þriðjudagur, júní 05, 2007

Á mölinni

Hafliði Helgason á Fréttablaðinu ákvað að vera svolítið töff og svona hundraðogeinskur í leiðara um helgina. Líkti Flateyri og Vestmannaeyjum við Djúpuvík og Haganesvík. Alveg hreint klassísk borgar-analýsa fylgdi:

Enda þótt full ástæða sé til að hafa samúð með því fólki sem þróunin sviptir vinnunni er engu að síður nauðsynlegt að horfast í augu við staðreyndir. Samkeppni við fiskvinnslu annar staðar, svo sem í Kína, mun þýða að fiskvinnsla á Íslandi á ekki möguleika ef greinin á að standa undir lífskjörum sem eru einhvers staðar í námunda við núverandi lífskjör. Rækjubrauðsneið á veitingastað í Kaupmannahöfn er með Norðursjávarrækju sem landað er á Jótlandi, þaðan er ekið með hana til Póllands og hún send pilluð til baka til Kaupmannahafnar.

Merkileg er einföldun. Bækur eru prentaðar í Eistlandi, föt eru saumuð í Víetnam, forrit gerð á Indlandi og stál framleitt í Kína. Allt hefur þetta áhrif á störf hér í gamla heiminum. Prentarar, skraddarar, járnsmiðir og forritarar finna fyrir afleiðingunum. Atvinnuleysi fer vaxandi í hinum vestræna heimi og menn hafa áhyggjur af þróuninni. Lífskjör batna ekki við þróun Hafliða – hún er ágæt meðan hún varir en springur í andlitið á okkur fyrr en varir.

Það er ótrúleg bernska að halda að þensluspilaborgin standi til eilífðar. Hún er ekki byggð á traustum grunni sem stendur allt af sér. Ofurtrú manna á peningum og óforgengileika mun koma mönnum í koll.

Þróunin sem Hafliði talar um þegar hann ber byggðirnar sem fóru í eyði á síðustu öld við þær byggðir sem hafa lent í áföllum í dag er afskaplega vond. Djúpavík og Haganesvík urðu aldrei að 20. aldar byggðum ólíkt Vestmannaeyjum og Flateyri sem staðið hafa af sér hremmingar aldanna.

Hafliði lýkur þessum borgarvísindum sínum svona:
Þetta eru staðreyndirnar sem blasa við. Mótbárur við þessari þróun eru oft á rómantískum grunni fremur en raunsæjum. Afnám kvótakerfisins myndi engu breyta um þróunina.

Hvaða þróun? Að vestræn fyrirtæki þurfi sífellt að skila meiri arði og því framleiða þau allt í 3. heiminum og stórauka þannig félagsleg vandamál í heimalöndum sínum auk þess sem siðferðisþröskuldar nær hverfa með fyrirbærum eins og barnaþrælkun o.fl.? Eða er það bara Flateyri og Raufarhöfn og að allir flytji burt í Grafarvoginn vegna þess að fiskveiðar- og vinnsla leggst af? Hefur verið látið reyna á nýtt kerfi?

Það verður að gera greinarmun á þróun og náttúrulögmálum. Byggðaþróun er ekki dæmi um náttúrulögmál. Mennirnir hafa talsverð áhrif á þróun atvinnu- og byggðamála. Ég held að okkur væri nær að taka upp nýja hugsun sem byggir á sjálfbærri vistvænni hugsun sem tæki mið af þörfum sem flestra – ekki aðeins bankakerfisins.

1 Comments:

At 8:15 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

láttu þessi helvíti heyraða...

Sumt fólk þá einkum til hægri í pólitík og oftar en ekki vel malbikað, miða alla tilvist mannkyns (sem fyri þeim er hin vestræni heimur) við arðsemi og gengi fyrirtækja

 

Skrifa ummæli

<< Home