mánudagur, júní 25, 2007

Eyjan kallar!

Ég flyt - enda gaman þegar menn búa eitthvað nýtt og skemmtilegt til. Fer hingað: www.eyjan.is/grimuratlason

fimmtudagur, júní 21, 2007

Hið lítt þekkta boðorð

Halldór er stórkostlegur í skopteikning í Viðskiptablaðinu á þriðjudaginn. Þar kynnir hann til leiks hið lítt þekkta 11. boðorð – svokallaða Vestfjarðaviðbót:

11. Þú skalt síðan kenna kvótakerfinu um hvað lífið er hundleiðinlegt.

B.K. Guð.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Víðtækar sértækar aðgerðir

Ríkisstjórnin hélt fund í morgun. Umræðuefnið var m.a. tillögur Hafró um aflaniðurskuð á komandi fiskveiðiári og áhrif þeirra á sjávarbyggðirnar. Ráðherrar keppast við að tíunda að bregðast verði við ástandinu en þó aðeins með almennum aðgerðum til framtíðar eins og samgöngubótum, eflingu fjarskiptamála og eflingu menntastofnana. Allt mjög gott - sé horft til lengri tíma.

Þegar Össur Skarphéðinsson var spurður út í hvort til greina kæmi að beita sértækum aðgerðum svaraði hann: Það liggur alveg ljóst fyrir að það er ekki hægt að fara í víðtækar sértækar aðgerðir.

Hvað ætli það þýði þegar farið er í víðtækar sértækar aðgerðir? En þegar ekki er hægt að fara í víðtækar sértækar aðgerðir?

sunnudagur, júní 17, 2007

Fiskur og annað

Geir H. Haarde hélt hátíðarræðu fyrir sunnan í dag. Hann talaði m.a. um fiskveiðistjórnunarkerfið og tillögur Hafró. Ég verð að játa að það ræða forsætisráðherra gerði mig nett stressaðan part úr degi. Þá sérstaklega þessi hluti ræðunnar:

Hverjum manni er það ljóst að þjóðin er nú betur í stakk búin til að takast á við áföll á þessu sviði en oftast áður. Nú er meiri viðspyrna og við höfum betri efni á að líta til lengri tíma og taka á okkur byrðar sem létt gætu róðurinn síðar. Það eru hyggindi sem í hag koma.

Það kvað við nokkuð afgerandi tón hjá Sturlu Böðvarssyni sem hélt hátíðarræðuna á Ísafirði í dag. Ég hef ekki alltaf verið sammála Sturlu en að þessu sinni tel ég hann að mörgu leyti hafa hitt naglann á höfuðið. Hann sagði fiskveiðistjórnunarkerfið hafa mistekist og við því þyrfti að bregðast. Hann sagði einnig:

Aðrir landshlutar svo sem höfuðborgarsvæðið, Suðurnes og miðausturland munu eflast með stóriðjunni og vegna vaxandi fjármálastarfsemi, stjórnsýslu, þjónustu opinberra stofnana sem starfa á landsvísu mun höfuðborgarsvæðið stöðugt eflast. Þeir landshlutar verða að gefa eftir hlutdeildina í sjávarútvegi til þeirra landshluta sem geta best nýtt fiskimiðin á hagkvæman hátt og skapað vinnu við sjávarútveginn.

Þegar ræðurnar eru lesnar saman má lesa ákveðinn samhljóm. Geir sagði nefnilega líka:

Það er skylda ríkisvaldsins að koma þeim byggðarlögum til hjálpar þar sem grundvöllur atvinnustarfsemi og samfélags brestur, hvort sem það er í sjávarútvegi eða öðrum greinum.

