fimmtudagur, maí 03, 2007

Kató mælir enn með strandsiglingum

Málefni Vestjarða hafa verið á döfinni í aðdraganda kosninga. Vandi sveitarfélaga á svæðinu hefur verið tíundaður ásamt stöðu atvinnulífs. Sett var á laggirnar nefnd sem átti að greina vandann og koma fram með tillögur til úrbóta. Skipan nefndarinnar kom mörgum Vestfirðingum á óvart enda margar tillögur löngu framkomnar og þekktar. Tillögur nefndarinnar voru nokkuð rýrar en þó ber að fagna hugmyndum um flutning opinberra starfa til Vestfjarða. Það er hins vegar aðeins hluti vandans og lítið skref í átt til lausnar á þeim verkefnum sem brýnust eru. Hægt væri að halda langa tölu um tekjustofna og innistæður sveitarfélaganna hjá ríkinu en ég trúi því bábiljan um að ríkið eitt eigi að njóta t.d. fjármagnstekjuskattsins sé á miklu undanhaldi.

Nefndin fjallaði m.a. um flutningsjöfnun sem er ekki skrýtið. Flestir eru sammála um að hár flutningskostnaður sé afar aðkallandi mál fyrir Vestfirði. Segir m.a. í skýrslunni: Umræða um mögulegar leiðir til að lækka flutningskostnað fyrirtækja á landsbyggðinni hefur átt sér stað um nokkurt skeið. Ein þeirra leiða sem hafa komið til umræðu er endurgreiðsla hluta flutningskostnaðar með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni (bls. 19). Þetta er allt rétt en nefndin kýs að velja aðeins eina leið í þessu samhengi og minnist ekki á önnur atriði. Niðurstöðurnar vekja furðu:
Nefndin telur vandkvæði við endurgreiðslukerfi vegna flutningskostnaðar vera nokkur og ekki síst þau að kerfið kann að hafa önnur áhrif en að er stefnt....Með hliðsjón af þessu óöryggi með árangur af slíku kerfi er það álit nefndarinnar að þeim kostnaði, sem af þessu hlytist fyrir ríkissjóð, væru betur varið í að efla og hlúa að opinberri þjónustustarfsemi á Vestfjörðum (bls. 19-20).

Þetta stóra mál, flutningskostnaður á landsbyggðinni og ekki síst á Vestjörðum, afgreiðir nefnd sem á að skila raunhæfum tillögum með tæpri blaðsíðu þar sem best er talið að gera ekki neitt. Eftir sitjum við og spyrjum okkur hvað nefndin veit sem við ekki vitum? Hvaða önnur áhrif en að var stefnt kann þessi leið að hafa? Hvers vegna var skautað svona létt yfir þennan mikilvæga kafla? Af hverju voru strandsiglingar ekki teknar sem kostur? Hafði það ekkert að segja að allar sveitastjórnir á Vestfjörðum höfðu tekið undir með sjávarútvegsklasa svæðisins að niðurgreiðsla með útboði á strandsiglingum væri raunhæfasta leiðin?

Raunveruleikinn er sá að sjávarútvegsfyrirtæki hagræða og það má vel vera að sjávarútvegsráðherra hafi rétt fyrir sér þegar hann fagnar því að aldrei í sögunni hafi sjávarútvegsfyrirtæki skilað jafn miklum arði og einmitt nú. Skuggahliðin á þessu er sú að vegna þess hve uppbygging grunnþjónustu á Vestfjörðum hefur gengið hægt og verið sett aftarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar veikjast stoðir byggðarlaganna á svæðinu. Með ríkisafskiptum og niðurgreiðslum var því komið þannig fyrir að allur útflutningur fer í gegnum Sundahöfn eða Keflavíkurflugvöll. Strandsiglingar lögðust af og eftir sitjum við með þungaflutninga á þjóðvegum landsins sem í besta falli geta tekið við 5-10 tonna flutningabílum – en þurfa að bera tvöfalt til þrefalt meira. Sökum þessa fer fiskvinnsla hluta til fram á Suðvesturhorninu en fiskurinn er áfram veiddur fyrir Vestan.

Það er ástæða fyrir því að togararnir sigla með allan aflann suður í stað þess að landa honum á Vestfjörðum. Það er einnig augljós skýring á því hvers vegna aflinn sem landað er í höfnunum fyrir vestan fer beint á markað og þaðan í fiskiðjuverin þar syðra. Hér er lykilatriði málsins – flutningskostnaður er svo mikill að það er betra að fyrir togarana að sigla alla þessa leið eða keyra með hann óunninn. Hvernig stendur á því að nefnd um málefni Vestfjarða afgreiðir flutningsjöfnun með þeim hætti að hún sé eitthvað flókin og jafnvel verri en að gera ekki neitt? Það er óskiljanlegt og vekur upp margar spurningar. En það er ekki of seint að kasta aðgerðarleysinu fyrir borð og taka til við að framkvæma raunverulegar og raunhæfar úrbætur fyrir landið allt. Niðurgreiðsla strandsiglinga gagnast öllu landinu og sérstaklega sjávarplássum sem nú svíða vegna hliðarverkana fiskveiðistjórnarkerfisins og miðstýrðra byggðaaðgerða fyrir Reykjavík.

Flutningskostnaður bitnar auðvitað á öðrum fyrirtækjum sem eru að reyna að standa í atvinnurekstri á svæðinu. Þau hafa svo árum skiptir bent á þetta óréttlæti og þrátt fyrir bættar samgöngur sl. ár er enn langt í land. Fyrirtæki sem gætu hugsað sér að flytja starfsemi sína á svæðið hætta flest við þegar dæmið er skoðað ofan í kjölinn. Fyrirtækin sem fyrir eru hafa bent á þessa staðreynd svo árum skiptir en svo virðist sem rödd þeirra nái alls ekki eyrum stjórnvalda.

Boltinn er hjá stjórnvöldum – ég treysti því að forsætisráðherra spyrji sjálfan sig hvað hafi breyst frá því að fulltrúar allra sveitarstjórna Vestfjarða mættu á fund í byrjun febrúar. Þar voru strandsiglingar/flutningsjöfnun efst á forgangslistanum. Framkvæmi hann tillögur frá sveitarfélögunum auk þess að flytja þau opinberu störf sem nefndin lagði til eru bjartir tímar framundan fyrir Vestan.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home