þriðjudagur, janúar 30, 2007

Hrun eða ekki hrun


Kristinn H. Gunnarsson er skeleggur þingmaður. Hann hefur oft staðið í lappirnar þegar aðrir gera það ekki. Ég er hins vegar algjörlega ósammála honum og sýn hans á framtíð Vestfjarða. Hann dregur upp þá mynd í grein að hrun blasi við ef ekkert verði að gert. Þetta þykja mér kaldar kveðjur til þeirra sem hér kjósa að búa. Það er auðvitað rétt hjá Kristni að ýmislegt þurfi að gera og mikið af því megi herma upp á ríkisstjórnina. Hins vegar er svæðinu engin greiði gerður með því að leggja það í sjúkrarúm og tala um það eins og um karlægt gamalmenni væri að ræða. Vel má vera að atvinnulíf sé full einhæft og hagstjórn stjórnvalda hvetji ekki menn ekki til dáða – en því má breyta. Þetta snýst um grundvallaratriðin í hagfræðinni: Þegar þennsla er þá dregur hið opinbera úr framkvæmdum - þegar samdráttur er þá eykur hið opinbera framkvæmdir. Við skulum hjálpa stjórnvöldum að gera þetta.

Sjálfsvirðing og metnaður íbúa svæðisins er það sem skiptir máli. Það má vel vera að á Vestfjörðum finnist fólk sem vildi helst geta selt húsin sín og flytjast suður en þorri fólks kýs að vera hérna af fúsum og frjálsum vilja. Það eru ekki frábærar samgöngur eða válynd veður sem hafa haldið fólki hér til þessa dags. Það er hægt að tala allt í gröfina. Það er lögmál að fólk hefur ekki áhuga á því sem fyrirfram er búið að dæma úr leik. Vestfirðir hafa upp á ýmislegt annað að bjóða sem þykir eftirsóknarvert – og það er það sem við eigum að sýna fólki. Fjölskylduvænt umhverfi þar sem öll þjónusta er til staðar er það sem nútímamaðurinn leitar í.

sunnudagur, janúar 28, 2007

Berklar


Heyrði af berklatilfelli um daginn. Viðkomandi var Íslendingur sem smitaðist í Svíþjóð. Heyrði síðan ræðubút frá Guðjóni Arnari þar sem sagðist hræðast útlendinga og smitsjúkdóma – m.a. berkla. Ég held að öruggara væri að banna Íslendingum að ferðast til útlanda en að hefta hingað för íbúa Evrópusambandsins – sé takmarkið að hefta útbreiðslu sjúkdóma. Einnig boðar Guðjón að hagir þeirra sem hingað eru komnir verði kannaðir – það á semsagt að rannsaka fólk ef það er af öðru þjóðerni en íslensku.

Mig langar ekki í svona samfélag. Samfélag þar sem fólk er dregið í dilka eftir þjóðerni. Hvaða útlendingar eiga að falla undir þennan nýja hatt? Eru Bandaríkjamenn, Bretar, Þjóðverjar og Norðurlandabúar undanskildir? Eru sumir hreinni en aðrir? Eru það bara molbúarnir frá Búlgaríu, Póllandi og Rúmeníu sem þurfa að fara í bað?

Annars var líka athyglisvert hvað Margrét Sverrisdóttir sagði um flokkinn sinn: Hann væri holdsveikur þegar kæmi að stjórnarsetu......

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Tónlist

Staddur í höfuðborginni núna. Reykjavík er falleg borg en mikið er gott að búa fyrir Vestan. Sá á BB í morgun að búið er að staðfesta nokkur atriði á Aldrei fór ég suður um páskana. Ég er auðvitað mjög ánægður að Blonde Redhead mæti vestur enda er ekkert lögmál að tónleikar þurfi alltaf að fara fram í Reykjavík þegar bandið er erlent. Mér segist svo hugur að margir sem ekki þekkja BRH og mæta á hátíðina muni falla fyrir snilldinni. Þau halda reyndar líka tónleika í Reykjavík áður en þau fara vestur og þar mætir einnig Kristin Hersh sem er algjör meistari líka. Það lítur út fyrir að apríl verði góður mánuður í tónlistarlífinu fyrir vestan og sunnan.