Ég trúi því að ríkisstjórnin ætli sér að beita svæðisbundnum aðgerðum – það er vel hægt og þarf að gera. Fagna ræðu Sturlu.

fimmtudagur, júní 14, 2007

25 ár

Það eru 25 ár síðan Falklandseyjastríðinu lauk. Ég man þetta stríð eins og það hafi gerst í gær. Þetta mikla minni hófst reyndar á því að Díana og Karl gengu í það heilaga ári áður. Þá elskuðu allir ungir menn Díönu og var ég ekki undanskilinn. Ég var mjög andsnúinn þessum ráðahag og var á þeim buxunum að ganga yfir Hellisheiði eystri, inn Vopnafjörðin að Hofsá og segja Karli, þar sem hann stóð og veiddi lax, að ég sæi þessu verðandi hjónabandi allt til foráttu. Hefði betur gert það og þá væri staða Díönu allt önnur. Hún væri fráskilin 2 barna móðir í Grafarvoginum og ég hamingjusamlega giftur í Bolungarvík henni Helgu Völu. Þetta jarðsprengjufetis prinsessunnar og ást hennar á ljótum drögtum hefðu aldrei gengið. En blessuð sé minning hennar.

Falklandseyjar gerðust hins vegar ári síðar og þá var ást mín á Díönu löngu kulnuð og ég kominn í sveit í Hrútafjörðin. Það var á Kollsá sem Argentínumenn gáfust upp. Paulo Rossi skoraði 4 mörk á HM og varð markahæstur og hetja Ítala sem urðu heimsmeistarar í fótbolta. Það sem mér þótti athyglisverðast var veitingahúsaeigandinn sem komst í fréttirnar af því hann ætlaði að bjóða Rossi ókeypis að borða á veitingahúsi sínu það sem hann ætti eftir ólifað. Veit ekki hvort þetta yrði frétt í dag – í heimi mammons. Hvar er Rossi í dag?

Það sem skelfir mig að mér þykir svo stutt síðan að þetta gerðist. Tuttugu og fimm árum fyrir Falklandseyjastríðið hófst Marshallaðstoðin – það segir allt sem segja þarf: Ég er að verða gamall......

þriðjudagur, júní 12, 2007

Íbúðalánasjóður þarf að vera til

Íbúðalánasjóður er góð stofnun að mörgu leyti. Hún er lífsnauðsynleg fyrir íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. Það er fráleitt að ætla að stofnunin beri ábyrgð á hækkun á fasteignamarkaðnum og auknum lántökum heimilana - eða að Íbúalánasjóður dragi úr hagvexti. Þar bera bankarnir ásamt stjórnvöldum, sem framkvæmdu jafnframt því sem þau hleyptu bankakerfinu á skeið, mesta ábyrgð. Það er hins vegar er galli á gjöf Njarðar þegar Íbúðalánasjóður er annars vegar. Sumir njóta betri kjara en aðrir:

Á Vestfjörðum er hámarkslán Íbúðalánasjóðs 18 milljónir þó aldrei hærra en sem nemur 1.5 x fasteingamat.
Í Reykjavík er sama hámark en þó aldrei hærra en sem nemur 80% af brunabótamati.
Á Austfjörðum er sama hámark en þó aldrei hærra en sem nemur 2.0 x fasteignamat.

Þetta er einkennilegur reikningur. Hvers vegna er ekki stuðst við 80% af brunabótamati út um allt land? Fer fólk ekki í greiðslumat og fær úr því skorið að það geti greitt af lánum sínum?

En við erum á mikilli furðusiglingu. Las þetta á visir.is áðan:

Mikil eftirspurn er eftir lúxusíbúðum í miðborg Reykjavíkur. Í skuggahverfi rísa nú háhýsi þar sem íbúðirnar koma til með að kosta allt að 230 milljónir króna.

Vonandi pissar kötturinn ekki í stigaganginn....

mánudagur, júní 11, 2007

Uppruni tegundanna

Ætla að leita upprunans í sumar. Reyndar má segja að með því að flytja vestur hafi sú leit hafist enda hálfur að vestan. Hins vegar hef ég aldrei komið á Hornstrandir en þaðan komu þessi heljarmenni sem lifðu af aldamótin þar síðustu og settust að í Súðavík. Við Helga Vala ætlum því að eyða nokkrum dögum það nyrðra í sumar.

