fimmtudagur, maí 31, 2007

Gemsar

Merkilegar eldhúsdagsumræður. Gríðarlegt ráp og óþol í þingmönnum og ráðherrum þann stutta tíma sem þessar umræður fóru fram. Gemsar, pukur og fliss. Er ekki hægt að banna síma í þingsal? Er ekki eðlilegt að fólk sitji í sætum sínum þessa stuttu þingfundi sem kallast eldhúsdagsumræður?

fimmtudagur, maí 24, 2007

Reykingabann

Mikið var ég hamingjusamur þegar ég fékk sendingu í dag sem minnti mig á að veitinga- og skemmtistaðir verða reyklausir frá og með 1. júní 2007. Það eru talsverðar líkur á því að ég gerist þaulsetnari á kaffihúsum og veitingahúsum Íslands eftir 1. júní nk. heldur en ég nú er.

miðvikudagur, maí 23, 2007

Fiskveiðistjórnunarkerfi og grunnþjónusta

Fiskveiðastjórnunarkerfið, sem komið var á fyrir rúmum 20 árum, átti að styrkja byggðirnar og vernda fiskinn. Við lögleiðingu þessa kerfis má segja að nútímavæðing sjávarútvegsins hafi hafist og bein afskipti ríkisins fóru minnkandi með hverju árinu sem leið. Í dag er það lögmál frelsisins sem ræður ríkjum með öllum þeim kostum og göllum sem slíku fylgir. Veruleg hagræðing hefur átt sér stað í sjávarútveginum og hefur það leitt af sér meiri verðmætasköpun og meiri hagnað fyrirtækjanna.

Gallar kerfisins eru hins vegar stórkostlegir. Samþjöppunin og hagræðingin hefur komið af stað vítahring þegar kemur að verðlagningu kvóta – og gildir það jafnt um kaup og leigu. Það er hagur kvótaeigandans að hlutabréf hans, sem í þessu tilfelli eru óveiddir fiskar, hækki jafnt og þétt. Þetta hvetur til brasks því enginn ætlar sér að missa af lestinni né detta af baki ef verðin skyldu lækka. Þegar slíkt umhverfi blandast saman við óstöðugleika í efnahagslífinu eins og við höfum gengið í gengum undanfarin ár er voðinn vís.

Í dag má segja að útgerðin sé á öldutoppi. Afurðaverð er gott og kvótaverð aldrei hærra. Það eru hins vegar blikur á lofti. Hugsanlegt þykir að Hafró skeri niður hámarksafla næsta ár og krónan fer hækkandi. Það er óheilbrigt að við slíkar aðstæður sitji eitt fyrirtæki í hverju þorpi með allt atvinnulífið á staðnum í höndunum.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins þann 20. maí sl. ber stöðuna á Flateyri í dag saman við stöðuna í Bolungarvík árið 1993 þegar stórveldi EG sigldi í þrot. Vissulega er staðan sambærileg að því leyti að stór hluti bæjarbúa starfaði þá hjá EG líkt og hjá Kambi á Flateyri. Munurinn liggur hins vegar í þeim verðmætum sem liggja í kvótaeigninni og þeirri breytingu sem orðið hefur á veðsetningu og viðskiptum með aflaheimildir. Þeir sem stóðu að EG höfðu ekki í hyggju að leggja upp laupana en neyddust til þess, þeir áttu ekki þá útgönguleið sem blasir við eigendum Kambs. Þeir aðilar eru reyndar enn að starfa við sjávarútveg í Bolungarvík. Málin eru því í raun gjörólík. Annað fyrirtækið varð gjaldþrota á meðan hitt leggur upp laupana og fer út úr greininni með gríðarlega fjármuni vegna sölu aflaheimilda.

