föstudagur, janúar 19, 2007

Gömul grein


Hér eru upplýsingar sem fylgdu greininni. Tölur um pláss eru á mánuði og síðan ári. Á hverjum mánuði geta þannig farið 210 manns í gegnum afeitrun hjá SÁÁ og 60 geta verið í meðferð á mánuði. Miðað við 10 daga meðallengd afeitrunar 30 daga meðallengd meðferðar (eftir afeitrun). Hinar myndirnar lýsa stöðunni í dag (eins og hún var árið 2004 - lítið breytt) og síðan stöðunni eins og ég sá hana með tilkomu greiningarstöðvar.

Fyrir 3 árum birti ég eftirfarandi grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Ítarlegri grein eftir mig byggð á sama efni var síðan birt í danska fagtímartinu STOF árið 2005. Mér þótti (og þykir enn) þessar hugmyndir bæði raunhæfar og mikilvægar. Ögmundur Jónasson og Hjálmar Árnason notuðu þær til að vinna þingsályktunartillögur sem komust hvorki lönd né strönd á sínum tíma. Ég held að menn ættu að staldra við núna og velta því fyrir sér hvort hugmyndin sé svo galin. Að halda áfram á sömu braut er hinsvegar að mínu mati algjörlega galið. Byrgið er blóraböggullinn í skipulagsleysinu á meðferðarakrinum. Mál Byrgisins er aðeins birtingarmynd þess sem kerfið okkar býður upp á.

Markvissara skipulag - virkara eftirlit

Kemur til greina að setja á laggirnar greiningar- og ráðgjafarstöð/móttökustöð sem sinnti móttöku og greiningu allra þeirra sem leituðu sér aðstoðar vegna vímuefnavanda á Íslandi?

Á SÍÐUSTU þremur áratugum hefur orðið bylting í vímuefnameðferðarmálum þjóðarinnar. Freeportfarar komu heim og stofnuðu SÁÁ og hófust handa við stofnun afeitrunar- og meðferðarstöðva hér á landi. Fyrir þann tíma var það aðeins Bláa-bandið og deild 10 á Kleppi sem stóð fólki til boða. Það er óhætt að segja að þessi vakning hafi verið lyginni líkust enda hafa u.þ.b. 20 þúsund einstaklingar sótt sér meðferð á þeim tíma sem SÁÁ hafa starfað.
Um 5.770 innlagnir ár hvert
Á markaðnum í dag eru fimm stofnanir og samtök sem sinna meðferð og/eða afeitrun vímuefnasjúklinga á Íslandi. Auk þeirra sem hér eru taldar upp eru heimili barnaverndarstofu en eitt þeirra, Árvellir, hefur boðið upp á meðferð fyrir eldri en 18 ára en ekki er ljóst hversu mörg pláss að jafnaði eru í boði.
Það skal tekið fram að gert er ráð fyrir að meðaltals afeitrun sé um 10 daga á hvern einstakling. Meðal dvalartími í framhaldsmeðferð eftir afeitrun er 28 dagar - í reynd er tíminn oft lengri eða skemmri en gengið er útfrá meðaltalstölum hér. Í Krýsuvík og í Byrginu dvelur fólk jafnan lengur en mánuð í senn. Úrræði Landspítalans í Arnarholti rúmar 10 fyrrverandi vistmenn úr Gunnarsholti. Á þessari stundu eru örlög Arnarholts ekki ráðin en uppi eru hugmyndir um að loka þessu úrræði.

Lítið eða ekkert eftirlit
Aðgangur að vímuefnameðferð á Íslandi verður að teljast mjög góður, hvort sem tekið er mið af samanburðarlöndum eða biðlistum í heilbrigðiskerfinu almennt. Lítið eða ekkert eftirlit er með því hvert einstaklingar fara í meðferð, hversu oft þeir fara og hversu stutt líður á milli meðferða. Þannig getur einstaklingur farið á Vog í meðferð á morgun, dvalið þar í 10 daga og lokið 28 daga meðferð á Staðarfelli í framhaldi af því. Viku eftir þá meðferð getur sami einstaklingur leitað sér meðferðar í Byrginu, Krýsuvík eða Hlaðgerðarkot. Það er ekki óalgengt að hitta fyrir einstaklinga í meðferðarkerfinu sem eiga yfir 10 innlagnir að baki.

Hörð samkeppni, óvægin gagnrýni
Vandi vímuefnameðferðar á Íslandi felst fyrst og fremst í því að margir ólíkir aðilar - sjálfseignastofnanir, einkahlutafélög og opinberar stofnanir - bjóða upp á meðferð. Vegna þessa fara tvö ráðuneyti með málefni vímuefnameðferðar á Íslandi og jafnvel þrjú eins og kom í ljós þegar utanríkisráðuneytið kom að málefnum Byrgisins. Dómsmálaráðuneytið kemur einnig við sögu í málefnum fanga og menntamálaráðuneytið í málefnum barna á skólaskyldualdri. Rekstrarlegar forsendur byggjast jafnt á frjálsum framlögnum, kostnaðarþátttöku notenda meðferðar og beinum styrkjum frá ríki og sveitarfélögum. Samkeppnin er því oft hörð og gagnrýnin óvægin á milli mismunandi sjónarmiða. Oftar en ekki eru birtar fréttatilkynningar frá þessum aðilum þar sem ástandinu er lýst og er það yfirleitt slæmt og biðlistar langir. Í skýrslu sem unnin var fyrir Heilbrigðisráðuneytið árið 1997 er þessi þáttur nefndur. Þar kemur m.a. fram að SÁÁ stundi fremur markaðsrannsóknir en vísindalegar rannsóknir enda byggir afkoma þeirra á að hvert pláss sé skipað. (Shaffer, J. Howard. Mat á áfengis- og vímuefnameðferð)

