miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Bóklærð frjálshyggja úr tengslum við raunveruleikann


Á meðan Samskip og Eimskip sjá sér engan hag í að sigla með vörur á Íslandi, njóta félögin gríðarlegrar velvildar og niðurgreiðslna á flutningaleiðum í Evrópu. Í sérstakri móttöku í Hollandi fyrir tæpu ári, þar sem Samskip kynnti stefnu sína til framtíðar, fór ekki á milli mála hvaða augum Karla Peijs, þáverandi samgönguráðherra Hollands, lítur strandsiglingar:

„Í Hollandi búum við við gífurlegt álag á vegarkerfinu og miklar umferðarteppur, “ segir hún og kveður ríkisstjórnina styðja dyggilega við þá þróun að flutningar færist í auknum mæli yfir í skip þannig að ávallt sé farin skemmsta leið á áfangastað landleiðina. Þá upplýsti hún að ríkisstjórnin hefði eyrnamerkt 10 milljónir evra til nýsköpunar í sjóflutningum á skemmri leiðum. „Þetta er í samræmi við sértakt átak Evrópusambandsins.Milljóna tonna álagi hefur þegar verið létt af hollenskum vegum og fyrir það erum við þakklát,” segir hún. (Fréttablaðið 2006)

Á Íslandi lemja menn hausnum við steininn. Samgönguráðherra og aðrir halda því statt og stöðugt fram að strandsiglingar séu ekki hagkvæmar og ekki megi niðurgreiða þær. Þetta er alrangt og það er sorglegt að horfa á glötuð tækifæri. Ef Marco Polo áætlunin er nefnd er fullyrt að Íslendingar geti ekki sótt um styrki til strandsiglinga. Rökin eru þau að einungis megi sækja um styrki til siglinga á milli landa. Hefur þetta verið kannað til hins ýtrasta? Nei, það er bara fullyrt. Ég fullyrði á móti að hægt hefði verið að sækja um 35% styrk fyrstu 3 ár siglinga á leiðinni Ísafjörður, Patreksfjörður, Reykjavík – Evrópa (Rotterdam, Hamborg). Síðan hefði mátt sækja um styrk vegna jaðarsvæða í gegnum aðrar áætlanir Evrópusambandsins. Nú, ef það er svo slæmt að Evrópusambandið hafnaði umsóknum okkar þá gæti ríkissjóður styrkt þessa flutninga þann tíma sem jafnvægi og eðlileg markaðsstaða kæmist á. Það er þannig ekkert sem kemur í veg fyrir að við borgum strandsiglingar niður.

Hafnir landsins og ný hafnarlög eru annað dæmi um undarlega túlkun ráðamanna á Íslandi á regluverki Evrópusambandsins. Að setja hafnir á Íslandi í sama flokk og hafnir í Þýskalandi, Hollandi, Belgíu og fleiri landa er óskiljanlegt. Að ætlast til þess að hafnargjöld standi undir öllum framkvæmdum við hafnir á Íslandi er fráleitt. Ein stærsta höfn í heimi er Antverpen höfn í Belgíu. Þar er verið að endurnýja stálþil og viðlegukanta fyrir milljarða. Antverpenhöfn borgar minnst að þessum framkvæmdum. Ríkissjóður Belgíu greiðir þorra framkvæmdarinnar. Smáhafnir á Íslandi þurfa að punga út 40% úr galtómum sjóðum sínum í nafni samkeppni. Þetta er auðvitað ekkert annað en hlægilegt!

Það er hneyksli að slíkum slembirökum skuli vera beitt sem tíðkast hafa gagnvart Evrópusambandinu og regluverki þess. Það er kominn tími til að ráðamenn horfi upp úr stöðluðum bókum um frjálshyggju og kynnist raunveruleikanum.

mánudagur, febrúar 26, 2007

Strandsiglingar - ölmusa eða þjóðþrifamál?