Lisa Ekdahl er einnig á leiðinni vestur, suður og norður. Forsala gengur vel og er nær uppselt í Reykjavík og á Akureyri. Vestanmenn eru ekki vanir forsölu á viðburði en samt hefur talsvert selst af miðum. Ég hlakka mikið til að sjá Lisu Ekdahl í Víkurbæ....

föstudagur, janúar 19, 2007

Gömul grein


Hér eru upplýsingar sem fylgdu greininni. Tölur um pláss eru á mánuði og síðan ári. Á hverjum mánuði geta þannig farið 210 manns í gegnum afeitrun hjá SÁÁ og 60 geta verið í meðferð á mánuði. Miðað við 10 daga meðallengd afeitrunar 30 daga meðallengd meðferðar (eftir afeitrun). Hinar myndirnar lýsa stöðunni í dag (eins og hún var árið 2004 - lítið breytt) og síðan stöðunni eins og ég sá hana með tilkomu greiningarstöðvar.

Fyrir 3 árum birti ég eftirfarandi grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Ítarlegri grein eftir mig byggð á sama efni var síðan birt í danska fagtímartinu STOF árið 2005. Mér þótti (og þykir enn) þessar hugmyndir bæði raunhæfar og mikilvægar. Ögmundur Jónasson og Hjálmar Árnason notuðu þær til að vinna þingsályktunartillögur sem komust hvorki lönd né strönd á sínum tíma. Ég held að menn ættu að staldra við núna og velta því fyrir sér hvort hugmyndin sé svo galin. Að halda áfram á sömu braut er hinsvegar að mínu mati algjörlega galið. Byrgið er blóraböggullinn í skipulagsleysinu á meðferðarakrinum. Mál Byrgisins er aðeins birtingarmynd þess sem kerfið okkar býður upp á.

Markvissara skipulag - virkara eftirlit

Kemur til greina að setja á laggirnar greiningar- og ráðgjafarstöð/móttökustöð sem sinnti móttöku og greiningu allra þeirra sem leituðu sér aðstoðar vegna vímuefnavanda á Íslandi?

Á SÍÐUSTU þremur áratugum hefur orðið bylting í vímuefnameðferðarmálum þjóðarinnar. Freeportfarar komu heim og stofnuðu SÁÁ og hófust handa við stofnun afeitrunar- og meðferðarstöðva hér á landi. Fyrir þann tíma var það aðeins Bláa-bandið og deild 10 á Kleppi sem stóð fólki til boða. Það er óhætt að segja að þessi vakning hafi verið lyginni líkust enda hafa u.þ.b. 20 þúsund einstaklingar sótt sér meðferð á þeim tíma sem SÁÁ hafa starfað.
Um 5.770 innlagnir ár hvert
Á markaðnum í dag eru fimm stofnanir og samtök sem sinna meðferð og/eða afeitrun vímuefnasjúklinga á Íslandi. Auk þeirra sem hér eru taldar upp eru heimili barnaverndarstofu en eitt þeirra, Árvellir, hefur boðið upp á meðferð fyrir eldri en 18 ára en ekki er ljóst hversu mörg pláss að jafnaði eru í boði.
Það skal tekið fram að gert er ráð fyrir að meðaltals afeitrun sé um 10 daga á hvern einstakling. Meðal dvalartími í framhaldsmeðferð eftir afeitrun er 28 dagar - í reynd er tíminn oft lengri eða skemmri en gengið er útfrá meðaltalstölum hér. Í Krýsuvík og í Byrginu dvelur fólk jafnan lengur en mánuð í senn. Úrræði Landspítalans í Arnarholti rúmar 10 fyrrverandi vistmenn úr Gunnarsholti. Á þessari stundu eru örlög Arnarholts ekki ráðin en uppi eru hugmyndir um að loka þessu úrræði.