Stjórnlaust aðgengi án yfirsýnar
Leiðirnar eru margar og mismunandi. Trúfélög bjóða meðferð sem byggð eru á trúarbrögðum; aðrir bjóða upp á hugræna atferlismeðferð, aðrir á Minnesotameðferð og enn aðrir blöndu af þessu öllu. Inn í þetta fléttast síðan aðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga og ýmis áfangaheimili líknarfélaga. Eins og meðfylgjandi teikning gefur til kynna að þá eru hindranir í kerfinu raunverulegar. Aðilar tala ekki saman og samstarf t.d. félagsþjónustu sveitarfélaga og meðferðaraðila er takmarkað. Yfirsýn skortir tilfinnanlega og aðgengi að meðferðarúrræðum er nær stjórnlaust. Afleiðingar þessa eru verri meðferð, verri árangur og sóun fjármuna.
Forgangsröðunin er nokkuð brengluð ef litið er á þann fjölda sem leggst í meðferð á ári hverju. Þegar skorið er niður í meðferðarkerfinu virðist vera byrjað á öfugum enda. Á Vogi, sem er líklega besta afeitrunarúrræðið á Norðurlöndum, liggja oftar en ekki einstaklingar sem undirritaður fullyrðir að ekki þurfi allir á afeitrun að halda. Þar starfa læknar, hjúkrunarfólk, meðferðarfulltrúar og annað starfsfólk og kostar sólarhringurinn talsvert. Hinir sem veikari eru fá afeitrun í Byrginu, á Hlaðgerðarkoti eða á deild 33-A. Á þeim stöðum eru faglegar kröfur og aðbúnaður allt annar og verri en það sem þekkist á Vogi. Hér ber að árétta að í huga undirritaðs er ekkert samasemmerki á milli Vogs og betri árangurs - samanborið við aðra aðila. Hins vegar er óumdeilanlegt að Vogur er besta sjúkrahúsið fyrir vímuefnasjúklinga sem þurfa á afeitrun að halda.

Hvað er til ráða?
Erfitt er að gera sér grein fyrir árangri af vímuefnameðferð á Íslandi. Árangurstölur koma jafnan frá meðferðaraðilunum sjálfum. Þær fáu rannsóknir sem óháðir aðilar hafa gert gefa tilefni til að ætla að árangur sé í kringum 10% - 15% (t.d. rannsókn Kristins Tómassonar árið 1995 og 1996). Göngudeildarmeðferð er tiltölulega lítið notuð hér á landi þó að vissulega hafi úrræðum eitthvað fjölgað á sl. árum en samkvæmt rannsókn Kristins er árangurinn ekkert lakari af slíkri meðferð en að þegar um innlögn er að ræða. Undirritaður telur að í stað þess að reka þrjár til fjórar afeitrunarstöðvar í landinu væri nægjanlegt að reka eina. Þangað myndu þeir sjúklingar sem væru hvað veikastir leita eftir afeitrun. Aðrir gætu fengið aðstoð á göngudeildum. Meðfylgjandi teikning gefur hugmynd hvað hægt væri að gera. Hér er ekki tekin afstaða til þess hvaða stofnunum eða samtökum er ofaukið en undirritaður dregur stórlega í efa að 5500 innlagnir ár hvert sé í samræmi við þörfina.

Markvissara skipulag og virkara eftirlit
Í tillögu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem liggur fyrir alþingi, og er í samhljómi við tillögur Samfylkingar og Framsóknarflokks eru eftirfarandi atriði reifuð: "Atriði sem eðlilegt væri að tekin yrðu til gagngerrar skoðunar væru eftirfarandi:
a. Er hægt að koma á markvissara eftirliti með meðferðarúrræðum vímuefnaneytenda á Íslandi?

b. Væri til bóta að gera kröfu um árangurstölur frá þeim aðilum sem sinna meðferð vímu efnaneytenda á Íslandi og þær þá teknar saman af hlutlausum aðilum, sbr. rannsóknir Kristins Tómassonar árið 1995 og 1996?

c. Kemur til greina að setja á laggirnar greiningar- og ráðgjafarstöð/móttökustöð sem sinnti móttöku og greiningu allra þeirra sem leituðu sér aðstoðar vegna vímuefnavanda á Íslandi?

Mikið starf hefur verið unnið á þessu sviði heilbrigðisþjónustu síðustu áratugina og margt gott af því leitt. Á því er ekki nokkur vafi. Margt bendir þó til að hægt væri að ná enn betri árangri með markvissara skipulagi og virkara eftirliti. Undirritaður tekur heilshugar undir það og vonar að sverðin verði slíðruð og málefnaleg og efnisleg umræða taki yfir á kostnað tilfinningaraka og sleggjudóma.

1 Comments:

At 3:56 e.h., Blogger Gestur Svavarsson said...

Takk fyrir að skella þessari upp hér - var að leita að henni um daginn.

kv G.

 

Skrifa ummæli

<< Home