fimmtudagur, júní 14, 2007

25 ár

Það eru 25 ár síðan Falklandseyjastríðinu lauk. Ég man þetta stríð eins og það hafi gerst í gær. Þetta mikla minni hófst reyndar á því að Díana og Karl gengu í það heilaga ári áður. Þá elskuðu allir ungir menn Díönu og var ég ekki undanskilinn. Ég var mjög andsnúinn þessum ráðahag og var á þeim buxunum að ganga yfir Hellisheiði eystri, inn Vopnafjörðin að Hofsá og segja Karli, þar sem hann stóð og veiddi lax, að ég sæi þessu verðandi hjónabandi allt til foráttu. Hefði betur gert það og þá væri staða Díönu allt önnur. Hún væri fráskilin 2 barna móðir í Grafarvoginum og ég hamingjusamlega giftur í Bolungarvík henni Helgu Völu. Þetta jarðsprengjufetis prinsessunnar og ást hennar á ljótum drögtum hefðu aldrei gengið. En blessuð sé minning hennar.

Falklandseyjar gerðust hins vegar ári síðar og þá var ást mín á Díönu löngu kulnuð og ég kominn í sveit í Hrútafjörðin. Það var á Kollsá sem Argentínumenn gáfust upp. Paulo Rossi skoraði 4 mörk á HM og varð markahæstur og hetja Ítala sem urðu heimsmeistarar í fótbolta. Það sem mér þótti athyglisverðast var veitingahúsaeigandinn sem komst í fréttirnar af því hann ætlaði að bjóða Rossi ókeypis að borða á veitingahúsi sínu það sem hann ætti eftir ólifað. Veit ekki hvort þetta yrði frétt í dag – í heimi mammons. Hvar er Rossi í dag?

Það sem skelfir mig að mér þykir svo stutt síðan að þetta gerðist. Tuttugu og fimm árum fyrir Falklandseyjastríðið hófst Marshallaðstoðin – það segir allt sem segja þarf: Ég er að verða gamall......

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home