Sakleysið
Mikið var gaman í gær á tónleikum í Bolungarvík. Ólöf Arnalds, Lay Low og Pétur Pen allt magnaðir listamenn og gáfu okkur frábæra tónleika. Ólöf er samt í algjöru uppáhaldi hjá mér og það kæmi mér ekki á óvart að hún myndi ná verulegum hæðum í framtíðinni. Reyndar hugsaði ég talsvert um viðskipti og tónlist í gær. Nú hafa fjárfestar lagt talsverða peninga í Nylon, Garðar Thor og Silvíu með von um vinsældir og gróða. Þau þrjú sem komu fram í gær eiga hins vegar að mínu mati mun meiri séns á alþjóðahylli en Nylon og Silvía. Silvia og Nylon eru alls ekki léleg atriði en markaðurinn er svo mettaður og lítið pláss fyrir meira af því sama. Það má vel vera að Garðari takist vel upp – ég þekki þann markað ekki nógu vel. Þau þrjú sem komu fram í gær hafa öll talsvert nýtt fram að færa og séu landvinningar okkar Íslendinga á listasviðinu skoðaðir kemur í ljós að listamenn með sérkenni eru þeir sem hafa komist á kortið.Skriðurnar komu einnig fram í gær og voru frábærar – fyrir utan fremur ljóta konu með skegg sem spilaði á bassa með þeim í gær. Hún var greinilega illa æfð og stóð fyrirmyndinni langt að baki. Skriðurnar söknuðu því sárlega klettsins með gígjuna.
Að lokum. Sá þetta komment á einni bloggsíðunni um minn ágæta vin Dr. Lýð Árnason: Mér virðist Lýður vera einlægur og góð manneskja. En hann kann líka að láta það frá sér. Afslappaður og rólegur. Minnir mig á Björk, sem manneskja meina ég, þetta barnslega sakleysi sem manneskjur bera með sér alla ævina. Ótrúlega flott og einhvernveginn þau eru bara svona af náð og miskunn almættisins.
Jú, er það ekki bara - Lýður og Björk eru alveg eins.....


Ég er miður mín. Fyrir 3 mánuðum sýndi ég Helgu Völu hvernig ætti að snúa bassagítar. Hún náði tón úr honum 3 dögum síðar. Á laugardaginn var kom hún fram með Skriðunum og spilaði flottar línur í góðu grúvi. Ég byrjaði á bassanum fyrir 23 árum - Helga Vala mætti á svæðið og rúllaði mér upp!
Hitti mann frá Danmörku um helgina. Kunningja frá mínu fyrra lífi innan tónlistarbransans. Hann sagði mér frá því hvað sonur hans var að bardúsa við þessa dagana. Hann er að leggja lokahönd á verkefni við Kaupmannahafnarháskóla í arkitektúr og er viðfangsefnið fangelsi fyrir stríðsglæpamenn. Þetta var athyglisverð umræða – því það er ekki til neitt sérstakt fangelsi fyrir stríðsglæpamenn sem dæmdir hafa verið til langrar fangelsisvistar. Maður man auðvitað eftir hinu alræmda Spandau fangelsi þar sem Hess sat einn fanga um árabil. Tímarnir hafa breyst og þarfirnar líka. Þeir sem dæmdir eru fyrir stríðsglæpi eru margir hverjir sannfærðir um að þeir hafi verið að gera rétt og þjóna landi sínu. Okkur býður kannski við gjörðum þeirra en hér er ekki um venjulega glæpamenn að ræða.