með dýrmætan farm innanborðs. Er óendanlega feginn að hafa sloppið með skrámur og börnin mín algjörlega heil. Þakka líka fyrir að gott fólk kom innan við 20 mínútum eftir óhappið þar sem símasambandslaust er á heiðinni. Botna ekkert í því Steingrímsfjarðarheiði skuli ekki hafa verið efst á forgangslistanum varðandi GSM senda á fjallvegi landsins. Holtavörðuheiðin er núna komin í samband, sem er gott, en munurinn á Steingrímsfjarðarheiði og Holtavörðuheiði er að sú fyrrnefnda er fáfarnari. Þar af leiðir getur fólk þurft að bíða lengur eftir hjálp þar en á t.d. Holtavörðuheiðinni. Hefði ekki verið skynsamlegt að tengja fyrst fáfarnari heiðar?

föstudagur, mars 09, 2007

Óttinn

Óttinn er við völd. Fyrirtæki og stjórnendur þeirra eru þessa dagana áberandi í óttaumræðunni. Ef við fáum ekki að stækka þá förum við. Ef við getum ekki gert allt upp í evrum þá förum við. Ég get vel skilið að fyrirtæki þurfi að auka hagnað sinn og bæta afkomu sína. En mér finnst harla aumingjalegt að hóta hinu og þessu ef menn fái ekki þetta eða hitt......

fimmtudagur, mars 08, 2007

Aftur og enn

Gunnar Þórðarson sendir mér tóninn hér á Bæjarins besta vegna skrifa minna um strandsiglingar. Hann segir mig vera illa upplýstan og dregur í efa ýmislegt sem ég lagt fram. Það er vissulega rétt hjá Gunnari að Marco Polo snýst um að koma flutningum af vegum yfir á sjó. Það er einmitt það sem ég er að benda á í mínum skrifum. Við eigum rétt eins og Evrópusambandsríkin í stórkostlegum vanda með stóra flutningabíla á vegum landsins. Vegakerfi okkar er rétt eins og vegakerfi Evrópu löngu sprungið – þrátt fyrir aðrar forsendur. Það má vel vera að erfitt hefði verið fyrir okkur að taka þátt í Marco Polo en það er afleitt hversu lítið það var kannað og að fyrirframgefnar úrtölur misupplýstra manna réðu þar úrslitum.

Gunnar Þórðarson hefur ofurtrú á frjálshyggju og markaðslausnum. Hann trúir því að með því að efla vegakerfið lækki flutningskostnaður og þá muni horfa til betri vegar. Þetta er að nokkur leyti rétt en þó verulega gölluð hugmynd. Fyrirtæki og einstaklingar á Vestfjörðum þurfa að brúa bilið þangað til bundið slitlag verður komið á Arnkötludalinn. Það er afleitt að hafna aðkomu ríkisins að strandsiglingum með frjálshyggjurökum við þær aðstæður sem nú eru uppi. Þungatakmarkanir, vondir vegir og slæmt veður setja stöðugt strik í reikninginn og takmarkar möguleikana til vaxtar á svæðinu.

Það sem eyðileggur vegina okkar er þungi. Þetta þýðir með öðrum orðum að einn flutningabíll með 11,5 tonn í öxulþunga brýtur niður vegina í einni ferð jafn mikið þúsundir fólksbíla sem aka sömu leið. Þegar Vegagerðin er að reikna út slit vega er slit fólksbifreiða ekki tekið með í reikninginn því slit af þeirra völdum er svo hverfandi miðað við flutningabifreiðar.

Sú fullyrðing að landflutningar séu niðurgreiddir byggist ekki síst á þessum staðreyndum; flutningabílar greiða ekki gjöld til viðhalds vega í samræmi við það slit sem þeir valda að frátaldri þeirri hættu á slysum sem þung umferð þeirra veldur á vegunum. Nú stendur íslenskt samfélag frammi fyrir því að nauðsynlegt er talið að verja um 100 milljörðum króna til viðhalds vega. Þungaflutningar um vanþróað þjóðvegakerfi eiga stærstan þátt í að sú þörf er til staðar. Fram hjá því getur Gunnar Þórðarson ekki litið.

