
Merkilegar eru niðurstöður könnunar um málefni innflytjenda sem birtar voru í gær. Þar kemur fram að meirihluti þjóðarinnar og þá sérstaklega hér á NV-svæðinu vill hertar reglur er varðar heimildir útlendinga til að setjast að á Íslandi. Þetta kemur mér ekki á óvart í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu. Það sem kemur þó á óvart er að 60% þeirra sem styðja VG eru fylgjandi hertari reglum – það kemur mér spánskt fyrir sjónir.
Ég held hins vegar að fæstir geri sér grein fyrir hvað það er í raun erfitt að fá dvalarleyfi á hér á landi. Löggjöfin hér er með þeim strangari sem finnast. Fólk utan evrópska efnahagssvæðisins getur gleymt því að reyna við landamæri Íslands. Flóttafólk sem sækist eftir því að koma til Íslands af mannúðarástæðum hefur aðeins í tilfelli Bobby Fischers fengið landvistarleyfi. Þú verður að vera orðinn 24 ára til þess mega búa á Íslandi með maka þínum – sértu útlendingur en maki þinn íslenskur. Er þetta lin löggjöf?
Þegar stöðunni á Norðurlöndum er blandað saman við stöðuna hér – er ekki farið rétt með staðreyndir. Á Norðurlöndum hefur straumurinn sl. ár aðallega verið flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum og ekki í stakk búið að komast endilega strax á vinnumarkaðinn. Hér á landi snýst dæmið nær eingöngu um farandverkafólk sem kemst strax í vinnu. Að bera vanda Norðurlandanna saman við stöðuna hér er auðvitað ekkert annað en rakalaus þvættingur. Það er erfitt að sjá hvernig við ættum að loka landinu frekar fyrir útlendingum en nú er gert – nema við kjósum að segja upp samningnum um evrópska efnahagssvæðið.
Það þarf svo sannarlega að bæta margt í málefnum útlendinga á Íslandi - hvernig tekið er á móti fólki, hvernig tungumálakennslu er hátta, hvernig kjaramálum er háttað o.s.frv. Það hins vegar hefur ekkert að gera með herta löggjöf.