laugardagur, júní 09, 2007

Smábátar

Ég fékk að fylgja með á línuveiðar í gær á einu af flaggskipum Bolungarvíkur - sem er smábátur. Ég fékk að taka þátt – svona þegar störfin voru þess eðlis að ég þvældist ekki fyrir mönnum að störfum. Þetta var mögnuð lífsreynsla fyrir gamlan borgarlúða eins og mig. Ekki það sveitadvöl og Raufarhafnardvalir frá barnæsku afeitruðu mig að hluta en ég fór aldrei á sjó. Já, ég var alveg heillaður – ætla samt ekki að setja mig á of háan hest. Við vorum á sjó í frábæru veðri og algjöru logni. Það er á hreinu að 7 vindstig, hríð og frost hefðu breytt þessari mynd umtalsvert.

Það má vel spyrja sig hvers vegna við Íslendingar höfum ekki algjörlega snúið við blaði í tengslum við fiskveiðar? Smábátur eyðir 15% af þeirri olíu sem stærri skip eyða per kíló veidd úr sjó. Línan og færin eru allt önnur veiðafæri en botnvarpan. Ágætur maður lýsti sem svo að það væri eins og að fara í berjamjó á jarðýtu að nota botnvörpu til veiða.

Nú þegar allt virðist vera komið á hvolf í fiskveðastjórnunarkerfin er augljóst að breytinga er þörf. Því ekki að taka upp vistvænar og byggðavinsamlegar fiskveiðar? Þá er ég ekki að segja að allir þeir sem veiða á annað en línu og færi eigi að sigla í land – en það þarf að stórauka þær veiðar. Það hefur sýnt sig að þessir smábátar geta veitt yfir 1000 tonn á fiskveiðiári og hver bátur skapar um 10 manns vinnu. Hvers vegna er ýsa kvótasett – það er ekki einu sinni hægt að veiða öll tonnin sem eru í boði? Það væri stórt skref í áttina að heimila ýsu og steinbítsveiðar og hafa dagana óframseljanlega. Síðan á að stórauka heimildir til þorskveiða í litla kerfinu – og best væri að það væri gert með því að auka kvóta byggðalaga sem síðan framseldu þær smábátum á svæðinu.

Það skapast auðvitað lítil sátt með þessum vangaveltum – en það skapast heldur engin sátt um kerfið eins og það er í dag.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home