miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Bóklærð frjálshyggja úr tengslum við raunveruleikann


Á meðan Samskip og Eimskip sjá sér engan hag í að sigla með vörur á Íslandi, njóta félögin gríðarlegrar velvildar og niðurgreiðslna á flutningaleiðum í Evrópu. Í sérstakri móttöku í Hollandi fyrir tæpu ári, þar sem Samskip kynnti stefnu sína til framtíðar, fór ekki á milli mála hvaða augum Karla Peijs, þáverandi samgönguráðherra Hollands, lítur strandsiglingar:

„Í Hollandi búum við við gífurlegt álag á vegarkerfinu og miklar umferðarteppur, “ segir hún og kveður ríkisstjórnina styðja dyggilega við þá þróun að flutningar færist í auknum mæli yfir í skip þannig að ávallt sé farin skemmsta leið á áfangastað landleiðina. Þá upplýsti hún að ríkisstjórnin hefði eyrnamerkt 10 milljónir evra til nýsköpunar í sjóflutningum á skemmri leiðum. „Þetta er í samræmi við sértakt átak Evrópusambandsins.Milljóna tonna álagi hefur þegar verið létt af hollenskum vegum og fyrir það erum við þakklát,” segir hún. (Fréttablaðið 2006)

Á Íslandi lemja menn hausnum við steininn. Samgönguráðherra og aðrir halda því statt og stöðugt fram að strandsiglingar séu ekki hagkvæmar og ekki megi niðurgreiða þær. Þetta er alrangt og það er sorglegt að horfa á glötuð tækifæri. Ef Marco Polo áætlunin er nefnd er fullyrt að Íslendingar geti ekki sótt um styrki til strandsiglinga. Rökin eru þau að einungis megi sækja um styrki til siglinga á milli landa. Hefur þetta verið kannað til hins ýtrasta? Nei, það er bara fullyrt. Ég fullyrði á móti að hægt hefði verið að sækja um 35% styrk fyrstu 3 ár siglinga á leiðinni Ísafjörður, Patreksfjörður, Reykjavík – Evrópa (Rotterdam, Hamborg). Síðan hefði mátt sækja um styrk vegna jaðarsvæða í gegnum aðrar áætlanir Evrópusambandsins. Nú, ef það er svo slæmt að Evrópusambandið hafnaði umsóknum okkar þá gæti ríkissjóður styrkt þessa flutninga þann tíma sem jafnvægi og eðlileg markaðsstaða kæmist á. Það er þannig ekkert sem kemur í veg fyrir að við borgum strandsiglingar niður.

Hafnir landsins og ný hafnarlög eru annað dæmi um undarlega túlkun ráðamanna á Íslandi á regluverki Evrópusambandsins. Að setja hafnir á Íslandi í sama flokk og hafnir í Þýskalandi, Hollandi, Belgíu og fleiri landa er óskiljanlegt. Að ætlast til þess að hafnargjöld standi undir öllum framkvæmdum við hafnir á Íslandi er fráleitt. Ein stærsta höfn í heimi er Antverpen höfn í Belgíu. Þar er verið að endurnýja stálþil og viðlegukanta fyrir milljarða. Antverpenhöfn borgar minnst að þessum framkvæmdum. Ríkissjóður Belgíu greiðir þorra framkvæmdarinnar. Smáhafnir á Íslandi þurfa að punga út 40% úr galtómum sjóðum sínum í nafni samkeppni. Þetta er auðvitað ekkert annað en hlægilegt!

Það er hneyksli að slíkum slembirökum skuli vera beitt sem tíðkast hafa gagnvart Evrópusambandinu og regluverki þess. Það er kominn tími til að ráðamenn horfi upp úr stöðluðum bókum um frjálshyggju og kynnist raunveruleikanum.

2 Comments:

At 1:09 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Heyr, heyr (er þetta ekki örugglega rétt stafsett hjá mér? :-))

 
At 3:04 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

helvíti fín grein hjá þér á BB.is

Ég sé að dvöl þín á meðal alvöru fólks hefur gert þér gott - mjög gott

 

Skrifa ummæli

<< Home