föstudagur, desember 15, 2006

Líf utan höfuðborgarsvæðisins


Fyrir stuttu bárust fréttir af aukinni unglingadrykkju í Reykjavík. Leitt var líkum að því að tenging væri á milli samverustunda barna og foreldra og drykkju unglinga. Síðustu árin hefur samverustundum foreldra og barna fækkað. Á sama tíma hafa drykkja og reykingar barna á höfuðborgarsvæðinu aukist. Þetta er merkilegt í ljósi þess að upplýsingar um skaðsemi drykkju og reykinga hafa aldrei verið aðgengilegri. Við höfum aldrei varið jafn miklu og einmitt núna í fræðslu og forvarnir. Meðferðarúrræði eru fjölmörg og félagsþjónusta á höfuðborgarsvæðinu hefur bólgnað út. Grunnskólinn er einsetinn og biðlistar eftir leikskólaplássi eru hverfandi í dag miðað við það sem áður var.

Þenslan tærir
Viðvarandi þensluástand hefur haft umtalsverð áhrif á lífshætti þorra Íslendinga. Aðgangur að lánsfé gerir það að verkum að meðalfjölskyldan er skuldsettari en áður. Eignirnar aukast en greiðslubyrði eykst jafnt og þétt. Íslendingar þurfa því að vinna meira ætli þeir sér að ná að greiða fyrir rándýrt húsnæði á þenslusvæðum og taka þátt í kapphlaupinu. Samvistir barna og foreldra, maka og stórfjölskyldu eru með allt öðrum hætti í dag en þekktist fyrir áratug eða svo.

Fólk hefur reynt að mæta hækkun á húsnæðismarkaði og hraða höfuðborgarinnar með því að flytjast á jaðarsvæði höfuðborgarinnar. Þannig ferðast mörg þúsund manns á milli þéttbýliskjarna í kringum höfuðborgina á leið sinni til og frá vinnu hvern dag. Eins og umferðarþróun hefur verið síðustu árin má ætla að fjöldi manna eyði hátt í tveimur klst. í ferðalög vegna vinnu á dag. Íslendingar vinna að meðaltali meira en aðrar þjóðir veraldar. Þegar heim er komið bíður fólks smátúrar í Bónus, með börnin í tómstundastarf og matseld í anda Jóa Fel. Það er því ekki að furða þó samverustundum foreldra og barna fari fækkandi í slíku umhverfi.

Tækifærin á landsbyggðinni
Það felast ótal tækifæri á landsbyggðinni. Margir sjá aðeins tækifæri í virkjunum og ferðamennsku en þá er helsti auðurinn eftir – samfélögin sem finnast út um allt land. Með stórkostlegum framförum á sviði fjarskipta og samgangna eru landfræðilegar hindranir á undanhaldi. Störf eru ekki lengur bundin við eina starfsstöð – óstaðbundin störf eru raunverulegur kostur í dag sem fleiri og fleiri fyrirtæki nýta sér. Húsnæðisverð er allt annað og nær raunverulegri kaupgetu fólks en á þenslusvæðunum. Þrýstingur auglýsingasamfélagsins er ekki jafn grímulaus og pressan þar af leiðandi minni.

Í Bolungarvík er samfélag sem byggir á þeirri grunnhugmynd að þjónusta og atvinnulíf sé innan seilingar við heimilið. Tækifæri þeirra fjölskyldna sem eiga þess kost að losna við klafa efnishyggjunnar eru mörg í Víkinni. Öll grunnþjónusta er í 5 mínútna göngufæri fyrir þorra íbúa sveitarfélagsins. Sundlaug, heilsugæsla, íþróttahús, grunnskóli, leikskóli, félagsheimili, kaffihús, bókasafn, sýslumaður, verslun, bensínstöð og bankaútibú – allt í 5 mínútna göngufæri. Sveitarfélagið greiðir götu fyrirtækja sem vilja sækja til bæjarins. Góð aðstaða er til staðar fyrir þau fyrirtæki sem hug hafa á að reka einmenningsstarfsstöðvar. Með þessu geta ólík fyrirtæki nýtt sama ritara og skrifstofubúnað. Þau fyrirtæki sem geta nýtt sér óstaðbundin störf eiga fjölmörg sóknarfæri. Hagræðingin sem skapast við það að losa dýrt húsnæði í höfuðborginni og eignast ánægðan og öflugri starfsmann er augljós.