Fyrir 25 árum sigldu Heklan og Esjan hringinn í kringum landið og færðu landsmönnum vörur. Verslun dafnaði í byggðum landsins og fyrirtæki áttu þess kost að setja upp höfuðstöðvar og starfsstöðvar annar staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Með bættum vegum og markaðsvæddara þjóðfélagi færðust þessir flutningar á vegi landsins. Sjóflutningar lögðust af. Nú er svo komið að um vegi landsins þeysa trukkar með hundruð tonna af varningi dag hvern. Vegirnir láta á sjá og hættur fylgja þessum flutningum. Það sér það hver maður að þröngir malarvegir á Vestfjörðum eru ekki beinlínis kjörsvæði 18 hjóla vöruflutningabíls með tengivagn – svo ekki sé minnst á að vetrarlagi.

Marel og byggðaþróunin
Þetta er ein hlið málsins. Hin hliðin eru áhrifin á byggðarþróun í landinu. Flutningskostnaður er meiri á ákveðnum svæðum landsins en öðrum. Þannig búa Vestfirðingar við 30-40% hærri flutningskostnað en t.d. Akureyringar. Auk þess er öxulþungi oft takmarkaður sem rýrir flutningsgetuna umtalsvert. Möguleikar fyrirtækja, sem framleiða vörur, eru takmarkaðir við slíkar aðstæður. Þetta leiðir af sér einhæfni í atvinnulífinu sem aftur þýðir brothætt umhverfi. Þetta sést best á nýlegum fréttum þess efnis að Marel muni loka starfsstöð sinni á Ísafirði í haust. Tekin var ákvörðun um að draga saman í rekstri og stækka einingar. Einingin á Ísafirði átti aldrei möguleika í kapphlaupinu um að vera einingin sem myndi stækka. Það myndi aldrei svara kostnaði að keyra afurðirnar á vöruhótelin í Sundahöfn. Útflutningshöfnin Ísafjörður var aflögð þegar skipafélögin fóru á vegina.

Rangt að ESB banni styrki til strandflutninga
Stjórnvöld hafa keppst við að auglýsa eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og tilskipanirnar frá Brussel þegar kemur að strandsiglingum. Með því að telja okkur trú um að þessar stofnanir banni stjórnvöldum hér á Íslandi að koma að slíkum flutningum hefur þeim tekist að koma í veg fyrir löngu tímabærar aðgerðir í þessum efnum. En við skulum í eitt skipti fyrir öll eyða goðsögninni um að Evrópusambandið og EES samningurinn komi í veg fyrir og banni íslenskum stjórnvöldum að niðurgreiða strandsiglingar. Það eru beinlínis til kaflar í bókmenntum Evrópusambandsins og viðaukum með EES samningnum sem snúast um styrkingu strjálbýlla svæða. Ísland og Norður-Noregur eru þar tekin út fyrir sviga sem sérstakt viðfangsefni. Norðmenn hafa um árabil styrkt Hurtigrutan sem keppir við járnbrautir, vegi og flug um vöruflutninga frá Bergen til nyrstu bæja Noregs. Evrópusambandið er með sérstaka áætlun í gangi sem miðar að því að koma flutningum af vegum yfir á járnbrautir og fljót.

Óforsvaranlegt ástand á vegum
Hvernig má það vera að Vestfirðir og önnur svæði þar sem stjórnvöld hafa verið jafn lengi að ljúka við vegabætur og raun ber vitni þurfa að búa við þetta ástand? Það getur ekki verið í hag þjóðarinnar að íbúar á þessum svæðum þurfi að greiða meira fyrir vörur en aðrir landsmenn. Það er líka óforsvaranlegt að bjóða þessum vegslóðum upp á flutningabíla af slíkri stærðargráðu – það býður hættunni heim. Hvað veldur því að ekki er hlustað á almenning í þessu landi þegar kemur að strandsiglingum? Það er alveg ljóst að meirihluti þjóðarinnar, hvort sem hann býr á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess, er hlynntur því að taka upp flutninga á sjó.

