mánudagur, október 30, 2006

Skákmót og Baggalútur


Hraðskákmót Íslands verður haldið í Víkinni 11. nóvmeber nk. Vegleg verðlaun í mörgum flokkum. Um kvöldið verður síðan haldið dansiball með Baggalút í Víkurbæ og Hólshreppurinn mætir einnig til leiks með sitt Grjóthrun. Mér segist svo hugur að þetta verði öflug helgi hér vestra og skora á nærsveitarmenn (nær og fjær) að fjölmenna - tefla og sprella. Þess ber að geta að ungir jafnt sem aldnir geta tekið þátt í skákinni.

sunnudagur, október 29, 2006

Konur og fólk fætt eftir 1955

NV-kjördæmi er ekki mikið fyrir konur á þing. Kjördæmið er heldur ekki mikið fyrir yngra fólk en 50 ára. Þetta snýr ekkert að einum flokki - heldur þeim öllum.

Spá

Þar sem við sitjum hér í Víkinni og bíðum eftir tölum af Skaganum er rétt að hugsa til framtíðar. Ég man mann sem fór í prófkjör fyrir ári - hann er í öðru núna. Ég spái að Helga Vala verði að minnsta kosti borgarstjóri að ári.

Femínisminn á sunnudegi

Egill Helgason fór mikinn um stöðu kvenna innan múslimasamfélaga. Egill var réttsýnn og vestrænn í skoðunum sínum. Hann sat við tölvuna í bókaherberginu með gleraugu á nefinu og básúnaði sínar femínísku áherslur. Þetta var inngangur Silfursins. Síðan hófst hið raunverulega Silfur. Egill og fjórir kallar settust niður og tóku að ræða um prófkjör o.fl. mál - m.a. um stöðu kvenna í póltík.

Þetta er auðvitað alveg fatalt. Alltaf sömu strákarnir að ræða um sömu lömuðu lummurnar. Konur með blæjur og ósýnilegar konur - það er ekki þannig að hinn vestræni heimur sé eitthvað sérstaklega með allt á hreinu í jafnfréttisbaráttunni. Egill er partur af þessu systemi. Fjölmiðlar almennt eru líka hluti af stöðunni. Konur fá lægri laun en karlar, þær eru í minnihluta í stjórnunarstöðum í gegnum opinbert og einkarekið atvinnulíf.

Ég held að menn ættu síðan að fá sér nýjan skraddara. Ekki smart að vera í þessu jakkasetti.

Gott gengi og vont gengi

Björn féll og konur fengu enn og aftur vonda kosningu. Illugi, Guðlaugur Þór og Guðfinna eru sigurvegararnir og verður að segjast eins og er að Sólbakkafólkið stendur sterkt þegar leiðin er hálfnuð. Spurningin er hvað Björn Bjarnason gerir í framhaldinu ætli hann dragi sig í hlé fljótlega? Vilhjálmur Þ. studdi Guðlaug Þór á síðust metrunum og er ekki víst að Björn sé alveg sáttur við það.

Til þess að pakka þessu prófkjöri í réttar umbúðir er ekki úr vegi að spá kostnaði og hver eyddi mestu:

1. Guðlaugur: 15.000.000 kr.
2. Birgir: 12.000.000 kr.
3. Björn: 10.000.000 kr.
4. Illugi: 8.000.000 kr.
5. Guðfinna: 7.000.000 kr.
6. Sigurður: 5.000.000 kr.

Þetta kostaði kannski minna - kannski meira.

laugardagur, október 28, 2006

Á móti forheimskunni


Færeyska þingið hefur aftur til umfjöllunar frumvarp til laga þar sem níð um homma og lesbíur er bannað með lögum. Þingið felldi samskonar tillögu með yfirgnæfandi meirihluta fyrir ekki svo löngu. Menn stóðu upp og héldu á biblíum máli sínu til stuðnings. Ég bendi eins og Dr. Gunni á undirskriftasöfnun á móti forheimskunni.

föstudagur, október 27, 2006

Peningar

Las Moggann í kvöld. Hann kemur seint og um síðir og með ólíkindum að ég skuli enn vera áskrifandi. En ég er enn áskrifandi og það er ekki hugmynd mín að breyta því í bráð. Ég las mogga og komst að því að menn nota peninga í prófkjöri. Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega í hálfgerðri útrýmingarherferð á sjálfum sér í Reykjavík. Pétur Blöndal segist nota tæpar 3 milljónir í sína baráttu en hann auglýsir sínu minnst af D-mönnum. Hvað ætli Guðlaugur Þór noti eða Björn Bjarnason? 15 milljónir fyrir þingsæti er það ofáætlað? Hver á þessa menn þingin 2007 til 2011? Er rangt að spyrja slíkra spurninga? Hér fara menn með 700 þúsund krónur í mánaðarlaun – eftir hita og rafmagn er þá mikið eftir til að sinna svona prófkjörsskuldum?

Engan skyldi undra þótt...


...grjóthrun yrði í Hólshreppi í nótt. Varað er við grjóthruni á Óshlíð í kvöld. Ég ætlaði til nágrannabyggðarinnar Ísafjarðar en held mig heima í kvöld. Það er svosem bara yndislegt. Eva, amma Unnur og Alda Líf í heimsókn.

Spurning hvort góð mynd toppi ekki Skutulsfjörð? Popp og með því.

Barnalega listaspíran

Jæja, Hexia vefurinn er ekkert nema bögg þannig að ég hætti hér með að nota hann. Á síðu vinar míns Péturs Gunnarssonar er nafnlaus maður að kommentera prófkjör bolvíkingsins Helgu Völu Helgadóttur. Hún er samkvæmt honum bara búin að eiga heima fyrir Vestan í 2 mánuði og á því ekki erindi í prófkjör fyrir kjördæmið. Fyrir utan að vera listaspíra að sunnan ku hún Helga Vala vera með barnalegar hugmyndir sem eiga ekki upp á dekk í hinu stönduga og sívaxandi NV-kjördæmi. Betra er að treysta 5. kynslóð Norðvestlendinga fyrir skútunni – mönnum með alvöru Norðvestur skoðanir.

Þvílík firra! Það virðist enginn finna að því að menn hendast á milli héraða með þingmannssæti sín án þess að hafa nokkurn tíma búið þar eða ætlað sér að gera það. Helga Vala flutti þó til Bolungarvíkur og ætlar sér að búa þar. Hennar svokölluðu barnalegu hugmyndir eru varla mikið verri en stóru kallanna sem hafa kvótavætt landbúnað og sjávarútveg með eftirminnilegum árangri.

Maður ver nú sína góðu konu.