Það er rétt athugað hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins þegar hann bendir á þá staðreynd að eins sé farið víða um land. Með óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi má búast við því að sagan frá Flateyri endurtaki sig. Kerfið býður upp á þessa útgönguleið sem þýðir að menn geta gengið út með milljarða úr greininni og eftir situr heilt byggðarlag með sárt ennið. Út um allt land eru strangheiðarlegir útgerðarmenn sem ætla sér fyrst og fremst að gera það sem þeir gera best: að gera út. Þeir nýta aflaheimildir sínar til fulls og eru ábyrgir atvinnurekendur. En það er því miður ekki nóg. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur ekki styrkt byggðirnar heldur hefur algjörlega snúist upp í andhverfu sína. Við því verður að bregðast. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að hér sé um eitt brýnasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar að ræða. Það þarf að endurvekja þá byggðahugsun sem var hluti af fiskveiðistjórnarkerfinu í upphafi og styrkja forgang fólksins í sjávarbyggðunum til þess að nýta auðlindina sem er hér rétt við bæjardyrnar.

Önnur verkefni nýrrar ríkisstjórnar, vegna stöðu Vestfjarða og annarra byggða landsins, snúast um grunnþjónustu. Uppbygging grunnþjónustunnar hefur gengið það hægt á Vestfjörðum að fábreytni í atvinnulífi er staðreynd og ný fyrirtæki þurfa að stíga yfir hærri þröskulda en í öðrum landshlutum vegna ástands fjarskiptamála, lélegs vegakerfis og lélegs raforkukerfis. Þetta er hið raunverulega ástand og það þýðir ekkert að malda í móinn með það – fiskveiðistjórnunarkerfið og seinagangi við uppbyggingu á grunnþjónustunni eru helstu orsakir stöðunnar.

Í þeirri stöðu sem nú blasir við á Vestfjörðum þurfa stjórnvöld, auk þess að endurreisa byggðahugsun í fiskveiðistjórnuninni fyrst og fremst að endurskoða samgönguáætlun frá grunni og hraða þarf verkefnum eins og frekast er unnt. Við jarðgangagerð þarf að hugsa til framtíðar ekki aðeins til dagsins í dag og því þarf að endurskoða framkvæmdir sem nú eru á teikniborðinu og taka djarfar ákvarðanir. Einnig þarf að huga strax að því að hringtengja rafmagn og setja línur í jörðu. Það er líka kominn tími til að standa við fyrirheit um að íbúar og atvinnulíf hér hafi sambærilegan aðgang að háhraðatengingum og öðrum Íslendingum þykir sjálfsagður. Þessi brýnu verkefni hafa beðið of lengi og ættu að vera efst á forgangslista nýrrar ríkisstjórnar.

fimmtudagur, maí 17, 2007

The Who

Var að hlusta á The Who þátt Óla Palla á Rúv áðan – milli þess sem ég sneyddi hjá steinum og holum á Hrafnseyrarheiði. Ég verð að játa að mér þótti aldrei mikið til koma Who og hreytti stundum ónotum í doktorinn þegar hann lofsöng Tommy og aðrar dyggðir The Who. Ég verð að játa að eftir að hafa rifjað upp með Óla Palla í eyrunum öll meistaraverk The Who tók ég ákvörðun að gefa þeim séns. Þetta er margt svo skrambi gott.

Spennandi tímar í landstjórnarmálum og blikur á lofti á Flateyri héldu mér þó við efnið og daginn í dag. Þetta er ansi brothætt kerfi sem við búum við þegar kemur að atvinnuöryggi sjómanna og fiskverkafólks. Vestfirðingar hafa fengið að reyna það sl. vikur og auðvitað allan þann tíma sem aflaheimildir hafa gengið kaupum og sölum. Krossgöturnar eru staðreynd að það þarf ekki að vera slæmt – það þarf stundum krossgötur til þess að komast á gæfubrautina að nýju. Tækifærin eru svo sannarlega hér – það er bara að búa við byggðarvinsamlega landsstjórn og framsýna ráðamenn. Við slíkar aðstæður þrífast frumkvöðlar best og þeirra tími er núna – fyrir Vestan.