Fólkið vill breytingar – stjórnvöld ekki
Fyrirtæki í sjávarútvegi á Vestfjörðum hafa lagt fram metnaðarfulla áætlum um það hvernig mætti koma slíkum siglingum á með stuðningi stjórnvalda fyrstu 3 árin. En eftir þann tíma yrði komið jafnvægi á flutningana og ríkisstyrkur aflagður. Áhugavert er að heyra í framkvæmdastjóra Atlantsskipa, Gunnari Bachmann, þegar hann er spurður um ástæður þess að ekki skuli vera komnar á strandsiglingar í viðtali við Bæjarins Besta þann 22. febrúar sl.: „Það vantar enn viljann til að breyta“ segir Gunnar Bachmann, framkvæmdastjóri Atlantsskipa, aðspurður um strandsiglingar fyrirtækisins til Vestfjarða. Hann segist hafa merkt áhuga hjá fyrirtækjum, en það sé eins og tryggð við flutningafyrirtækin sem fyrir eru á markaðinum séu honum yfirsterkari. Mestan áhuga segist Gunnar skynja hjá hinum almenna borgara sem gjarnan vilji losna við öra umferð flutningabíla af vegum landsins en áhuginn hjá stjórnvöldum sé hins vegar ekki fyrir hendi.

Fullyrðingar um hið gagnstæða
Gunnar Þórðarson skrifaði grein í Bæjarins Besta þann 24. febrúar þar sem hann heldur hinu gagnstæða fram. Hann segir strandsiglingar ekki breyta neinu í stóru myndinni – flutningar eigi að fara fram á vegum: Í nefndaráliti um þróun flutninga innanlands sem gefin var út af Samgönguráðuneytinu í apríl 2005 kemur fram að þjóðhagslegur kostnaður myndi hækka við færslu hluta flutnings frá Ísafirði til Reykjavíkur af þjóðvegum út á sjó, sem byggir á hversu lítið magn er verið að flytja. Það er rétt að kostnaður við standsiglingar er talsverður en það er líka verið að fara fram á ríkisstyrktar strandsiglingar á meðan þjóðvegir verða byggðir upp.

Gunnar fer einnig hörðum orðum um þá sem benda á Evrópusambandið og EES samninginn máli sínu til stuðnings. Gunnar segir: Að stjórnandi fyrirtækis eins og Atlant[s]skipa skuli slá um sig Hvítbók og merkilegum markmiðum Evrópusambandsins, til að knýja fram ríkisstyrk til siglinga á Íslandi er ótrúlegt lýðskrum. Gera lítið úr merkilegri samgönguáætlun þar sem Vestfirðingar eru að fá á skömmum tíma miklar vegabætur sem í raun eru langt umfram efnahagsleg rök. Þarna blandar Gunnar saman þeim heimildum EES samningsins um að styrkja strjálbýl svæði annars vegar og markmiðum Evrópusambandsins um að koma flutningum á ár og járnbrautir hins vegar. Hvoru tveggja má nota sem rök fyrir því að færa flutninga aftur á sjó hér við land en helstu rökin eru auðvitað þau að þannig verði jafnara gefið. Samgönguáætlun er ágæt út af fyrir sig – en 2-3 ára bið eftir bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur, lengri bið á suðurfjörðum og enn lengri bið þangað til svæðin verða tengd – er of langt bil sem verður að brúa.

Það hallar á Vestfirði
Byggðastefna snýst fyrst og fremst um pólitískar ákvarðanir er lúta að þjónustustigi. Réttlát byggðastefna miðar að jafnri aðstöðu fólks, óháð búsetu. Það er alveg ljóst að Vestjarðasvæðið skilar gríðarlegum virðisauka til samfélagsins. Útflutningsverðmæti og skatttekjur af svæðinu eru margir milljarðar árlega og þessum fjármunum verður að veita aftur í svæðið. Það er búið að koma því þannig fyrir að allar vörur fara til Reykjavíkur en slíkt er ekkert lögmál. Hagur okkar Íslendinga er ekki aðeins að þenja út Faxaflóahafnir heldur að styrkja byggð í þessu landi. Það liggja fyrir málefnalegar og raunhæfar tillögur sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga sem stjórnvöld eiga að sjá sóma sinn í að koma til leiðar. Að niðurgreiða strandsiglingar um 100 milljónir árlega næstu 3 árin er ekki ölmusa heldur þjóðþrifamál. Á tungu kauphallarinnar heitir það að vera þjóðhagslega hagkvæmt!

föstudagur, febrúar 23, 2007

Útboð - var engin frestun?