Lítið eða ekkert eftirlit
Aðgangur að vímuefnameðferð á Íslandi verður að teljast mjög góður, hvort sem tekið er mið af samanburðarlöndum eða biðlistum í heilbrigðiskerfinu almennt. Lítið eða ekkert eftirlit er með því hvert einstaklingar fara í meðferð, hversu oft þeir fara og hversu stutt líður á milli meðferða. Þannig getur einstaklingur farið á Vog í meðferð á morgun, dvalið þar í 10 daga og lokið 28 daga meðferð á Staðarfelli í framhaldi af því. Viku eftir þá meðferð getur sami einstaklingur leitað sér meðferðar í Byrginu, Krýsuvík eða Hlaðgerðarkot. Það er ekki óalgengt að hitta fyrir einstaklinga í meðferðarkerfinu sem eiga yfir 10 innlagnir að baki.

Hörð samkeppni, óvægin gagnrýni
Vandi vímuefnameðferðar á Íslandi felst fyrst og fremst í því að margir ólíkir aðilar - sjálfseignastofnanir, einkahlutafélög og opinberar stofnanir - bjóða upp á meðferð. Vegna þessa fara tvö ráðuneyti með málefni vímuefnameðferðar á Íslandi og jafnvel þrjú eins og kom í ljós þegar utanríkisráðuneytið kom að málefnum Byrgisins. Dómsmálaráðuneytið kemur einnig við sögu í málefnum fanga og menntamálaráðuneytið í málefnum barna á skólaskyldualdri. Rekstrarlegar forsendur byggjast jafnt á frjálsum framlögnum, kostnaðarþátttöku notenda meðferðar og beinum styrkjum frá ríki og sveitarfélögum. Samkeppnin er því oft hörð og gagnrýnin óvægin á milli mismunandi sjónarmiða. Oftar en ekki eru birtar fréttatilkynningar frá þessum aðilum þar sem ástandinu er lýst og er það yfirleitt slæmt og biðlistar langir. Í skýrslu sem unnin var fyrir Heilbrigðisráðuneytið árið 1997 er þessi þáttur nefndur. Þar kemur m.a. fram að SÁÁ stundi fremur markaðsrannsóknir en vísindalegar rannsóknir enda byggir afkoma þeirra á að hvert pláss sé skipað. (Shaffer, J. Howard. Mat á áfengis- og vímuefnameðferð)

Stjórnlaust aðgengi án yfirsýnar
Leiðirnar eru margar og mismunandi. Trúfélög bjóða meðferð sem byggð eru á trúarbrögðum; aðrir bjóða upp á hugræna atferlismeðferð, aðrir á Minnesotameðferð og enn aðrir blöndu af þessu öllu. Inn í þetta fléttast síðan aðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga og ýmis áfangaheimili líknarfélaga. Eins og meðfylgjandi teikning gefur til kynna að þá eru hindranir í kerfinu raunverulegar. Aðilar tala ekki saman og samstarf t.d. félagsþjónustu sveitarfélaga og meðferðaraðila er takmarkað. Yfirsýn skortir tilfinnanlega og aðgengi að meðferðarúrræðum er nær stjórnlaust. Afleiðingar þessa eru verri meðferð, verri árangur og sóun fjármuna.
Forgangsröðunin er nokkuð brengluð ef litið er á þann fjölda sem leggst í meðferð á ári hverju. Þegar skorið er niður í meðferðarkerfinu virðist vera byrjað á öfugum enda. Á Vogi, sem er líklega besta afeitrunarúrræðið á Norðurlöndum, liggja oftar en ekki einstaklingar sem undirritaður fullyrðir að ekki þurfi allir á afeitrun að halda. Þar starfa læknar, hjúkrunarfólk, meðferðarfulltrúar og annað starfsfólk og kostar sólarhringurinn talsvert. Hinir sem veikari eru fá afeitrun í Byrginu, á Hlaðgerðarkoti eða á deild 33-A. Á þeim stöðum eru faglegar kröfur og aðbúnaður allt annar og verri en það sem þekkist á Vogi. Hér ber að árétta að í huga undirritaðs er ekkert samasemmerki á milli Vogs og betri árangurs - samanborið við aðra aðila. Hins vegar er óumdeilanlegt að Vogur er besta sjúkrahúsið fyrir vímuefnasjúklinga sem þurfa á afeitrun að halda.

