fimmtudagur, mars 08, 2007

Aftur og enn

Gunnar Þórðarson sendir mér tóninn hér á Bæjarins besta vegna skrifa minna um strandsiglingar. Hann segir mig vera illa upplýstan og dregur í efa ýmislegt sem ég lagt fram. Það er vissulega rétt hjá Gunnari að Marco Polo snýst um að koma flutningum af vegum yfir á sjó. Það er einmitt það sem ég er að benda á í mínum skrifum. Við eigum rétt eins og Evrópusambandsríkin í stórkostlegum vanda með stóra flutningabíla á vegum landsins. Vegakerfi okkar er rétt eins og vegakerfi Evrópu löngu sprungið – þrátt fyrir aðrar forsendur. Það má vel vera að erfitt hefði verið fyrir okkur að taka þátt í Marco Polo en það er afleitt hversu lítið það var kannað og að fyrirframgefnar úrtölur misupplýstra manna réðu þar úrslitum.

Gunnar Þórðarson hefur ofurtrú á frjálshyggju og markaðslausnum. Hann trúir því að með því að efla vegakerfið lækki flutningskostnaður og þá muni horfa til betri vegar. Þetta er að nokkur leyti rétt en þó verulega gölluð hugmynd. Fyrirtæki og einstaklingar á Vestfjörðum þurfa að brúa bilið þangað til bundið slitlag verður komið á Arnkötludalinn. Það er afleitt að hafna aðkomu ríkisins að strandsiglingum með frjálshyggjurökum við þær aðstæður sem nú eru uppi. Þungatakmarkanir, vondir vegir og slæmt veður setja stöðugt strik í reikninginn og takmarkar möguleikana til vaxtar á svæðinu.

Það sem eyðileggur vegina okkar er þungi. Þetta þýðir með öðrum orðum að einn flutningabíll með 11,5 tonn í öxulþunga brýtur niður vegina í einni ferð jafn mikið þúsundir fólksbíla sem aka sömu leið. Þegar Vegagerðin er að reikna út slit vega er slit fólksbifreiða ekki tekið með í reikninginn því slit af þeirra völdum er svo hverfandi miðað við flutningabifreiðar.

Sú fullyrðing að landflutningar séu niðurgreiddir byggist ekki síst á þessum staðreyndum; flutningabílar greiða ekki gjöld til viðhalds vega í samræmi við það slit sem þeir valda að frátaldri þeirri hættu á slysum sem þung umferð þeirra veldur á vegunum. Nú stendur íslenskt samfélag frammi fyrir því að nauðsynlegt er talið að verja um 100 milljörðum króna til viðhalds vega. Þungaflutningar um vanþróað þjóðvegakerfi eiga stærstan þátt í að sú þörf er til staðar. Fram hjá því getur Gunnar Þórðarson ekki litið.

Það er mér ráðgáta hvaða málstað Gunnar er að verja í skrifum sínum. Hann segir m.a.:
Hins vegar hafa hafnir landsins verið stórkostlega niðurgreiddar af ríkinu í gegnum árin en breyting verður á því á þessu ári. Það er vegna kröfu um samkeppni sem komin er til af samningum okkar um evrópskt efnahagsvæði. Fullyrðingar um að hafnir landsins séu niðurgreiddar meira en vegir landsins eru út í hött. Það er alrangt að samningur okkar um evrópskt efnahagssvæði setji okkur þær skorður að hafnarsjóður Þórshafnar og hafnarsjóður Antverpen séu fyrirtæki í sambærilegum rekstri. Það er ekkert sem bannar það að hafnir landsins, rétt eins og þjóðvegir landsins, sé viðhaldið af ríkinu. Evrópusambandið bannar íslenska ríkinu ekkert í tengslum við hafnirnar en grandvaraleysi okkar og vanþekking veldur því að við tókum upp arfavitlaus lög sem gera flestum höfnum landsins erfitt fyrir.

Hafnirnar á Íslandi eru undirstaða byggðar í landinu – hvort sem horft er til Reykjavíkur eða Súðavíkur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home