þriðjudagur, maí 15, 2007

Nýir vendir sópa best


Við förum ekki í ríkisstjórn ef niðurstöður kosninganna vera í samræmi við skoðanakannanir. Það er lýðræðislegt að við drögum okkur í hlé. Þetta kepptust foringjarnir í Framsóknarflokknum við að segja alveg fram að kjördegi. 24 klst. síðar var allt breytt. Framsóknarflokkurinn skorast ekki undan ábyrgð....Í borgarstjórnarkosningunum fyrir tæpu ári síðan glumdu auglýsingarnar: Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem kemur í veg fyrir hreinan meirihluta Sjálfstæðisflokksins.

Er þetta ekki fullkomin lýsing á stjórnmálum á Íslandi? Hvar eru hetjurnar sem fórna sér þegar illa gengur? Mogens Lykketoft sem hélt sína bestu ræðu 30 mínútum eftir að ljóst var að honum hefði mistekist ætlunarverk sitt sem var að fella ríkisstjórn Venstre og Konsörvatívra. Hann sagði af sér enda bar hann pólitíska ábyrgð – flokkurinn galt afhroð. Á Íslandi er það nær undantekningalaust svo að menn hugsa fyrst og fremst um eigið skinn – ekki hagsmuni flokksins eða þjóðarinnar.

Það er alveg ljóst að landsmenn allir þurfa á nýrri ríkisstjórn að halda. Hún getur verið á marga vegu: Minnihlutastjórn D eða V og S. Meirihlutastjórn, D og S eða D og V nú eða V, S og B. Stjórnarseta B og D er orðin lúin og hún hefur um of bitnað á byggðum landsins. Vestfirðingar eiga þannig skilið eitthvað annað. Það er algjörlega á hreinu. Nýir vendir sópa best.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Ný skoðanakönnun!

Skoðanakannanir eru ágætar sem slíkar en mikið óskaplega má ofgera hlutum. Úrtök eru greinilega æði misjöfn og forsendur eru sjaldnast gefnar upp. Þetta er þreytandi og þegar Agnes Bragadóttir sá ágæti blaðamaður býsnast yfir leiðindum kosningabaráttunnar væri ekki úr vegi að benda henni á að blaðið hennar gegnir lykilhlutverki í því að draga allan kraft úr baráttunni. Þegar skoðanakannanir eru farnar að verða að helstu kosningamálum flokkanna er eitthvað mikið að. Fyrsta spurning blaða- og fréttamanna til stjórnmálamanna snýst æ meira um að fá viðbrögð við nýjustu skoðanakönnunum. Þvílík leiðindi. Til að toppa leiðindin birti ég hér hávísindalega könnun sem var gerð á ónefndum vinnustað á Íslandi í aðdraganda kosninganna – 100% svarhlutfall.

B 20%
D 40%
F 0,0%
I 0,0%
S 40%
V 0,0%

Eigum við ekki bara að bregðast við þessu með viðtölum og greiningu í öllum fjölmiðlum landsins?

þriðjudagur, maí 08, 2007

Leiðrétting

Doktor Lýður hefur gert snilldar auglýsingar fyrir Frjálslyndaflokkinn. Hann er listamaður í eðli sínu - menn hafa líkt honum við Björk nú eða kallað hann fjöllistamann. Eins og listamönnum sæmir þá er sköpunarverkið ekki alltaf byggt á staðreyndum. Frelsi listamannsins til túlkunar er jú heilagt. Ég verð því að játa að fullyrðing Dodda um bæjarstjórann í Bolungarvík er byggð á sandi og óskhyggju doktorsins. En auglýsingin er meistaraverk.