Hvað er til ráða?
Erfitt er að gera sér grein fyrir árangri af vímuefnameðferð á Íslandi. Árangurstölur koma jafnan frá meðferðaraðilunum sjálfum. Þær fáu rannsóknir sem óháðir aðilar hafa gert gefa tilefni til að ætla að árangur sé í kringum 10% - 15% (t.d. rannsókn Kristins Tómassonar árið 1995 og 1996). Göngudeildarmeðferð er tiltölulega lítið notuð hér á landi þó að vissulega hafi úrræðum eitthvað fjölgað á sl. árum en samkvæmt rannsókn Kristins er árangurinn ekkert lakari af slíkri meðferð en að þegar um innlögn er að ræða. Undirritaður telur að í stað þess að reka þrjár til fjórar afeitrunarstöðvar í landinu væri nægjanlegt að reka eina. Þangað myndu þeir sjúklingar sem væru hvað veikastir leita eftir afeitrun. Aðrir gætu fengið aðstoð á göngudeildum. Meðfylgjandi teikning gefur hugmynd hvað hægt væri að gera. Hér er ekki tekin afstaða til þess hvaða stofnunum eða samtökum er ofaukið en undirritaður dregur stórlega í efa að 5500 innlagnir ár hvert sé í samræmi við þörfina.

Markvissara skipulag og virkara eftirlit
Í tillögu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem liggur fyrir alþingi, og er í samhljómi við tillögur Samfylkingar og Framsóknarflokks eru eftirfarandi atriði reifuð: "Atriði sem eðlilegt væri að tekin yrðu til gagngerrar skoðunar væru eftirfarandi:
a. Er hægt að koma á markvissara eftirliti með meðferðarúrræðum vímuefnaneytenda á Íslandi?

b. Væri til bóta að gera kröfu um árangurstölur frá þeim aðilum sem sinna meðferð vímu efnaneytenda á Íslandi og þær þá teknar saman af hlutlausum aðilum, sbr. rannsóknir Kristins Tómassonar árið 1995 og 1996?

c. Kemur til greina að setja á laggirnar greiningar- og ráðgjafarstöð/móttökustöð sem sinnti móttöku og greiningu allra þeirra sem leituðu sér aðstoðar vegna vímuefnavanda á Íslandi?

Mikið starf hefur verið unnið á þessu sviði heilbrigðisþjónustu síðustu áratugina og margt gott af því leitt. Á því er ekki nokkur vafi. Margt bendir þó til að hægt væri að ná enn betri árangri með markvissara skipulagi og virkara eftirliti. Undirritaður tekur heilshugar undir það og vonar að sverðin verði slíðruð og málefnaleg og efnisleg umræða taki yfir á kostnað tilfinningaraka og sleggjudóma.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Hagvöxtur


Hagvöxtur á Vestfjörðum var neikvæður um 6% þegar tekin eru saman árin 1998 til 2004. BB spurði mig út í þetta og ég svaraði:

Þetta kemur mér ekki á óvart. Vestfirðir hafa um langt árabil verið í svelti þegar kemur að opinberum framkvæmdum. Ríkið hefur ítrekað haldið að sér höndum. Þetta sést m.a. þegar horft er til samgöngumála. Við búum enn við það ástand að þjóðvegurinn til Reykjavíkur er á kafla einbreiður malarvegur. Við búum einnig við lakari þjónustu þegar kemur að fjarskiptum og rafmagni. Stjórnvöld og sveitarstjórnir ganga ekki í takt. Sveitarfélögin hér á svæðinu gera sér flest grein fyrir því lykillögmáli í hagfræðinni að á samdráttartímum þurfi opinberir aðilar að draga vagninn og framkvæma. Þetta hafa sveitarfélögin reynt að gera en það dugar ekki til á meðan ríkisvaldið heldur að sér höndum. Það er sorglegt þegar dregið er úr framkvæmdum hins opinbera á Vestfjörðum til þess að slá á þenslu á öðrum svæðum.