Í haust var svokölluð sýndarfrestun á útboðum ríkisins. Þessi frestun átti að slá á þenslu í þjóðfélaginu. Vestfirðingar mótmæltu og sögðust ekki kannast við þessa þenslu sem allir væru að tala um. Ríkisstjórnin fullyrti að engum framkvæmdum yrði frestað. Það stóð til að bundið slitlag yrði komið árið 2008 - þessu var haldið fram fyrir og eftir frestun. En svona hljóðar útboð á svokölluðum Tröllatunguvegi sem er forsenda bundins slitlags til Reykjavíkur frá norðanverðum Vestfjörðum:
Tröllatunguvegur (605), Vestfjarðavegur - Djúpvegur
Vegagerðin óskar eftir tilboðum í gerð nýs Tröllatunguvegar (605). Verkið felst í gerð nýs vegar frá Vestfjarðavegi (60) í Geiradal, um Gautsdal, Tröllatunguheiði og Arnkötludal að Djúpvegi (61) í Steingrímsfirði. Lengd útboðskaflans er um 24,5 km.

Verki skal að fullu lokið fyrir 1. september 2009.

Er þetta ekki 1 árs frestun - tja, spyr sá sem ekkert veit.....


mánudagur, febrúar 19, 2007

Ástæðan fyrir tapinu


Auðvitað vann Dr. Gunni ekki Júróvisijón forkeppnina. Það vantaði allan þokka í þetta og botn. Ef hann hefði hins vegar gert það eina skynsama í stöðunni og haft mig á sviðinu á bassa, Kristján Hnífsdæling á trommur, Gumma Dórahermanns á gítar, Heiðu á röddum og sjálfan sig á úkalele - hefði lagið steinlegið í netinu. Lagið hefði hljómað nákvæmlega eins en þegar ég og Gummi hefðum farið úr að ofan hefði þjóðin sprengt símakerfið! Þetta sjá allir sannir stílistar. Hefði jafnvel mátt klæða okkur upp í Múmíngalla til að ramma þetta ennfrekar inn......Jamm, þjóðin hefði gengið af göflunum.....

föstudagur, febrúar 16, 2007

Hið galna


Í fyrra birtu nokkur trúfélög auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem þeir, sem einhverra hluta vegna hefðu aðhyllst kynvillu, var bent á leið út úr ógöngunum. Þessi leið var samkvæmt þeirra hugmyndum vegur drottins. Þessi trúfélög auglýstu þarna lækningu við krankleikanum samkynhneigð. Mér var mjög í nöp við þessa auglýsingu og taldi að hún væri á brún ærumeyðinga og hefði þannig mátt ritstýra frá birtingu. Ég talaði um þetta við ritstjóra Morgunblaðsins sem var ekki sama sinnis og ég.
Núna eru umræður miklar um Kastljósþátt þar sem Alan nokkur Chambers lýsti afhommun sinni. Ég veit ekki hvort ég vilji ganga svo langt að segja að þáttur eins og þessi flokkist undir ærumeyðingar en þetta er ekki fallegt sjónvarpsefni. Þetta hefur ekkert með upplýsta umræðu að gera. Kynhneigð þvæst ekki af fólki frekar en húðlitur. Vissulega eru til dæmi um menn sem hafa breytt sér - eins og t.d. Michael Jackson en það sést kannski einmitt best á því dæmi hvað erfitt er að hrófla við sköpunarverkinu.

Það að fjalla um kynhneigð fólks á þeim nótum að það sé vilji guðs að við séum svona en ekki hinseginn flokka ég sem þvælu og ekki boðlega á disk vitiborinna manna. Rökin eru brjálæðisleg og að mínu mati stjórhættuleg. Á sama svæði eru t.a.m. umræðan um að svart fólk sé heimskara en hvítt fólk - enda komi það fram í fjölmörgum rannsóknum. Þetta er auðvitað algjörlega galið.....

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Göngudeild og greiningarstöð

Það er svo langt síðan ég tók þátt í meðferðarumræðunni. Það er svo margt í ólagi - skemmdi maturinn var líka á dagskrá 2001. Það eru 6 ár síðan og menn undrandi. Er ekki tími til kominn að taka kerfið allt í gegn? Eru menn alveg jafn vissir í sinni sök þegar þeir skjóta niður hugmyndir um greiningarstöð og öflugri göngudeildarúrræði? Af hverju má ríkið ekki reka öflugt úrræði fyrir langt genga vímuefnaneytendur? Hvað með börnin? Gæti verið að börn fengju betri úrlausn sinna mála annar staðar en á Vogi?

