miðvikudagur, apríl 25, 2007

Sakleysið

Mikið var gaman í gær á tónleikum í Bolungarvík. Ólöf Arnalds, Lay Low og Pétur Pen allt magnaðir listamenn og gáfu okkur frábæra tónleika. Ólöf er samt í algjöru uppáhaldi hjá mér og það kæmi mér ekki á óvart að hún myndi ná verulegum hæðum í framtíðinni. Reyndar hugsaði ég talsvert um viðskipti og tónlist í gær. Nú hafa fjárfestar lagt talsverða peninga í Nylon, Garðar Thor og Silvíu með von um vinsældir og gróða. Þau þrjú sem komu fram í gær eiga hins vegar að mínu mati mun meiri séns á alþjóðahylli en Nylon og Silvía. Silvia og Nylon eru alls ekki léleg atriði en markaðurinn er svo mettaður og lítið pláss fyrir meira af því sama. Það má vel vera að Garðari takist vel upp – ég þekki þann markað ekki nógu vel. Þau þrjú sem komu fram í gær hafa öll talsvert nýtt fram að færa og séu landvinningar okkar Íslendinga á listasviðinu skoðaðir kemur í ljós að listamenn með sérkenni eru þeir sem hafa komist á kortið.

Skriðurnar komu einnig fram í gær og voru frábærar – fyrir utan fremur ljóta konu með skegg sem spilaði á bassa með þeim í gær. Hún var greinilega illa æfð og stóð fyrirmyndinni langt að baki. Skriðurnar söknuðu því sárlega klettsins með gígjuna.

Að lokum. Sá þetta komment á einni bloggsíðunni um minn ágæta vin Dr. Lýð Árnason: Mér virðist Lýður vera einlægur og góð manneskja. En hann kann líka að láta það frá sér. Afslappaður og rólegur. Minnir mig á Björk, sem manneskja meina ég, þetta barnslega sakleysi sem manneskjur bera með sér alla ævina. Ótrúlega flott og einhvernveginn þau eru bara svona af náð og miskunn almættisins.

Jú, er það ekki bara - Lýður og Björk eru alveg eins.....

föstudagur, apríl 20, 2007

Meint U-beygja

Komst aftur í Staksteina í Morgunblaðinu eftir nokkuð hlé. Þeir hafa greinilega legið yfir skrifum mínum síðustu árin og geymt þau til betri tíma sem er hið besta mál. Meiningin með Staksteinum gærdagsins var greinilega að halda því til haga að ég sé ekki lengur náttúruverndarsinni og eru ummæli mín um olíuhreinsunarstöð notuð því til sönnunar. Sá einhverja einhverja spekúlanta aðra túlka þetta á sama hátt. En hvað sagði ég sem þýðir að ég hafi tekið þessa meintu U-beygju?

Í skýrslunni margfrægu sem kom frá Vestfjarðarnefndinni er djarfasta hugmyndin að setja olíuhreinsunarstöð í Arnarfjörð eða Dýrafjörð. Afar langsótt hugmynd – en verulega djörf. Heft eru við þessa stöð 500 störf – það er ekki vont fyrir fjórðunginn þegar tekin er mið af stöðunni. Hugmyndin er að öðru leyti algjörlega óljós og fullyrðingar um litla mengun og ekki stóriðju hreint ekki á hreinu. Í því ljósi sagði ég eitthvað á þessa leið:

Þegar okkur er boðið eitthvað sem þýðir 500 störf er eðlilegt að skoða kostinn – ekki segja nei án þess að kanna málið. Það er hins vegar hætt við því að fólk fái glýju í augun og vonin um 500 störf geti blindað. Hins vegar er erfitt að sjá slíkt ferlíki fyrir sér (120 hektara) í þröngum fjörðum Vestfjarða.

Þetta er U-beygjan mín í náttúruverndarmálum og túlki þeir sem túlka vilja.....

mánudagur, apríl 16, 2007

Lokuð landamæri

Merkilegar eru niðurstöður könnunar um málefni innflytjenda sem birtar voru í gær. Þar kemur fram að meirihluti þjóðarinnar og þá sérstaklega hér á NV-svæðinu vill hertar reglur er varðar heimildir útlendinga til að setjast að á Íslandi. Þetta kemur mér ekki á óvart í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu. Það sem kemur þó á óvart er að 60% þeirra sem styðja VG eru fylgjandi hertari reglum – það kemur mér spánskt fyrir sjónir.