Krafturinn í fólkinu sem býr á svæðinu er mikill og það er beinlínis ósanngjarnt hvernig stjórnvöld hafa komið fram við þetta fólk. Jarðvegurinn er mjög góður hér fyrir vestan en til þess að grasið taki að spretta þarf áburð og þetta verða stjórnvöld að viðurkenna og axla sína ábyrgð. Á kosningavetri er vert að spyrja alla frambjóðendur kjördæmisins og reyndar landsins alls: Ertu til í að ganga í takt með okkur? Við eigum að krefjast þess að menn geri grein fyrir hugmyndum sínum um svæðið. Ef menn axla þessa ábyrgð og sýna lit – er ég fullviss að hagvöxtur á svæðinu verði nær 2 stafa tölu áður en langt um líður.

mánudagur, janúar 15, 2007

Greiningarstöð


Samhjálp er gott líknarfélag. Þar er unnið ágætt starf sem viðurkennt hefur verið undanfarin ár. Ég geri hins vegar athugasemd við það að obbi þess starfs sem snýr að langt leiddum alkóhólistum á Íslandi skuli vera á höndum Samhjálpar. Reykjavíkurborg hefur falið Samhjálp að sinna Gistiskýlinu, sambýlum á Miklubraut og súpueldhúsi. Auk þess rekur Samhjálp Hlaðgerðarkot og Stoðbýli við Hverfisgötu. Núna hefur Félagsmálaráðuneytið falið Samhjálp að reka Byrgið að Efri Brú. Það má því segja að ef þú ert staddur á götunni og ert fárveikur alkóhólisti er nær eingöngu um Samhjálp að ræða þurfir þú aðstoð.

Hvers vegna dregur úr fagmennsku þegar veikari einstaklingar eiga í hlut? Myndum við sætta okkur við að leita lækninga hjá líknarfélagi þar sem leikmenn bæru hitann og þungann af rekstrinum? Ég ítreka að hjá Samhjálp er margt frábærlega hæft fólk við störf. Kannski mætti leysa þetta með því að ráða fleiri lækna, félagsráðgjafa, sálfræðinga sem myndu styrkja starfið hjá Samhjálp þar sem fyrir eru margir vímuefnaráðgjafar. Tengingin á milli trúarinnar og meðferðarstarfsins getur einnig verið þröskuldur ef aðeins er um einn valkost að ræða.

Ég velti því fyrir mér hvort hugmyndin um greiningar- og ráðgjafarstöð sé svona afleit - þegar staða mála er skoðuð í dag.......

laugardagur, janúar 13, 2007

Pétur og Reykjavík!


Margt var skoðað í kvöld. Bönd sem fólk stóð í röðum til að sjá og heyra í. Flest voru hvorki fugl né fiskur - þó var ein og ein perla. Pétur Ben fór á svið kl. 20 í kvöld og var algjörlega frábær. Ég hef aldrei séð Pétur spila áður nema sem undirleikari Mugison. Hann átti salinn frá fyrstu mínútu og gæðalega var hann nokkrum mílum frá því sem boðið var upp á víðsvegar um Groningen í kvöld. Pétur Ben er góður tónlistarmaður með sérstöðu - það er ansi gott nesti.