Það er mér ráðgáta hvaða málstað Gunnar er að verja í skrifum sínum. Hann segir m.a.:
Hins vegar hafa hafnir landsins verið stórkostlega niðurgreiddar af ríkinu í gegnum árin en breyting verður á því á þessu ári. Það er vegna kröfu um samkeppni sem komin er til af samningum okkar um evrópskt efnahagsvæði. Fullyrðingar um að hafnir landsins séu niðurgreiddar meira en vegir landsins eru út í hött. Það er alrangt að samningur okkar um evrópskt efnahagssvæði setji okkur þær skorður að hafnarsjóður Þórshafnar og hafnarsjóður Antverpen séu fyrirtæki í sambærilegum rekstri. Það er ekkert sem bannar það að hafnir landsins, rétt eins og þjóðvegir landsins, sé viðhaldið af ríkinu. Evrópusambandið bannar íslenska ríkinu ekkert í tengslum við hafnirnar en grandvaraleysi okkar og vanþekking veldur því að við tókum upp arfavitlaus lög sem gera flestum höfnum landsins erfitt fyrir.

Hafnirnar á Íslandi eru undirstaða byggðar í landinu – hvort sem horft er til Reykjavíkur eða Súðavíkur.

Sturlu svarað

Sturla Böðvarsson kýs að fara heldur neikvæða leið í svörum sínum við grein minni um strandsiglingar og Evrópusambandið. Í viðtali sem birtist í Bæjarins besta þann 2. mars sl. segir Sturla:

Grímur bæjarstjóri virðist hinsvegar hafa meiri áhuga á að slá pólitískar keilur og berja á stjórnvöldum en leita leiða sem eru færar. Tilvísanir til hugmynda frá fulltrúa sveitarfélaganna í Brussel stoða lítt þegar þær eru byggðar á misskilningi eða rangfærslum eins og fram hefur komið í fullyrðingum Gríms Atlasonar. Flutningskostnaður verður ekki lækkaður með því einu að slá lyklaborðið á tölvu bæjarstjórans í Bolungarvík og breiða út misskilning sem er til þess gerður að vekja óraunhæfar væntingar.

Rökþrota ráðherra
Mér þykir leiðinlegt að samgönguráðherra eigi ekki önnur svör en þau að reyna að gera lítið úr mér og þeim staðreyndum sem ég tel mig hafa rökstutt með ágætum hætti. Flutningskostnaður verður ekki lækkaður með tölvuslætti mínum – það er rétt – en kannski verður hann til þess að menn hætta að halda hinu og þessu fram sem er ósatt. Á meðan sveitarstjórnarmenn leggja hausinn í bleyti og benda á leiðir rýkur samgönguráðherra upp og hreytir ónotum í menn og segir þá fara með fleipur. Þetta er ómerkilegt. Við sem búum og störfum í landsfjórðungnum sem Sturla er þingmaður fyrir höfum áhyggjur af ástandinu og það hefur ekkert að gera með lit pólitískra skoðana. Mér sýnist ráðherrann vera með öllu rökþrota.

Sturla sakar mig einnig um að leita ekki leiða heldur aðeins gagnrýna. Þetta kemur úr hörðustu átt. Leiðirnar sem eru færar eru mýmargar og hefur undirritaður bent á nokkrar ásamt því að mæta með öðrum forystumönnum sveitarfélaganna á Vestfjörðum á fund ríkisstjórnarinnar þar sem margar leiðir voru kynntar. Staða margra fyrirtækja á Vestfjörðum er með þeim hætti að 30-60% aukinn flutningskostnaður er of stór biti til að kyngja þó vissulega horfi til betri vegar á hluta svæðisins eftir 3 ár. Þá eiga samgöngur á landi að vera orðnar skaplegar. Ríkisstjórnin afrekaði það þó að seinka bundnu slitlagi um 1 ár með umdeildum þensluletjandi aðgerðum sl. haust. Hár flutningskostnaður er staðreynd og það er gott að fá það á hreint að Sturla Böðvarsson ætlar ekki að gera neitt til þess að brúa bilið þangað til að samgöngur á landi verða viðundandi.