Framtíðin er fyrir vestan
Ég skora á fólk sem situr heima og hefur áhyggjur af reikningabunkum og tímaleysi að skoða kostina við einfaldara líf fjarri skarkala höfuðborgarinnar. Streð á þeim tíma sem börnin eru að vaxa úr grasi er ekkert lögmál. Það þarf enginn að vinna 12 tíma á dag til þess eins að keyra um á Landcruser og borga af íbúðinni í Vesturbænum. Kíkið vestur á firði – það er miklu innihaldsríkara og skemmtilegra.

8 Comments:

At 7:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Velkominn í Hnakkaparadísina, mér finnst að þessi grein eigi að rata inn á síður dagblaðanna. Annars er það hámark dreifbýlishugsjónarinnar að mótmæla lokun pósthúsa.

Það var einu sinni pínulítið pósthús í pínulitlu þorpi. Inni í pínulitla pósthúsinu var pínulítil pósthúskona.
Þá kom einkavæðinginn og gleypti pínulitla pósthúsið með pínulitlu konunni og setti hana inni í pínulítið sparisjóðsútibú. Síðan var pínulitla konan send suður í pínulitlu umslagi sem kosti pínuódýrt frímerku undir. Hún býr núna í Grafarholti og syngur í stóra átthagakórnum og selur sólarpönnukökur til styrktar pínulitlju kirkjunni í pínulitla þorpinu
Halla Signý

 
At 8:19 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Bæjarstóri góður

Í Bolungarvík vinna menn líka 12 tíma á dag, keyra um á Landcruserum og hafa lítinn tíma með börnum sínum. Hins vegar er rétt að vegalengdir innanbæjar eru ekki langar en börnin fara þær einsömul... Víst kosta húsin minna en framfærslukostnaður meiri ef eitthvað er, rafmagn, hiti, matur og útsvar í hæstu hæðum. Eftir næstum áratuga búsetu úti á landi velti ég fyrir mér hver er þessi raunverulegi ávinningur sem felst í því að búa í þorpi?

Aðfluttur

 
At 12:16 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Jahérna, þvílík prédikun.

 
At 2:49 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Víkin fyrir sunnan er ágæt - ég bjó þar í 35 ár (með 3 ára stoppi í Danmörku). Víkin hér hefur hins vegar marga kosti (og galla líka) sem suðurvíkin hefur ekki. Það er aðalatriðið - kostir Vesturvíkurinnar og sambærilegra staða er bara svo sjaldan tíundaðir.

 
At 8:36 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já ég held að báðar víkurnar séu ágætar. En í Bolungarvík þá vinnur enginn í 12 tíma nema hann kjósi svo. Í Reykjavík verður þú að vinna í 12 tíma til þess að lifa. Hvað sem landcrusierum líður. Er ennþá verið að mæla lífsgæði í landcruiserum? Í þessu skuldsetta samfélagi væri réttara að mæla eftir debetkortsstöðu.
Ávinningur þorpanna úti á landa felast aðallega í rólegra umhverfi fyrir bæði þig og börnin þín. Þar held ég að liggi helsti munurinn. Auðvitað er hægt að finna tvær hliðar á veggnum.
Bjarni Pétur

 
At 9:47 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Held að málið sé bara að fá sér Pajero og sinna börnunum líka!!!!

 
At 9:24 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vá hvað það er langt síðan blogg-færsla hefur fengið mig til að titra jafnmikið í bússunum...rankaði við mér þar sem ég var búin að ráðstafa elsta barninu meðan á framhaldsnáminu stendur, ráðstafa íbúðinni meðan á landsbyggðarverunni stendur, farin að pæla í atvinnutækifærum eiginmannsins og sjá fyrir mér... Hugsa svo oft um þetta - þú hittir því á veikan punkt. Hver veit...

Gaman að heyra að þú ert að njóta.
Hálendishóps-Ingibjörg.

 
At 4:40 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

vitleysingarnir sem hugsa frekar um landcruiserinn og vinnuna en börnin eru líka til úti á landi, þeir eru allstaðar. Það er hvort eð er enginn hagur í því að fá þá fyrr heim úr vinnunni því þeir eru bæði heimskir og leiðinlegir!
kv Lufsan

 

Skrifa ummæli

<< Home