fimmtudagur, janúar 18, 2007

Hagvöxtur


Hagvöxtur á Vestfjörðum var neikvæður um 6% þegar tekin eru saman árin 1998 til 2004. BB spurði mig út í þetta og ég svaraði:

Þetta kemur mér ekki á óvart. Vestfirðir hafa um langt árabil verið í svelti þegar kemur að opinberum framkvæmdum. Ríkið hefur ítrekað haldið að sér höndum. Þetta sést m.a. þegar horft er til samgöngumála. Við búum enn við það ástand að þjóðvegurinn til Reykjavíkur er á kafla einbreiður malarvegur. Við búum einnig við lakari þjónustu þegar kemur að fjarskiptum og rafmagni. Stjórnvöld og sveitarstjórnir ganga ekki í takt. Sveitarfélögin hér á svæðinu gera sér flest grein fyrir því lykillögmáli í hagfræðinni að á samdráttartímum þurfi opinberir aðilar að draga vagninn og framkvæma. Þetta hafa sveitarfélögin reynt að gera en það dugar ekki til á meðan ríkisvaldið heldur að sér höndum. Það er sorglegt þegar dregið er úr framkvæmdum hins opinbera á Vestfjörðum til þess að slá á þenslu á öðrum svæðum.

Krafturinn í fólkinu sem býr á svæðinu er mikill og það er beinlínis ósanngjarnt hvernig stjórnvöld hafa komið fram við þetta fólk. Jarðvegurinn er mjög góður hér fyrir vestan en til þess að grasið taki að spretta þarf áburð og þetta verða stjórnvöld að viðurkenna og axla sína ábyrgð. Á kosningavetri er vert að spyrja alla frambjóðendur kjördæmisins og reyndar landsins alls: Ertu til í að ganga í takt með okkur? Við eigum að krefjast þess að menn geri grein fyrir hugmyndum sínum um svæðið. Ef menn axla þessa ábyrgð og sýna lit – er ég fullviss að hagvöxtur á svæðinu verði nær 2 stafa tölu áður en langt um líður.

1 Comments:

At 1:08 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Er þetta ekki bara spurnig um áver? Já eða tónþróunarmiðstöð?

 

Skrifa ummæli

<< Home