Vonandi verðum við ekki í sömu sporum eftir 6 ár.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Meðferð og flokkar

Einhver kynjavera sem kallar sig Marglitta setti inn athugasemd hér á síðuna um meðferðarmál og tengdi við stjórnarsetu hverju sinni. Meðferðarpólitík á Íslandi hefur löngum verið þverpólitísk. Mér gekk t.a.m. betur með að sannfæra Hjálmar Árnason um ágæti hugmynda minna um greiningarstöð en marga samflokksfélaga mína í VG á sínum tíma. Byrgið er ekki aðeins ábyrgð Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins heldur allra þeirra sem sitja á alþingi. Fjárlaganefnd og alþingi hafa samþykkt framlög öll þessi ár og félagsmálanefnd og aðrar nefndir þingsins ekki gert neinar athugasemdir við alla þá meðferðarstaði sem hafa risið eins og gorkúlur um allt land - fyrir fólk á öllum aldri.

Breiðavík er áminning - verðum að bregðast við og skera upp. Börn hafa sjaldnast eitthvað að gera inn á meðferðarstofnanir.

föstudagur, febrúar 09, 2007

Krónufréttir á ljóshraða


Merkilegt hvað heimurinn er eitthvað breyttur. Hér áður fyrr voru hinir vísu menn langskólagengnir vísindamenn eins og þeir Jón Helgason eða Sigurður Norðdal. Þetta voru mennirnir sem komu með gullkornin sem í var vitnað í fjölmiðlum. Á þessa menn var hlustað – þeir höfðu eitthvað að segja. Í dag hefur þetta breyst. Núna er varla hlustað á þá sem ekki geta komið boðskap sínum áleiðis á innan við 15 sekúndum. Vægi fréttarinnar eykst mikið ef viðmælandinn er ríkur.

Ég las á mbl.is áðan að krónan muni hverfa með tímanum. Það er Sigurður Einarsson kenndur við Kaupþing sem sagði þetta. Hann er mjög ríkur og fyrirsögnin er mjög góð. Þessi frétt verður örugglega í öllum öðrum fjölmiðlum í dag og næstu daga. Jafnvel efni í Kastljósið eða Morgunútvarpið. Jón Helgason hefði aldrei sagt okkur fréttir af slíku hjómi. Mér þykir krónufréttin heldur innatóm þegar ég les fyrsta erindi Áfanga Jóns:

Liðið er hátt á aðra öld;
enn mun þó reimt á Kili
þar sem í snjónum bræðra beið
beisklegur aldurtili;
skuggar lyftast og líða um hjarn
líkt eins og mynd á þili;
hleypur svo einn með hærusekk,
hverfur í dimmu gili.

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Meðferð og börn


Óhuggulegar og óþægilegar staðreyndir um Breiðavík hafa dunið á okkur að undanförnu. Þar áður var það Heyrnleysingjaskólinn og síðan auðvitað Byrgið. Við vonum auðvitað að ekkert slíkt eigi sér stað á stofnunum okkar í dag. En getum við verið viss? Það sem kom fram í Kastljósinu sýndi fram á að ofbeldið átti sér einkum stað í frímínútum (á kvöldin og um helgar). Ég efa það stórlega að ráðgjafar á Vogi, Háholti, Árvöllum (Gunnarsholti) o.fl. stöðum beiti börn ofbeldi. En hvað gerist í frímínútum – á kvöldin og um helgar? Hver rannsakar árangur og afdrif barna sem hafa runnið í gengum þessar stofnanir síðustu ár? Erum við alltaf að hjálpa með því að safna börnum saman sem eiga erfitt á einn stað – getur verið að slík ráðstöfum gerir illt verra?

Ég las margar rannsóknir um þessi efni þegar ég starfaði innan geirans. Ein þeirra sló mig hvað mest. Það var rannsóknin When intervention harms – en niðurstöður hennar voru þær helstar að inngrip gæti skaðað meira en ef barnið var látið óáreitt. Inngripið snéri að innlögn á stofnun. Niðurstöður sýndu að í mörgum tilfellum gekk barni sem hitti sálfræðing 1-2svar í viku betur en því sem lagt var inn á þar tilgerða meðferðarstofnun. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að börn sem safnað er saman samsama sig oft við þann sem er mest andfélagslegur – þetta getur varla verið hugmyndafræði meðferðarinnar. Með þessu er ég ekki að segja að þær stofnanir sem ég nefndi séu að vinna vont starf – þær gagnast ugglaust mörgum börnum. Við megum hins vegar ekki loka augunum og vona það besta. Fagmennskan er það sem skiptir máli í þessu samhengi og þar má ekki slaka á kröfunum.