Marco Polo II
Sturla segir Marco Polo áætlunina vel kynnta hér á landi – ég spyr á móti hvers vegna er Marco Polo II ekki búin að vera á dagskrá sem kynningarherferð á vegum samgönguráðuneytisins sl. misseri? Áætlunin tekur til áranna 2007 til 2013 og getur ef rétt er haldið á spilunum skipt byggðir landsins miklu máli. Það hefði mátt sækja styrk til Evrópu fyrir allt að 35% af kostnaðinum. Það er kannski rétt hjá Sturlu að sveitarfélögin og skipafélögin hefðu átt að vinna málið sjálf. En ég geri þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands að hún gæti hagsmuna alls landsins og haldi okkur öllum vel upplýstum. Það er starf ráherrans hverju sinni nema ef vera skyldi að fólksfækkun og erfiðleikar byggðarlaga séu það sem er á stefnuskrá ráðherrans – sem ég trúi ekki. Svona til glöggvunar á Marco Polo II má benda á eftirfarandi vefslóð: http://ec.europa.eu/transport/marcopolo/faq/doc/faq.pdf.

Það er enginn að tala um að taka upp rekstur ríkisskipa aftur heldur er aðeins verið að benda á stuðning við strandsiglingar þann tíma sem halli er á flutningum. Forsvarsmenn Atlantsskipa hafa einnig bent á áhugaverða leið en Sturla kýs að hafna þeim alfarið. Hvernig ætli standi á þessum þvergirðingshætti?

Hafnir og hafnarlög
Fyrst ég er kominn á skrið er ekki úr vegi að líta á vægast sagt undarleg hafnarlög sem tóku gildi fyrir nokkrum árum. Þar er gert er ráð fyrir að hafnir landsins séu sjálfbærar og standi undir rekstri með gjaldskrá. Tilskipanir frá Evrópu hafa verið nefndar sem helsta ástæða þessara nýju laga. Hafnir landsins eru í samkeppnisrekstri og settar á bás með stærstu höfnum Evrópu. Þannig eiga hafnir eins og Raufarhöfn og Þórshöfn að berjast um trillurnar. Þetta er auðvitað fásinna og með öllu óskiljanlegt. Mig grunar reyndar að þegar þessi lög voru smíðuð hafi sama vanþekkingin á málefnum Evrópu verið upp á teningnum og þegar Ísland kokgleypti raforkutilskipunina fyrir nokkrum árum. Sú tilskipun átti við um allt aðrar aðstæður en þekkjast á Íslandi og auðveldlega hefði mátt komast hjá því að innleiða hana hér á landi.

Dæmi um hve undarlegur samanburðurinn er má sjá á eftirfarandi dæmi. Bolungarvíkurhöfn þarf á þessu ári að endurnýja þekju og stálþil fyrir tæpar 150 milljónir kr. Hafnarsjóður Bolungarvíkur greiðir 40% af kostnaði við stálþilið og 30% af þekjunni og greiðir ríkissjóður afganginn. Hafnarsjóður Bolungarvíkur veltir rúmum 30 milljónum kr. árlega og getur klárlega ekki fjármagnað slíkar breytingar án þess að steypa sér í skuldir. Til samanburðar hefur Antwerpenhöfn undanfarin ár staðið í miklum lagfæringum á viðleguköntum og þekju. Kostnaðurinn er um tæpir 60 milljarðar kr. og er ýmist greiddur 60% af ríkinu eða að fullu. Antwerpenhöfn er ein af stærstu höfnum í heimi velta hafnarinnar árið 2005 var yfir 90 milljarðar kr. Höfnin skilaði hagnaði upp á rúma 3 milljarða kr. árið 2005. Antwerpenhöfn er samt ekki ætlað að standa undir öllum rekstri og viðhaldi af hafnargjöldunum einum saman.

Það er með ólíkindum hvernig stjórnvöldum tekist að setja stein í rekstur sveitarfélaganna í landinu með furðulegum lögum og reglugerðum sem eiga hingað ekkert erindi. Ég vona að ríkisstjórn Íslands sjái að sér og jafni flutninga til og frá Vestfjörðum án tafar. Fjórðungurinn getur ekki beðið næstu 3 ár – það er of langur tími.