miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Meðferð og börn


Óhuggulegar og óþægilegar staðreyndir um Breiðavík hafa dunið á okkur að undanförnu. Þar áður var það Heyrnleysingjaskólinn og síðan auðvitað Byrgið. Við vonum auðvitað að ekkert slíkt eigi sér stað á stofnunum okkar í dag. En getum við verið viss? Það sem kom fram í Kastljósinu sýndi fram á að ofbeldið átti sér einkum stað í frímínútum (á kvöldin og um helgar). Ég efa það stórlega að ráðgjafar á Vogi, Háholti, Árvöllum (Gunnarsholti) o.fl. stöðum beiti börn ofbeldi. En hvað gerist í frímínútum – á kvöldin og um helgar? Hver rannsakar árangur og afdrif barna sem hafa runnið í gengum þessar stofnanir síðustu ár? Erum við alltaf að hjálpa með því að safna börnum saman sem eiga erfitt á einn stað – getur verið að slík ráðstöfum gerir illt verra?

Ég las margar rannsóknir um þessi efni þegar ég starfaði innan geirans. Ein þeirra sló mig hvað mest. Það var rannsóknin When intervention harms – en niðurstöður hennar voru þær helstar að inngrip gæti skaðað meira en ef barnið var látið óáreitt. Inngripið snéri að innlögn á stofnun. Niðurstöður sýndu að í mörgum tilfellum gekk barni sem hitti sálfræðing 1-2svar í viku betur en því sem lagt var inn á þar tilgerða meðferðarstofnun. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að börn sem safnað er saman samsama sig oft við þann sem er mest andfélagslegur – þetta getur varla verið hugmyndafræði meðferðarinnar. Með þessu er ég ekki að segja að þær stofnanir sem ég nefndi séu að vinna vont starf – þær gagnast ugglaust mörgum börnum. Við megum hins vegar ekki loka augunum og vona það besta. Fagmennskan er það sem skiptir máli í þessu samhengi og þar má ekki slaka á kröfunum.

Ég skora því að félags- og heilbrigðisyfirvöld að skoða þetta um leið og úttekt er gerð á Breiðavík. Þeir sem gengið hafa í gegnum þessar hörmungar fyrir tilstuðlan opinberra aðila eiga kröfu á því að nútíminn verði líka rannsakaður. Aðeins þannig er réttlætinu fullnægt.

2 Comments:

At 1:02 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Viltu hrópa þetta hærra gamli minn. Hrópaðu þetta hærra svo að þeir sem ráða heyri í þér.

 
At 10:46 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Og að hugsa sér! Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn búnir að halda um stjórnvölinn síðustu 12 árin og Guð má vita hversu mörg ár sjálfstæðismenn þar á undan. Hver var í ríkisstjórninni á "Breiðavíkurárunum"????

 

Skrifa ummæli

<< Home