Ég skora því að félags- og heilbrigðisyfirvöld að skoða þetta um leið og úttekt er gerð á Breiðavík. Þeir sem gengið hafa í gegnum þessar hörmungar fyrir tilstuðlan opinberra aðila eiga kröfu á því að nútíminn verði líka rannsakaður. Aðeins þannig er réttlætinu fullnægt.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Nagladekk


Stundum koma vanhugsuð drög að reglugerðum fram. Drög að reglugerð – eða var það kannski lagabreyting – um tolla á nagladekk leit dagsins ljós í síðustu viku. Svifryksmengun í Reykjavík og á Akureyri hefur aukist gríðarlega síðustu árin og má rekja það til bíla og ekki síst nagladekkja sem spæna upp malbikið. Bílaeign landsmanna hefur aukist gríðarlega síðustu árin. Umhverfisráðuneytið vill því skiljanlega draga úr menguninni og ráðið: tollar á nagladekk. Það gleymdist hins vegar að taka það með í reikninginn að víðast hvar á norðanverðum helmingi landsins – og víðar – eru vegir þannig að fátt kemur til greina annað en að keyra á nöglum. Ég held að þessi svæði þurfi allt annað en frekari álögur af hálfu ríkisins.
Reykjavíkurborg ætti kannski að einbeita sér að skipulagi borgarinnar og almenningssamgögnum - nú eða gjaldtöku á umferð til þess að draga úr svifryksmengun.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Little Miss Sunshine og hjáróma kvak


Ég fór í bíó um daginn. Sá myndina Little Miss Sunshine. Fallegasta mynd sem ég hef séð lengi. Þetta er svona mynd sem fær mann til að trúa á lífið. Mæli eindregið með þessari snilld.
Spurning dagsins á BB er hins vegar jafn tilgangslaus og Little Miss Sunhine var tilgangsrík. Spurningin er þessi: Stefnir í hrun á Vestfjörðum í ljósi fólksfækkunar og neikvæðs hagvaxtar? Það er algjör óþarfi að fela staðreyndir eða benda á eitthvað annað – en það er líka óþarfi að hampa hinu neikvæða öllum stundum. Það liggur algjörlega fyrir að við þurfum að hamra á stjórnvöldum vegna ýmissa mála eins og t.d.: Opinberar framkvæmdir settar á fullt á stöðnunartímum, hringtenging rafmagns, öflugri ljósleiðara, fjölgun tekjustofna, bættra samgangna o.s.frv. En hvaða aðferð er best? Við getum talað okkur í hrun – en hverju skilar það?

Hvar liggja kostir Vestfjarða? Þeir liggja m.a. í því að hér má finna stórfenglega náttúru og frið frá skarkala stórborgarlífsins. Borgin hefur sína kosti sem eru ótvíræðir. Við þurfum ekki að keppa við borgina um þá kosti. Gallar borgarlífsins eru hins vegar margir og þar vega kostir okkar á móti. Sigur Rós er t.d. í vandræðum í Mosfellsbæ vegna vegagerðar þar í bæ. Vegagerðin er skiljanleg þar sem byggja þarf nýtt hverfi. En þessi vegagerð gerir starfseminni sem nú er í Kvosinni erfitt fyrir. Ég sendi Sigur Rósar mönnum bréf þar sem ég benti þeim á möguleikana hér fyrir vestan. Ég minntist ekkert á neikvæðan hagvöxt í bréfinu og að enn þyrfti að keyra á einbreiðum vegi í Mjóafirði á leiðinni til Reykjavíkur. Ég benti hins vegar á náttúruna og mannlífið hér – það er einstakt.

Reykjavík er einstök en það eru margir sem eru að leita að öðru. Við höfum upp á þetta annað að bjóða. Við þurfum hins vegar að trúa því til þess að það verði ekki að hjáróma kvaki.