sunnudagur, desember 31, 2006

Áramót


Var að lesa Össur rétt í þessu. Hann veltir fyrir sér hinu og þessu stjórnarmynstrinu í vor. Þetta eru skemmtilegir tímar fyrir þá sem gaman hafa af stjórnmálum. Verður það Sjálfstæðisflokkurinn ásamt VG - nú eða Samfylkingu sem stjórna skútunni eða verður það stjórn VG, Samfylkingar og Frjálslyndra? Getur verið að Framsóknarflokkurinn rísi enn á ný og komi á óvart? Völvurnar minnast ekki á það - utan Dr. Gunna sem spáir því að Framsóknarflokkurinn stjórni eftir kosningar og að Paris Hilton sjáist brókarlaus í hverjum mánuði.

Annars finnst mér fróðlegt að meta hverjir eru menn hverra innan stórnmálanna. Össur er með lista sem heitir Mínir menn þar sem samflokksfélagar í bloggheimum eru taldir upp. Merkilegur listi og gefur ákveðnar vísbendingar hvar hjartað slær. Það er sunnansláttur með ákveðnum áherslum. Ég held að ég leggist í rannsóknir (fyrir sjálfan mig) og hanni samsæriskenningu (bara fyrir mig) og kanni síðan sannleiksgildi hennar eins og færi gefst.

laugardagur, desember 30, 2006

Svartur dagur


Árið 1988 sá ég myndir frá Kúrdaþorpi þar sem sjá mátti börn og konur liggja í valnum fyrir Saddam og hans geðsýki. Vesturveldin seldu honum vopnin og voru enn vinir hans á þessum tíma. Það var reyndar ekki fyrr en löngu eftir fyrra Persaflóastríð sem frændur okkar Svíar hættu að selja Saddam vopn.

Í nótt var Saddam hengdur fyrir glæpi sína. Mikið held ég að margir þeir sem eiga um sárt að binda vegna stjórnar Saddam og þeir sem eru í sárum vegna innrásar Bandaríkjamanna í Írak séu vonsviknir í dag. Dauðarefsing og allt sem kemur að henni er að mínu mati aldrei réttlætanleg – hver sem á í hlut. Árásina á Írak var heldur ekki hægt að réttlæta. Hræsnin í kringum stríðið var slík að maður skammast sín á stundum fyrir hinn vestræna uppruna sinn. Af hverju ætli menn hafi ekki hreinsað heiminn af Saddam þegar hann drap konur og börn árið 1988? Nú fyrst það tækifæri rann mönnum úr greipum hvers vegna bjargaði Sámur frændi Írökum ekki 1991? Í kjölfarið refsaði Saddam þjóð sinni grimmilega og tók þúsundir af lífi í suður Írak. Nei, það var ekki þörf á þessari úthreinsun fyrr en árið 2003 þegar nákvæmlega ekkert réttlætti aðgerðina. Þá höfðu refsiaðgerðir Sameinuþjóðanna dregið allan kraft úr þjóðinni og lagt hluta hennar í gröfina. Þvílík ömurð og allsherjar tilgangsleysi.

föstudagur, desember 29, 2006

Viðskiptafræði

Í gær bárust fréttir af því að 365 miðlar hafi selt DV og tímaritin sín tveimur félögum. Annað félagið er í eigu 365 miðla og einhverra annarra sem eiga örugglega í 365 miðlum líka. Í fyrradag seldi FL group Sterling flugfélagið og voru kaupendurnir Fons og FL goup. Allt eru þetta sömu aðilarnir að selja sjálfum sér eigin félög. Ég gleymdi greinilega að taka viðskiptafærði 103.

Síðan verð ég að játa að mér þykja fjölmiðlar ótrúlega áhugasamir að segja fréttir af sápuóperunni innan eigin raða. Í 300.000 manna þjóðfélagi eru ritstjórar allt í einu orðnir gríðarlega merkilegt fyrirbæri. Það renna í gegnum fjölmiðla milljónir og milljónir ofan og fæstir þeirra skila krónu til eigenda sinna. Af hverju ætli það sé svona eftirsóknarvert að eiga fjölmiðil?

fimmtudagur, desember 28, 2006

Gleraugu


Jæja, ég er ekki aðeins farinn að grána og orðinn gott efni í velmegunarístril – ég er líka kominn með gleraugu. Þetta eru auðvitað grafalvarleg tíðindi og minna mig á að líklega er ég ekki eilífur eins og ég hef haldið sl. 36 ár. Það minnir mig líka á að ég er 36 ára en ekki 18 ára eins og mér hefur fundist frá því að ég og Rúnar Gestsson héldum ógleymanlega afmælisveislu mína árið sem ég varð 17 ára. Sú veisla er ritskoðuð og verður ekki aflétt leynd fyrr en eftir 50 ár. Fannst ég verða 18 þegar ég varð 17 – og þannig hefur þetta verið síðan.

