föstudagur, febrúar 09, 2007

Krónufréttir á ljóshraða


Merkilegt hvað heimurinn er eitthvað breyttur. Hér áður fyrr voru hinir vísu menn langskólagengnir vísindamenn eins og þeir Jón Helgason eða Sigurður Norðdal. Þetta voru mennirnir sem komu með gullkornin sem í var vitnað í fjölmiðlum. Á þessa menn var hlustað – þeir höfðu eitthvað að segja. Í dag hefur þetta breyst. Núna er varla hlustað á þá sem ekki geta komið boðskap sínum áleiðis á innan við 15 sekúndum. Vægi fréttarinnar eykst mikið ef viðmælandinn er ríkur.

Ég las á mbl.is áðan að krónan muni hverfa með tímanum. Það er Sigurður Einarsson kenndur við Kaupþing sem sagði þetta. Hann er mjög ríkur og fyrirsögnin er mjög góð. Þessi frétt verður örugglega í öllum öðrum fjölmiðlum í dag og næstu daga. Jafnvel efni í Kastljósið eða Morgunútvarpið. Jón Helgason hefði aldrei sagt okkur fréttir af slíku hjómi. Mér þykir krónufréttin heldur innatóm þegar ég les fyrsta erindi Áfanga Jóns:

Liðið er hátt á aðra öld;
enn mun þó reimt á Kili
þar sem í snjónum bræðra beið
beisklegur aldurtili;
skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili;
hleypur svo einn með hærusekk,
hverfur í dimmu gili.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home