mánudagur, maí 07, 2007

Ramminn

Það kom fram í máli sjávarútvegsráðherra á fundi um atvinnumál að vandi atvinnulífs í Bolungarvík væri tímabundinn og stafaði af erfiðleikum í tengslum við rækjuvinnslu. Ég er sammála Einari Kristni hvað fyrra atriðið varðar - vandinn er tímabundinn. Ég er hins vegar ekki viss um að rækjuvinnsla sé það sem rétta muni kúrsinn til lengri tíma litið. Sjávarútveginn þarf vissulega að styrkja og bæta hér á svæðinu en það er ýmislegt annað sem þarf að huga að. Stjórnvöld á hverjum tíma þurfa að búa til ramma sem íbúar, fyrirtæki og opinberir aðilar spila innan. Hérna fyrir vestan þarf að endurhanna rammann. Hver er stefna stjórnvalda og stjórnarandstöðu þegar kemur að þessum ramma?

Vestfirðingar ættu að fá svör við eftirfarandi spurningum frá öllum stjórnmálaflokkum, sem bjóða fram til Alþingis, áður en þeir ganga í kjörklefann á laugardaginn:


1. Kemur flutningsjöfnun í formi strandsiglinga eða eftir öðrum leiðum til greina og þá með hvaða hætti?
2. Á að stofna Háskóla á Vestfjörðum - hvaða deild(ir) og hvenær?

3. Þarf að auka tekjustofna sveitarfélaga - hvaða og hvenær?
4. Kemur til greina að beita sértækum svæðabundnum aðgerðum í skattamálum?
5. Kemur til greina að beita sértækum svæðabundnum aðgerðum í samgöngumálum?

fimmtudagur, maí 03, 2007

Kató mælir enn með strandsiglingum

Málefni Vestjarða hafa verið á döfinni í aðdraganda kosninga. Vandi sveitarfélaga á svæðinu hefur verið tíundaður ásamt stöðu atvinnulífs. Sett var á laggirnar nefnd sem átti að greina vandann og koma fram með tillögur til úrbóta. Skipan nefndarinnar kom mörgum Vestfirðingum á óvart enda margar tillögur löngu framkomnar og þekktar. Tillögur nefndarinnar voru nokkuð rýrar en þó ber að fagna hugmyndum um flutning opinberra starfa til Vestfjarða. Það er hins vegar aðeins hluti vandans og lítið skref í átt til lausnar á þeim verkefnum sem brýnust eru. Hægt væri að halda langa tölu um tekjustofna og innistæður sveitarfélaganna hjá ríkinu en ég trúi því bábiljan um að ríkið eitt eigi að njóta t.d. fjármagnstekjuskattsins sé á miklu undanhaldi.

Nefndin fjallaði m.a. um flutningsjöfnun sem er ekki skrýtið. Flestir eru sammála um að hár flutningskostnaður sé afar aðkallandi mál fyrir Vestfirði. Segir m.a. í skýrslunni: Umræða um mögulegar leiðir til að lækka flutningskostnað fyrirtækja á landsbyggðinni hefur átt sér stað um nokkurt skeið. Ein þeirra leiða sem hafa komið til umræðu er endurgreiðsla hluta flutningskostnaðar með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni (bls. 19). Þetta er allt rétt en nefndin kýs að velja aðeins eina leið í þessu samhengi og minnist ekki á önnur atriði. Niðurstöðurnar vekja furðu:
Nefndin telur vandkvæði við endurgreiðslukerfi vegna flutningskostnaðar vera nokkur og ekki síst þau að kerfið kann að hafa önnur áhrif en að er stefnt....Með hliðsjón af þessu óöryggi með árangur af slíku kerfi er það álit nefndarinnar að þeim kostnaði, sem af þessu hlytist fyrir ríkissjóð, væru betur varið í að efla og hlúa að opinberri þjónustustarfsemi á Vestfjörðum (bls. 19-20).