Reykjavík! stigu á stokk kl. 24.15 og vá! Gummi og Kristján eru auðvitað bara þarna á meðan aðalbandið Dr. Gunni er í pásu..En drengirnir fóru á kostum. Þeirra langbesta gigg - mikill sviti og hiti og rokk. Fóru hamförum og höfðu eins og Pétur Ben alla á sínu bandi - og það er ekki létt í borg þar sem 180 tónleikar eru haldnir á 3 dögum og þar að auki er Reykjavík! hljómsveit sem enginn hefur heyrt í áður. Þetta var og er til fyrirmyndar.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Peter, Björn og Mary - ég meina John


Merkilegt. Sit hér á hóteli í Zuidlaren í Hollandi eftir ágætt kvöld í Groningen og bloggerinn er á þýsku. Þessar IP-tölur eru greinilega að gera það gott.


Hitti marga ágæta menn í kvöld og sá aðeins af böndum. Ævintýraleg innkoma okkar á tónleika Peter, Björn og John stendur upp úr. Það var troðið á staðnum þegar við mættum á þá ágætu tónleika og 300 manns í röð fyrir utan. Ónefndur meistari úr Hlíðunum fór með okkur hringinn í kringum húsið og barði upp á að aftan. Þar beitti hann miklum persónutöfrum og talaði 5 manns inn. Þess ber að geta að hann hefur aldrei komið til Groningen áður. Bandið var ágætt og mæli ég eindregið með því. Þið sem ekki eruð búin að tryggja ykkur miða á Nasa ættuð að gera það hið fyrsta.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Og aftur Lisa

Þetta þykir mér besta áfram stelpur lag allra tíma:

Hon förtjänar hela himlen

Hon är inte nåt man får,
hon är nån man ska förtjäna
Du höll henne aldrig högt,
du låg aldrig nere på knäna
Hon är inte nåt man har,
inget att förfoga över
Du sa att hon var så svår,
men klagar för att det är över

Löftet hon gav var aldrig att vara i ditt våld, att stå
under din kontroll
Löftet hon gav rörde något annat,
men jag antar att det inte längrespelar någon roll
För hon kommer aldrig mera hit
Jag ska försvara henne om jag kan
För hon förtjänar hela himmelen
Och en mycket bättre man

Du sa att du är beredd,att va storsint, att förlåta
Vad svarar man på sånt,
ska man skratta, ska man gråta
Du som gjort henne så illa,
ska du kalla henne brottslig nu?
Om hon någonsin ska förlåta,
är det hon, inte du

Löftet hon gav, var aldrig att följa dina nycker
Att ingå i ditt spel
Löftet hon gav rörde något annat,
så nu kan hon inte klandrasså nu kan hon inte klandras
Hon gör inte något fel
För hon kommer aldrig mera hit
Jag ska försvara henne om jag kan
För hon förtjänar hela himmelenOch en mycket bättre man

Du sa att hon var så svår,rent omöjlig att förstå
Det kan nog tänkas du har rätt,
mellan er två var det så
Men nu vill du åberopa brott
Och nu säjer du i raseri,att den förräderskan har gått
Jag säjer hon har gjort sig fri
Hon har gjort sig fri

mánudagur, janúar 08, 2007

Firringin

John Cleese er fyndinn í Kaupþingsauglýsingunni - það verður ekki af honum tekið. Las síðan á einhverri bloggsíðunni að þeir hefðu haldið árlegt áramótapartý sitt í London um helgina. Duran Duran mættu og tóku lagið. Í Rússlandi héldu olíubarónar sitt partý og fengu George Michael til að taka nokkur lög fyrir rúmar 200 milljónir kr. Ekki veit ég hvað Duran Duran kostaði fyrir þessa velvöldu vini Kaupþings en þetta er eitthvað svona pínulítið firrt verð ég að segja.

föstudagur, janúar 05, 2007

Lisa


Ég verð auðvitað að auglýsa Lisu Ekdahl - annað væri firra. Ég hugsa að þetta verði gott geim. Kæmi mér ekki á óvart ef Bolungarvík verður eftirminnileg.

Lisa Ekdahl á ferð um landið
Lisa Ekdahl heldur tónleika á Nasa fimmtudaginn 1. mars, föstudaginn 2. mars á Græna Hattinum Akureyri og laugardaginn 3. mars í Víkurbæ í Bolungarvík. Miðasala hefst þriðjudaginn 9. janúar kl. 10 á midi.is og í verslunum Skífunnar og velvöldum BT verslunum. Miðaverð aðeins 2900 kr.