Langalangafi minn Jón Valgeir Hermannsson var mikill víkingur úr Furufirði en hann náði því að verða 94 ára sem þykir býsna gott í dag og næsta fáheyrt á þeim tíma sem hann var uppi. Hann skaut ísbjörn, lóðsaði skip um erfiðar siglingaleiðir og gróf tvö barna sinna í skafl þegar ekki var hægt að taka gröf vegna frosta. Ég held að heljarmenni sé réttnefni í þessu samhengi. Við eigum sama afmælisdag ég og hann Jón Valgeir en ég var skírður í höfuðið á syni hans Grími Jónssyni.

laugardagur, júní 09, 2007

Smábátar

Ég fékk að fylgja með á línuveiðar í gær á einu af flaggskipum Bolungarvíkur - sem er smábátur. Ég fékk að taka þátt – svona þegar störfin voru þess eðlis að ég þvældist ekki fyrir mönnum að störfum. Þetta var mögnuð lífsreynsla fyrir gamlan borgarlúða eins og mig. Ekki það sveitadvöl og Raufarhafnardvalir frá barnæsku afeitruðu mig að hluta en ég fór aldrei á sjó. Já, ég var alveg heillaður – ætla samt ekki að setja mig á of háan hest. Við vorum á sjó í frábæru veðri og algjöru logni. Það er á hreinu að 7 vindstig, hríð og frost hefðu breytt þessari mynd umtalsvert.

Það má vel spyrja sig hvers vegna við Íslendingar höfum ekki algjörlega snúið við blaði í tengslum við fiskveiðar? Smábátur eyðir 15% af þeirri olíu sem stærri skip eyða per kíló veidd úr sjó. Línan og færin eru allt önnur veiðafæri en botnvarpan. Ágætur maður lýsti sem svo að það væri eins og að fara í berjamjó á jarðýtu að nota botnvörpu til veiða.

Nú þegar allt virðist vera komið á hvolf í fiskveðastjórnunarkerfin er augljóst að breytinga er þörf. Því ekki að taka upp vistvænar og byggðavinsamlegar fiskveiðar? Þá er ég ekki að segja að allir þeir sem veiða á annað en línu og færi eigi að sigla í land – en það þarf að stórauka þær veiðar. Það hefur sýnt sig að þessir smábátar geta veitt yfir 1000 tonn á fiskveiðiári og hver bátur skapar um 10 manns vinnu. Hvers vegna er ýsa kvótasett – það er ekki einu sinni hægt að veiða öll tonnin sem eru í boði? Það væri stórt skref í áttina að heimila ýsu og steinbítsveiðar og hafa dagana óframseljanlega. Síðan á að stórauka heimildir til þorskveiða í litla kerfinu – og best væri að það væri gert með því að auka kvóta byggðalaga sem síðan framseldu þær smábátum á svæðinu.

Það skapast auðvitað lítil sátt með þessum vangaveltum – en það skapast heldur engin sátt um kerfið eins og það er í dag.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Á mölinni

Hafliði Helgason á Fréttablaðinu ákvað að vera svolítið töff og svona hundraðogeinskur í leiðara um helgina. Líkti Flateyri og Vestmannaeyjum við Djúpuvík og Haganesvík. Alveg hreint klassísk borgar-analýsa fylgdi:

Enda þótt full ástæða sé til að hafa samúð með því fólki sem þróunin sviptir vinnunni er engu að síður nauðsynlegt að horfast í augu við staðreyndir. Samkeppni við fiskvinnslu annar staðar, svo sem í Kína, mun þýða að fiskvinnsla á Íslandi á ekki möguleika ef greinin á að standa undir lífskjörum sem eru einhvers staðar í námunda við núverandi lífskjör. Rækjubrauðsneið á veitingastað í Kaupmannahöfn er með Norðursjávarrækju sem landað er á Jótlandi, þaðan er ekið með hana til Póllands og hún send pilluð til baka til Kaupmannahafnar.

Merkileg er einföldun. Bækur eru prentaðar í Eistlandi, föt eru saumuð í Víetnam, forrit gerð á Indlandi og stál framleitt í Kína. Allt hefur þetta áhrif á störf hér í gamla heiminum. Prentarar, skraddarar, járnsmiðir og forritarar finna fyrir afleiðingunum. Atvinnuleysi fer vaxandi í hinum vestræna heimi og menn hafa áhyggjur af þróuninni. Lífskjör batna ekki við þróun Hafliða – hún er ágæt meðan hún varir en springur í andlitið á okkur fyrr en varir.