Þetta stóra mál, flutningskostnaður á landsbyggðinni og ekki síst á Vestjörðum, afgreiðir nefnd sem á að skila raunhæfum tillögum með tæpri blaðsíðu þar sem best er talið að gera ekki neitt. Eftir sitjum við og spyrjum okkur hvað nefndin veit sem við ekki vitum? Hvaða önnur áhrif en að var stefnt kann þessi leið að hafa? Hvers vegna var skautað svona létt yfir þennan mikilvæga kafla? Af hverju voru strandsiglingar ekki teknar sem kostur? Hafði það ekkert að segja að allar sveitastjórnir á Vestfjörðum höfðu tekið undir með sjávarútvegsklasa svæðisins að niðurgreiðsla með útboði á strandsiglingum væri raunhæfasta leiðin?

Raunveruleikinn er sá að sjávarútvegsfyrirtæki hagræða og það má vel vera að sjávarútvegsráðherra hafi rétt fyrir sér þegar hann fagnar því að aldrei í sögunni hafi sjávarútvegsfyrirtæki skilað jafn miklum arði og einmitt nú. Skuggahliðin á þessu er sú að vegna þess hve uppbygging grunnþjónustu á Vestfjörðum hefur gengið hægt og verið sett aftarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar veikjast stoðir byggðarlaganna á svæðinu. Með ríkisafskiptum og niðurgreiðslum var því komið þannig fyrir að allur útflutningur fer í gegnum Sundahöfn eða Keflavíkurflugvöll. Strandsiglingar lögðust af og eftir sitjum við með þungaflutninga á þjóðvegum landsins sem í besta falli geta tekið við 5-10 tonna flutningabílum – en þurfa að bera tvöfalt til þrefalt meira. Sökum þessa fer fiskvinnsla hluta til fram á Suðvesturhorninu en fiskurinn er áfram veiddur fyrir Vestan.

Það er ástæða fyrir því að togararnir sigla með allan aflann suður í stað þess að landa honum á Vestfjörðum. Það er einnig augljós skýring á því hvers vegna aflinn sem landað er í höfnunum fyrir vestan fer beint á markað og þaðan í fiskiðjuverin þar syðra. Hér er lykilatriði málsins – flutningskostnaður er svo mikill að það er betra að fyrir togarana að sigla alla þessa leið eða keyra með hann óunninn. Hvernig stendur á því að nefnd um málefni Vestfjarða afgreiðir flutningsjöfnun með þeim hætti að hún sé eitthvað flókin og jafnvel verri en að gera ekki neitt? Það er óskiljanlegt og vekur upp margar spurningar. En það er ekki of seint að kasta aðgerðarleysinu fyrir borð og taka til við að framkvæma raunverulegar og raunhæfar úrbætur fyrir landið allt. Niðurgreiðsla strandsiglinga gagnast öllu landinu og sérstaklega sjávarplássum sem nú svíða vegna hliðarverkana fiskveiðistjórnarkerfisins og miðstýrðra byggðaaðgerða fyrir Reykjavík.

Flutningskostnaður bitnar auðvitað á öðrum fyrirtækjum sem eru að reyna að standa í atvinnurekstri á svæðinu. Þau hafa svo árum skiptir bent á þetta óréttlæti og þrátt fyrir bættar samgöngur sl. ár er enn langt í land. Fyrirtæki sem gætu hugsað sér að flytja starfsemi sína á svæðið hætta flest við þegar dæmið er skoðað ofan í kjölinn. Fyrirtækin sem fyrir eru hafa bent á þessa staðreynd svo árum skiptir en svo virðist sem rödd þeirra nái alls ekki eyrum stjórnvalda.

Boltinn er hjá stjórnvöldum – ég treysti því að forsætisráðherra spyrji sjálfan sig hvað hafi breyst frá því að fulltrúar allra sveitarstjórna Vestfjarða mættu á fund í byrjun febrúar. Þar voru strandsiglingar/flutningsjöfnun efst á forgangslistanum. Framkvæmi hann tillögur frá sveitarfélögunum auk þess að flytja þau opinberu störf sem nefndin lagði til eru bjartir tímar framundan fyrir Vestan.