miðvikudagur, desember 27, 2006

Fall jólanna


Jóladagur var athyglisverður í lífi mínu. Fyrir utan að hafa bætt hressilega utan á mig með stjórnlausu áti á Þorláksmessu, aðfangadag og jóladag (hélt áfram á 2. í jólum) - lenti ég í miklu ævintýri. Við læstum okkur úti þegar við gengum út á leiðinni í jóladagsmessu. Þegar heim var komið ákvað húsbóndinn að hífa sig upp á skyggnið fyrir ofan innganginn og reyna að losa glugga. Það vildi ekki betur til en svo að ég hrapaði aftur fyrir mig og lenti í miðjum garðinum. Þar sem ég var að falla sá ég líf mitt renna hægt fyrir augunum á mér og var ég viss um að mínir dagar væru senn taldir. Ég lenti með miklu brambolti á handriði og þaðan út í garð. Handriðið breyttist í duft en einhverra hluta vegna stóð ég upp eftir byltuna alveg óskaddaður. Ég lifi!


Ég hugsa nú að nágrannar mínir sem dvelja og vinna í Skýlinu hafi frá ýmsu að segja eftir að hafa haft Grím Atlason og fjölskyldu fyrir augunum í nokkra mánuði. Það er t.d. alveg ósögð sagan af því þegar frú Grímur fór til N.Y. og önnur kona fór í bað á Vitastíg 8.......

sunnudagur, desember 24, 2006

Fjarri 101


Frúin á númer 12 klikkaði ekki þegar kom að skötunni frekar en á felmtri og öðrum Aðalsteinskum málvillutendensum hér á númer 8. Fyllingar losnuðu og það flagnaði vel í efri gómi. Fyrsta Þorláksmessa lífsins sem ekki var eytt í 101 - og viti menn það var bara hið besta mál. Gott fólk bauð í hlaðborð þar sem kræsingarnar flóðu um allt og horft á mynd bolvísku fjöllistamannanna Lýðs og Írisar. Þetta var fullkomin Þorláksmessa sem endaði á Superman Returns. Lex Luther var flottur í meðförum K.S.

Núna er aðfangadagur og einnig sá fyrsti fjarri 101 og hann leggst vel í alla á heimilinu. Ég er hins vegar haldinn einhverri hundaþráhyggju sem ég er ekki viss um að sé svo skynsamleg. Frúnni á númer 8 stekkur ekki bros þegar snati er nefndur. Litlir hvolpar fá hana ekki einu sinni til að brosa - enda veit hún sem er að öll slík svipbrigði gætu verið túlkuð málstað mínum í vil.

En ætli sé ekki best að fá úr þessu skorið með kommentum. Ef 3 svara og tveir segja snati liggur málið ljóst fyrir. En falli atkvæðin málstað kaldlyndra pragmatíkera í vil verður bara kosið aftur og aftur þangað til ásættanlega niðurstaða fæst - rétt eins og gert er í Evrópukosningum.

föstudagur, desember 22, 2006

Nú reynir á


Nú reynir fyrst á Vestfirði. Á morgun er Þorláksmessa og þá verður ekki gefið neitt eftir. Skötuhlaðborð á Gaflinum bjóða upp á mildar og extra útgáfur af þessum kræsingum en það er auðvitað bara plat sem þekkist væntanlega ekki hér. Forgjöf verður ekki liðin - skatan verður að standast bestu skötu sem Bjarni og Rín hafa boðið mér sl. 13 ár. Ég sætti mig ekki við neitt minna. Ég geri ekki ráð fyrir að geta halað niður bíómyndum frá Símanum eins og sunnlendingar en ég geri ráð fyrir að skatan sé umtalsvert kæstari og öflugri hér í Mekka kæstra afurða í heiminum.

Ég mun ekki líða neinar málamiðlanir eða meðalmennsku.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Vegagerðin og andi jólanna


Vegagerðin bjargaði mér 2svar í gær. Fauk útaf í hálku rétt við Hólmavík og síðan á miðri Steingrímsfjarðarheiði. Ég var svo heppinn að vegagerðin sá aumur á mér og dró mig upp úr sköflunum í bæði skiptin. Fyrri byltan var vegna vitleysisgangs í mér. Þar ætlaði ég að taka fram úr vegagerðarbíl á gleri – svoleiðis gerir maður ekki. Hins vegar fauk ég bara útaf á Heiðinni án þess að ráða neitt við neitt. Ég sendi þeim konfekt í hádeginu – enda sómamenn að redda vitleysingnum sem óð á fjöll í brjáluðu veðri.