Það er ótrúleg bernska að halda að þensluspilaborgin standi til eilífðar. Hún er ekki byggð á traustum grunni sem stendur allt af sér. Ofurtrú manna á peningum og óforgengileika mun koma mönnum í koll.

Þróunin sem Hafliði talar um þegar hann ber byggðirnar sem fóru í eyði á síðustu öld við þær byggðir sem hafa lent í áföllum í dag er afskaplega vond. Djúpavík og Haganesvík urðu aldrei að 20. aldar byggðum ólíkt Vestmannaeyjum og Flateyri sem staðið hafa af sér hremmingar aldanna.

Hafliði lýkur þessum borgarvísindum sínum svona:
Þetta eru staðreyndirnar sem blasa við. Mótbárur við þessari þróun eru oft á rómantískum grunni fremur en raunsæjum. Afnám kvótakerfisins myndi engu breyta um þróunina.

Hvaða þróun? Að vestræn fyrirtæki þurfi sífellt að skila meiri arði og því framleiða þau allt í 3. heiminum og stórauka þannig félagsleg vandamál í heimalöndum sínum auk þess sem siðferðisþröskuldar nær hverfa með fyrirbærum eins og barnaþrælkun o.fl.? Eða er það bara Flateyri og Raufarhöfn og að allir flytji burt í Grafarvoginn vegna þess að fiskveiðar- og vinnsla leggst af? Hefur verið látið reyna á nýtt kerfi?

Það verður að gera greinarmun á þróun og náttúrulögmálum. Byggðaþróun er ekki dæmi um náttúrulögmál. Mennirnir hafa talsverð áhrif á þróun atvinnu- og byggðamála. Ég held að okkur væri nær að taka upp nýja hugsun sem byggir á sjálfbærri vistvænni hugsun sem tæki mið af þörfum sem flestra – ekki aðeins bankakerfisins.

laugardagur, júní 02, 2007

Hafró

Veiðihlutfall þorsks verði 20% í stað 25% leggur Hafró til - kemur á óvart segja menn. Kemur mér ekki á óvart þar sem þetta hefur verið rætt í allan vetur og er m.a. ástæða þess að sumir hverfa úr greininni. Ég held að ríkisstjórnin ætti að hraða hugmyndavinnu og skoða þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram til uppbyggingar atvinnu á svæðum eins og Vestfjörðum og NA-landi. Aðgerða er þörf – það er alveg ljóst.

Sjómannadagar

Í sól og blíðu sit ég og hlusta á rokfréttir úr Reykjavík. Hátíð hafsins er þar haldin en hér fyrir vestan er sól. Sjómannadagurinn teygir sig yfir 3 daga hér í Víkinni og ég ætla að taka þátt í mörgu. Dauðlangar í belgjaslag og detta í höfnina en veit ekki hvernig það fer með gigtina...En þetta er dagskrá helgarinnar:

Laugardagur:
11:00 Skemmtisigling með stærri sem smærri bátum.
14:00 Skemmtidagskrá við höfnina: Kappróður, belgjaslagur, flekahlaup, keppni í sjómanni o.fl. 19:30 Hátíðarkvöldverður með skemmtun í Víkurbæ, Brynja Valdís fer með gamanmál, Regína Ósk, Friðrik Ómar og Grétar Örvarsson syngja og leika tónlist og Hrólfur Vagnsson sér um „dinner“ tónlist.
23:00 Dansleikur með Eurobandinu í Víkurbæ.
23:00 Kjallarinn opinn.

Sunnudagur:
10:15 Skrúðganga frá brjótnum.
11:00 Sjómanndagsmessa í Hólskirkju.
14:00 Kaffiveitingar í húsi slysavarnarfélagsins. Á neðri hæð hússins verður sýnd mynd um Bolungarvík (gamla tímann) sem er í eigu Lárusar Benediktssonar.