miðvikudagur, maí 23, 2007

Fiskveiðistjórnunarkerfi og grunnþjónusta

Fiskveiðastjórnunarkerfið, sem komið var á fyrir rúmum 20 árum, átti að styrkja byggðirnar og vernda fiskinn. Við lögleiðingu þessa kerfis má segja að nútímavæðing sjávarútvegsins hafi hafist og bein afskipti ríkisins fóru minnkandi með hverju árinu sem leið. Í dag er það lögmál frelsisins sem ræður ríkjum með öllum þeim kostum og göllum sem slíku fylgir. Veruleg hagræðing hefur átt sér stað í sjávarútveginum og hefur það leitt af sér meiri verðmætasköpun og meiri hagnað fyrirtækjanna.

Gallar kerfisins eru hins vegar stórkostlegir. Samþjöppunin og hagræðingin hefur komið af stað vítahring þegar kemur að verðlagningu kvóta – og gildir það jafnt um kaup og leigu. Það er hagur kvótaeigandans að hlutabréf hans, sem í þessu tilfelli eru óveiddir fiskar, hækki jafnt og þétt. Þetta hvetur til brasks því enginn ætlar sér að missa af lestinni né detta af baki ef verðin skyldu lækka. Þegar slíkt umhverfi blandast saman við óstöðugleika í efnahagslífinu eins og við höfum gengið í gengum undanfarin ár er voðinn vís.

Í dag má segja að útgerðin sé á öldutoppi. Afurðaverð er gott og kvótaverð aldrei hærra. Það eru hins vegar blikur á lofti. Hugsanlegt þykir að Hafró skeri niður hámarksafla næsta ár og krónan fer hækkandi. Það er óheilbrigt að við slíkar aðstæður sitji eitt fyrirtæki í hverju þorpi með allt atvinnulífið á staðnum í höndunum.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins þann 20. maí sl. ber stöðuna á Flateyri í dag saman við stöðuna í Bolungarvík árið 1993 þegar stórveldi EG sigldi í þrot. Vissulega er staðan sambærileg að því leyti að stór hluti bæjarbúa starfaði þá hjá EG líkt og hjá Kambi á Flateyri. Munurinn liggur hins vegar í þeim verðmætum sem liggja í kvótaeigninni og þeirri breytingu sem orðið hefur á veðsetningu og viðskiptum með aflaheimildir. Þeir sem stóðu að EG höfðu ekki í hyggju að leggja upp laupana en neyddust til þess, þeir áttu ekki þá útgönguleið sem blasir við eigendum Kambs. Þeir aðilar eru reyndar enn að starfa við sjávarútveg í Bolungarvík. Málin eru því í raun gjörólík. Annað fyrirtækið varð gjaldþrota á meðan hitt leggur upp laupana og fer út úr greininni með gríðarlega fjármuni vegna sölu aflaheimilda.

Það er rétt athugað hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins þegar hann bendir á þá staðreynd að eins sé farið víða um land. Með óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi má búast við því að sagan frá Flateyri endurtaki sig. Kerfið býður upp á þessa útgönguleið sem þýðir að menn geta gengið út með milljarða úr greininni og eftir situr heilt byggðarlag með sárt ennið. Út um allt land eru strangheiðarlegir útgerðarmenn sem ætla sér fyrst og fremst að gera það sem þeir gera best: að gera út. Þeir nýta aflaheimildir sínar til fulls og eru ábyrgir atvinnurekendur. En það er því miður ekki nóg. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur ekki styrkt byggðirnar heldur hefur algjörlega snúist upp í andhverfu sína. Við því verður að bregðast. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að hér sé um eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar að ræða. Það þarf að endurvekja þá byggðahugsun sem var hluti af fiskveiðistjórnarkerfinu í upphafi og styrkja forgang fólksins í sjávarbyggðunum til þess að nýta auðlindina sem er hér rétt við bæjardyrnar.

Önnur verkefni nýrrar ríkisstjórnar, vegna stöðu Vestfjarða og annarra byggða landsins, snúast um grunnþjónustu. Uppbygging grunnþjónustunnar hefur gengið það hægt á Vestfjörðum að fábreytni í atvinnulífi er staðreynd og ný fyrirtæki þurfa að stíga yfir hærri þröskulda en í öðrum landshlutum vegna ástands fjarskiptamála, lélegs vegakerfis og lélegs raforkukerfis. Þetta er hið raunverulega ástand og það þýðir ekkert að malda í móinn með það – fiskveiðistjórnunarkerfið og seinagangi við uppbyggingu á grunnþjónustunni eru helstu orsakir stöðunnar.

Í þeirri stöðu sem nú blasir við á Vestfjörðum þurfa stjórnvöld, auk þess að endurreisa byggðahugsun í fiskveiðistjórnuninni fyrst og fremst að endurskoða samgönguáætlun frá grunni og hraða þarf verkefnum eins og frekast er unnt. Við jarðgangagerð þarf að hugsa til framtíðar ekki aðeins til dagsins í dag og því þarf að endurskoða framkvæmdir sem nú eru á teikniborðinu og taka djarfar ákvarðanir. Einnig þarf að huga strax að því að hringtengja rafmagn og setja línur í jörðu. Það er líka kominn tími til að standa við fyrirheit um að íbúar og atvinnulíf hér hafi sambærilegan aðgang að háhraðatengingum og öðrum Íslendingum þykir sjálfsagður. Þessi brýnu verkefni hafa beðið of lengi og ættu að vera efst á forgangslista nýrrar ríkisstjórnar.

1 Comments:

At 8:30 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Góðan daginn Grímur.
Hvort er betra að stjórnendur fyrirtækja í sjávarútvegi geti selt eignir fyrirtækisins og greitt allar skuldir sínar, eða einsog þessi dæmi sem að þú varst að bera saman í þínum pistli, þar sem að annað fyrirtækið fór í gjaldþrot og margir töpuðu væntanlega stórum fjárhæðum, hvor leiðin er betri fyrir samfélagið í heild þegar upp er staðið. Það getur ekki verið þannig að sjávarútvegur eigi að vera hin virka byggðastefna hann mun aldrei standa undir því einn, þær breytingar sem aðeru að verða á íslensku samfélagi þurfa vitaskuld að endurspeglast út um allt landið þær atvinnugreinar sem hafa vaxið hvað mest á undanförnum árum þurfa að axla sína samfélagslegu ábyrgð líka úti um landið, sjávarútvegur þarf að fá viðurkennt að hann sé atvinnugrein sem að byggir á sömu lögmálum og aðrar atvinnugreinar en eigi ekki að vera hin eina sanna byggðastefna það mun aldrei virka.

 

Skrifa ummæli

<< Home