Reyndar var ég hálf sjokkeraður út af öðru í gær. Fór og keypti hamborgara í Nesti á leiðinni úr borginni. Var lengi að komast í Nesti þar sem umferðin var þung þrátt fyrir að það væri mánudagur og klukkan bara 14.30. Pantaði mér borgara og fann mér borð. Náði mér í mogga til að lesa með brauðinu og lagði á borðið. Síðan var borgarinn sóttur en þegar ég kom aftur að borðinu var kona að taka blaðið. Ég sagði henni: Fyrirgefðu en ég ætlaði að lesa blaðið og lagði það á borðið meðan ég náði í matinn minn. Hún svaraði með þjósti: Hvernig átti ég að vita það? og settist niður með blaðið og horfði á mig með grimmum augum. Ég óskaði henni alls hins besta og náði mér í annað blað og las. Er tillitssemi ekki lengur dyggð? Ég er mjög feginn að vegagerðin var ekki í þessu skapi.

laugardagur, desember 16, 2006

Skakkamanage


Bara svona fyrir þá sem kannski eru ekki búin að hlusta. Ég mæli algjörlega með Svavari og frú - minna mig á Arrested Development og Belle and Sebastian og þau sjálf....föstudagur, desember 15, 2006

Líf utan höfuðborgarsvæðisins


Fyrir stuttu bárust fréttir af aukinni unglingadrykkju í Reykjavík. Leitt var líkum að því að tenging væri á milli samverustunda barna og foreldra og drykkju unglinga. Síðustu árin hefur samverustundum foreldra og barna fækkað. Á sama tíma hafa drykkja og reykingar barna á höfuðborgarsvæðinu aukist. Þetta er merkilegt í ljósi þess að upplýsingar um skaðsemi drykkju og reykinga hafa aldrei verið aðgengilegri. Við höfum aldrei varið jafn miklu og einmitt núna í fræðslu og forvarnir. Meðferðarúrræði eru fjölmörg og félagsþjónusta á höfuðborgarsvæðinu hefur bólgnað út. Grunnskólinn er einsetinn og biðlistar eftir leikskólaplássi eru hverfandi í dag miðað við það sem áður var.

Þenslan tærir
Viðvarandi þensluástand hefur haft umtalsverð áhrif á lífshætti þorra Íslendinga. Aðgangur að lánsfé gerir það að verkum að meðalfjölskyldan er skuldsettari en áður. Eignirnar aukast en greiðslubyrði eykst jafnt og þétt. Íslendingar þurfa því að vinna meira ætli þeir sér að ná að greiða fyrir rándýrt húsnæði á þenslusvæðum og taka þátt í kapphlaupinu. Samvistir barna og foreldra, maka og stórfjölskyldu eru með allt öðrum hætti í dag en þekktist fyrir áratug eða svo.

Fólk hefur reynt að mæta hækkun á húsnæðismarkaði og hraða höfuðborgarinnar með því að flytjast á jaðarsvæði höfuðborgarinnar. Þannig ferðast mörg þúsund manns á milli þéttbýliskjarna í kringum höfuðborgina á leið sinni til og frá vinnu hvern dag. Eins og umferðarþróun hefur verið síðustu árin má ætla að fjöldi manna eyði hátt í tveimur klst. í ferðalög vegna vinnu á dag. Íslendingar vinna að meðaltali meira en aðrar þjóðir veraldar. Þegar heim er komið bíður fólks smátúrar í Bónus, með börnin í tómstundastarf og matseld í anda Jóa Fel. Það er því ekki að furða þó samverustundum foreldra og barna fari fækkandi í slíku umhverfi.

Tækifærin á landsbyggðinni
Það felast ótal tækifæri á landsbyggðinni. Margir sjá aðeins tækifæri í virkjunum og ferðamennsku en þá er helsti auðurinn eftir – samfélögin sem finnast út um allt land. Með stórkostlegum framförum á sviði fjarskipta og samgangna eru landfræðilegar hindranir á undanhaldi. Störf eru ekki lengur bundin við eina starfsstöð – óstaðbundin störf eru raunverulegur kostur í dag sem fleiri og fleiri fyrirtæki nýta sér. Húsnæðisverð er allt annað og nær raunverulegri kaupgetu fólks en á þenslusvæðunum. Þrýstingur auglýsingasamfélagsins er ekki jafn grímulaus og pressan þar af leiðandi minni.

