fimmtudagur, mars 08, 2007

Sturlu svarað

Sturla Böðvarsson kýs að fara heldur neikvæða leið í svörum sínum við grein minni um strandsiglingar og Evrópusambandið. Í viðtali sem birtist í Bæjarins besta þann 2. mars sl. segir Sturla:

Grímur bæjarstjóri virðist hinsvegar hafa meiri áhuga á að slá pólitískar keilur og berja á stjórnvöldum en leita leiða sem eru færar. Tilvísanir til hugmynda frá fulltrúa sveitarfélaganna í Brussel stoða lítt þegar þær eru byggðar á misskilningi eða rangfærslum eins og fram hefur komið í fullyrðingum Gríms Atlasonar. Flutningskostnaður verður ekki lækkaður með því einu að slá lyklaborðið á tölvu bæjarstjórans í Bolungarvík og breiða út misskilning sem er til þess gerður að vekja óraunhæfar væntingar.

Rökþrota ráðherra
Mér þykir leiðinlegt að samgönguráðherra eigi ekki önnur svör en þau að reyna að gera lítið úr mér og þeim staðreyndum sem ég tel mig hafa rökstutt með ágætum hætti. Flutningskostnaður verður ekki lækkaður með tölvuslætti mínum – það er rétt – en kannski verður hann til þess að menn hætta að halda hinu og þessu fram sem er ósatt. Á meðan sveitarstjórnarmenn leggja hausinn í bleyti og benda á leiðir rýkur samgönguráðherra upp og hreytir ónotum í menn og segir þá fara með fleipur. Þetta er ómerkilegt. Við sem búum og störfum í landsfjórðungnum sem Sturla er þingmaður fyrir höfum áhyggjur af ástandinu og það hefur ekkert að gera með lit pólitískra skoðana. Mér sýnist ráðherrann vera með öllu rökþrota.

Sturla sakar mig einnig um að leita ekki leiða heldur aðeins gagnrýna. Þetta kemur úr hörðustu átt. Leiðirnar sem eru færar eru mýmargar og hefur undirritaður bent á nokkrar ásamt því að mæta með öðrum forystumönnum sveitarfélaganna á Vestfjörðum á fund ríkisstjórnarinnar þar sem margar leiðir voru kynntar. Staða margra fyrirtækja á Vestfjörðum er með þeim hætti að 30-60% aukinn flutningskostnaður er of stór biti til að kyngja þó vissulega horfi til betri vegar á hluta svæðisins eftir 3 ár. Þá eiga samgöngur á landi að vera orðnar skaplegar. Ríkisstjórnin afrekaði það þó að seinka bundnu slitlagi um 1 ár með umdeildum þensluletjandi aðgerðum sl. haust. Hár flutningskostnaður er staðreynd og það er gott að fá það á hreint að Sturla Böðvarsson ætlar ekki að gera neitt til þess að brúa bilið þangað til að samgöngur á landi verða viðundandi.

Marco Polo II
Sturla segir Marco Polo áætlunina vel kynnta hér á landi – ég spyr á móti hvers vegna er Marco Polo II ekki búin að vera á dagskrá sem kynningarherferð á vegum samgönguráðuneytisins sl. misseri? Áætlunin tekur til áranna 2007 til 2013 og getur ef rétt er haldið á spilunum skipt byggðir landsins miklu máli. Það hefði mátt sækja styrk til Evrópu fyrir allt að 35% af kostnaðinum. Það er kannski rétt hjá Sturlu að sveitarfélögin og skipafélögin hefðu átt að vinna málið sjálf. En ég geri þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands að hún gæti hagsmuna alls landsins og haldi okkur öllum vel upplýstum. Það er starf ráherrans hverju sinni nema ef vera skyldi að fólksfækkun og erfiðleikar byggðarlaga séu það sem er á stefnuskrá ráðherrans – sem ég trúi ekki. Svona til glöggvunar á Marco Polo II má benda á eftirfarandi vefslóð: http://ec.europa.eu/transport/marcopolo/faq/doc/faq.pdf.

Það er enginn að tala um að taka upp rekstur ríkisskipa aftur heldur er aðeins verið að benda á stuðning við strandsiglingar þann tíma sem halli er á flutningum. Forsvarsmenn Atlantsskipa hafa einnig bent á áhugaverða leið en Sturla kýs að hafna þeim alfarið. Hvernig ætli standi á þessum þvergirðingshætti?

Hafnir og hafnarlög
Fyrst ég er kominn á skrið er ekki úr vegi að líta á vægast sagt undarleg hafnarlög sem tóku gildi fyrir nokkrum árum. Þar er gert er ráð fyrir að hafnir landsins séu sjálfbærar og standi undir rekstri með gjaldskrá. Tilskipanir frá Evrópu hafa verið nefndar sem helsta ástæða þessara nýju laga. Hafnir landsins eru í samkeppnisrekstri og settar á bás með stærstu höfnum Evrópu. Þannig eiga hafnir eins og Raufarhöfn og Þórshöfn að berjast um trillurnar. Þetta er auðvitað fásinna og með öllu óskiljanlegt. Mig grunar reyndar að þegar þessi lög voru smíðuð hafi sama vanþekkingin á málefnum Evrópu verið upp á teningnum og þegar Ísland kokgleypti raforkutilskipunina fyrir nokkrum árum. Sú tilskipun átti við um allt aðrar aðstæður en þekkjast á Íslandi og auðveldlega hefði mátt komast hjá því að innleiða hana hér á landi.

Dæmi um hve undarlegur samanburðurinn er má sjá á eftirfarandi dæmi. Bolungarvíkurhöfn þarf á þessu ári að endurnýja þekju og stálþil fyrir tæpar 150 milljónir kr. Hafnarsjóður Bolungarvíkur greiðir 40% af kostnaði við stálþilið og 30% af þekjunni og greiðir ríkissjóður afganginn. Hafnarsjóður Bolungarvíkur veltir rúmum 30 milljónum kr. árlega og getur klárlega ekki fjármagnað slíkar breytingar án þess að steypa sér í skuldir. Til samanburðar hefur Antwerpenhöfn undanfarin ár staðið í miklum lagfæringum á viðleguköntum og þekju. Kostnaðurinn er um tæpir 60 milljarðar kr. og er ýmist greiddur 60% af ríkinu eða að fullu. Antwerpenhöfn er ein af stærstu höfnum í heimi velta hafnarinnar árið 2005 var yfir 90 milljarðar kr. Höfnin skilaði hagnaði upp á rúma 3 milljarða kr. árið 2005. Antwerpenhöfn er samt ekki ætlað að standa undir öllum rekstri og viðhaldi af hafnargjöldunum einum saman.

Það er með ólíkindum hvernig stjórnvöldum tekist að setja stein í rekstur sveitarfélaganna í landinu með furðulegum lögum og reglugerðum sem eiga hingað ekkert erindi. Ég vona að ríkisstjórn Íslands sjái að sér og jafni flutninga til og frá Vestfjörðum án tafar. Fjórðungurinn getur ekki beðið næstu 3 ár – það er of langur tími.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home