laugardagur, desember 30, 2006

Svartur dagur


Árið 1988 sá ég myndir frá Kúrdaþorpi þar sem sjá mátti börn og konur liggja í valnum fyrir Saddam og hans geðsýki. Vesturveldin seldu honum vopnin og voru enn vinir hans á þessum tíma. Það var reyndar ekki fyrr en löngu eftir fyrra Persaflóastríð sem frændur okkar Svíar hættu að selja Saddam vopn.

Í nótt var Saddam hengdur fyrir glæpi sína. Mikið held ég að margir þeir sem eiga um sárt að binda vegna stjórnar Saddam og þeir sem eru í sárum vegna innrásar Bandaríkjamanna í Írak séu vonsviknir í dag. Dauðarefsing og allt sem kemur að henni er að mínu mati aldrei réttlætanleg – hver sem á í hlut. Árásina á Írak var heldur ekki hægt að réttlæta. Hræsnin í kringum stríðið var slík að maður skammast sín á stundum fyrir hinn vestræna uppruna sinn. Af hverju ætli menn hafi ekki hreinsað heiminn af Saddam þegar hann drap konur og börn árið 1988? Nú fyrst það tækifæri rann mönnum úr greipum hvers vegna bjargaði Sámur frændi Írökum ekki 1991? Í kjölfarið refsaði Saddam þjóð sinni grimmilega og tók þúsundir af lífi í suður Írak. Nei, það var ekki þörf á þessari úthreinsun fyrr en árið 2003 þegar nákvæmlega ekkert réttlætti aðgerðina. Þá höfðu refsiaðgerðir Sameinuþjóðanna dregið allan kraft úr þjóðinni og lagt hluta hennar í gröfina. Þvílík ömurð og allsherjar tilgangsleysi.

1 Comments:

At 4:00 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ja, nú er ég sammála þér Grímur. Morð er ekki hægt að réttlæta með morði. Það veit allt sannkristið fólk. Það þarf ekki einusinni að vera sannkristið. Bara hafa ofurlitla siðgæðisvitund.

Gleðilegt ár granni sæll.

 

Skrifa ummæli

<< Home