Ég held hins vegar að fæstir geri sér grein fyrir hvað það er í raun erfitt að fá dvalarleyfi á hér á landi. Löggjöfin hér er með þeim strangari sem finnast. Fólk utan evrópska efnahagssvæðisins getur gleymt því að reyna við landamæri Íslands. Flóttafólk sem sækist eftir því að koma til Íslands af mannúðarástæðum hefur aðeins í tilfelli Bobby Fischers fengið landvistarleyfi. Þú verður að vera orðinn 24 ára til þess mega búa á Íslandi með maka þínum – sértu útlendingur en maki þinn íslenskur. Er þetta lin löggjöf?

Þegar stöðunni á Norðurlöndum er blandað saman við stöðuna hér – er ekki farið rétt með staðreyndir. Á Norðurlöndum hefur straumurinn sl. ár aðallega verið flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum og ekki í stakk búið að komast endilega strax á vinnumarkaðinn. Hér á landi snýst dæmið nær eingöngu um farandverkafólk sem kemst strax í vinnu. Að bera vanda Norðurlandanna saman við stöðuna hér er auðvitað ekkert annað en rakalaus þvættingur. Það er erfitt að sjá hvernig við ættum að loka landinu frekar fyrir útlendingum en nú er gert – nema við kjósum að segja upp samningnum um evrópska efnahagssvæðið.

Það þarf svo sannarlega að bæta margt í málefnum útlendinga á Íslandi - hvernig tekið er á móti fólki, hvernig tungumálakennslu er hátta, hvernig kjaramálum er háttað o.s.frv. Það hins vegar hefur ekkert að gera með herta löggjöf.

föstudagur, apríl 13, 2007

Mannanafnanefnd

Mér fannst skemmtilegt að lesa athugasemd við leiðara ritstjóra Blaðsins frá 11. apríl sl. en hún birtist í Blaðinu í dag. Þar kemur fram á ritvöllinn vörpulegur penni sem heitir því stutta en laggóða nafni Sjálfstæðisflokkurinn. Ekki Andri, Kjartan eða Hanna Birna heldur bara Sjálfstæðisflokkurinn. Ég sem hélt að mannanafnanefnd hafi alla tíð verið nokkuð treg þegar kemur að framúrstefnulegum nöfnum. En það er greinilegt að hér hefur orðið breyting á.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

Bassaleikur

Ég er miður mín. Fyrir 3 mánuðum sýndi ég Helgu Völu hvernig ætti að snúa bassagítar. Hún náði tón úr honum 3 dögum síðar. Á laugardaginn var kom hún fram með Skriðunum og spilaði flottar línur í góðu grúvi. Ég byrjaði á bassanum fyrir 23 árum - Helga Vala mætti á svæðið og rúllaði mér upp!

Er kannski ekki meira í rusli en svo að ég er ansi ánægður með hana....

Gæti Spandau komið vestur?

Hitti mann frá Danmörku um helgina. Kunningja frá mínu fyrra lífi innan tónlistarbransans. Hann sagði mér frá því hvað sonur hans var að bardúsa við þessa dagana. Hann er að leggja lokahönd á verkefni við Kaupmannahafnarháskóla í arkitektúr og er viðfangsefnið fangelsi fyrir stríðsglæpamenn. Þetta var athyglisverð umræða – því það er ekki til neitt sérstakt fangelsi fyrir stríðsglæpamenn sem dæmdir hafa verið til langrar fangelsisvistar. Maður man auðvitað eftir hinu alræmda Spandau fangelsi þar sem Hess sat einn fanga um árabil. Tímarnir hafa breyst og þarfirnar líka. Þeir sem dæmdir eru fyrir stríðsglæpi eru margir hverjir sannfærðir um að þeir hafi verið að gera rétt og þjóna landi sínu. Okkur býður kannski við gjörðum þeirra en hér er ekki um venjulega glæpamenn að ræða.

Ég fór strax að hugsa hvers vegna hið einangraða Ísland tæki ekki boltann og byggði upp fangelsi sem sinna ætti þessum föngum – er það nokkuð vitlausara en hvað annað? Mönnum hefur dottið ýmislegt í hug upp á síðkastið – eins og að setja á laggirnar varalið lögreglu og heimavarnarlið. Væri það ekki ráð að taka slíkt fangelsi í notkun? Mörgum dettur efalaust í hug Miðnesheiðin þegar staðsetning slíks fangelsis er skoðuð en fyrir mér kemur aðeins einn staður til greina: Vestfirðir.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að unnið sé að því að útbúa Spandau fyrir vestan.