Lisa Ekdahl er mörgum kunn á Íslandi enda er hún sannkallaður Íslandsvinur. Hefur spilað ásamt hljómsveit í Austurbæjarbíói og Háksólabíói fyrir troðfullu húsi. Að þessu sinni er Lisa á ferð með kassagítar og undirleikaranum Mattias Blomdahl sem spilar á gítar, hljómborð og önnur hljóðfæri. Draumur hennar var að spila úti á landi á Íslandi og þann draum lætur hún rætast nú. Lisa Ekdahl á tryggan hóp aðdáenda hér á landi og má með sanni segja að sú aðdáun sé gagnkvæm þegar kemur að landi og þjóð.

Lisa Ekdahl sló í gegn með hljómplötunni Vem vet árið 1994 en það var hennar fyrsta plata. Sú plata er ein sú söluhæsta á Norðurlöndunum til þessa dags. Lisa Ekdhal hefur síðan farið ýmsar leiðir í tónlistarsköpun sinni – allt frá djassi og bossanova yfir í popp. Hún á miklum vinsældum að fagna í Danmörku sem er óvenjulegt þar sem sænskir tónlistarmenn hafa átt á brattan að sækja í Danaveldi. Hún er þekkt út um alla Evrópu og hafa plötur hennar selst gríðarlega vel í Frakklandi.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Breyskur maður


Ég er breyskur. Það verð ég víst að viðurkenna. Fór í fótbolta inn á Ísafjörð eins og svo oft áður á miðvikudögum. Eftir 47 mínútna leik gekk minn maður af velli hundfúll og leiðinlegur. Uss, Grímur með gleraugun og gráa hárið lét fótboltaleikinn fara svo í taugarnar á sér að hann náði ekki að klára tímann. Hneisa og ég skulda strákunum í það minnsta 50 armbeygjur með einari til að sýna fram á sanna iðrun. Helvítið hann Lýður mun nudda mér upp úr þessu fram að næstu jólum – ef hann þá nokkurn tímann hættir að minnast á þetta.

Ég baðst þó afsökunar í sturtuklefanum – en það er ágætt á gamlan hund að fá á baukinn.....

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Skulda milljón í banka og ég bý inn í Vogum...


...Með barþjóni að færir mér súrmeti í trogum.


Það 2. janúar og meistari Einar Jónsson á afmæli í dag. Hann lengi lifi og vonandi kemur hann einhvern tímann aftur heim frá Noregi. Áramótin í Víkinni róleg en notaleg. Brenna og flugeldar og óteljandi konfektmolar og lambakjöt. Nýtt líf númer 107 byrjaði síðan í dag – eins og lög gera ráð fyrir. Ég ætla að hætta að fitna á morgun.....

Áramótaskaupið var frábært. Loksins endurnýjun og frumleiki. Ég og Helga Vala hlógum eins og vitlaus værum – þá hlýtur þetta hafa verið gott. En eins og alltaf eru 300.000 skoðanir á húmornum, þannig á það líka að vera.

Get ekki betur séð en helsta áhugamál Helgu Völu í pólitíkinni sé á dagskránni núna um áramótin. Vinnutími Íslendinga og samvera með fjölskyldunni. Kemst iðulega á dagskrá í kringum ræðu biskupsins og forsetans. Forsætisráðherrar tala yfirleitt ekki um þetta mál – þeir einbeita sér frekar að stuðinu í kringum bankana og verðbréfasirkusinn. Þetta er auðvitað út í hött. Hvað skiptir máli þegar á hólminn er komið? 1 milljarður á bankabókinni eða heilsteyptur einstaklingur sem maður tók þátt í að móta með því að vera til staðar? Við þurfum að skipta um gír og snúa við blaðinu. Vonandi verður næsta áramótaræða forsætisráðherra meira tengd þessum gildum.

Kosningamál í vor...ætli það.....