Í Bolungarvík er samfélag sem byggir á þeirri grunnhugmynd að þjónusta og atvinnulíf sé innan seilingar við heimilið. Tækifæri þeirra fjölskyldna sem eiga þess kost að losna við klafa efnishyggjunnar eru mörg í Víkinni. Öll grunnþjónusta er í 5 mínútna göngufæri fyrir þorra íbúa sveitarfélagsins. Sundlaug, heilsugæsla, íþróttahús, grunnskóli, leikskóli, félagsheimili, kaffihús, bókasafn, sýslumaður, verslun, bensínstöð og bankaútibú – allt í 5 mínútna göngufæri. Sveitarfélagið greiðir götu fyrirtækja sem vilja sækja til bæjarins. Góð aðstaða er til staðar fyrir þau fyrirtæki sem hug hafa á að reka einmenningsstarfsstöðvar. Með þessu geta ólík fyrirtæki nýtt sama ritara og skrifstofubúnað. Þau fyrirtæki sem geta nýtt sér óstaðbundin störf eiga fjölmörg sóknarfæri. Hagræðingin sem skapast við það að losa dýrt húsnæði í höfuðborginni og eignast ánægðan og öflugri starfsmann er augljós.

Framtíðin er fyrir vestan
Ég skora á fólk sem situr heima og hefur áhyggjur af reikningabunkum og tímaleysi að skoða kostina við einfaldara líf fjarri skarkala höfuðborgarinnar. Streð á þeim tíma sem börnin eru að vaxa úr grasi er ekkert lögmál. Það þarf enginn að vinna 12 tíma á dag til þess eins að keyra um á Landcruser og borga af íbúðinni í Vesturbænum. Kíkið vestur á firði – það er miklu innihaldsríkara og skemmtilegra.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Hagræðing


Íslandspóstur er fyrirtæki í samkeppnisrekstri og fyrirtæki sem skilar betri peningalegri afkomu í ár en síðustu ár. Reksturinn ku fara batnandi. Svona horfir dæmið við hinum hefðbundna endurskoðanda sem lítur málið úfrá beinhörðum krónutölum. Notendur þjónustu Íslandspósts eru kannski ekki alveg sammála þessu – sér í lagi þeir sem búa á landsbyggðinni.

Nú stendur til að loka póstafgreiðslu á Stað í Hrútafirði. Frá því að Íslandspóstur skipti yfir í markaðshaminn hefur afgreiðslustöðum fækkað verulega og öll umgjörð starfseminnar breyst. Þjónusta hefur verið skorin niður í réttu hlutfalli við markaðsstöðu svæða. Hagræðingin hefur tröllriðið öllu og eftir standa tóm pósthús. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé óskynsamleg þróun.

Hvað er grunnþjónusta og hvað er munaður? Póstþjónusta er grunnþjónusta og ein af forsendum byggðar í þessu landi. Með því að hlutafélagavæða póstþjónustuna á Íslandi, og gera það með jafn takmörkuðum kvöðum og raun ber vitni, er verið að rýra lífsgæði Íslendinga. Þetta er óheillaþróun sem byggir á ákvörðunum púrítanískra frjálshyggjumanna, sem tóku ekki með í reikninginn breytur, eins og búsetu í landinu, þar sem þeir sátu við teikniborðið og hönnuðu framtíðina.

Er hagræðing í því að fólk flykkist í hlíðar Úlfarsfells og eftir standi tóm hús utan höfuðborgarsvæðisins? Sumir halda því reyndar fram - en sé horft til framtíðar er alveg ljóst að blómlegir og öflugir byggðakjarnar út um allt land er forsenda vaxtar. Öflug landsbyggð og öflug höfuðborg er töfraformúlan. Þessari breytu þurfa hagspekúlantar að kynnast áður en hagræðingarplanið er hannað.

mánudagur, desember 11, 2006

Grjóthrunið


Hérna má sjá Lýð og allan þáttinn um læknana hjá Jóni Ólafssyni. Þessi heimild verður þó væntanlega úreld eftir u.þ.b. 10 daga - því þá verður geymslutími efnisins liðinn.

Það verður að taka það fram að við berum mikla virðingu fyrir Hlíðinni þó við blótum henni í söngnum. Meira svona listrænt frelsi og fór vel við lagið.

sunnudagur, desember 10, 2006

Ég sakna þín ekki hót


Augusto Pinochet dó í dag. Hann varð 91 árs sem er vel yfir meðaltalinu í Chile. Á 8. áratugnum kom hann mörgum fyrir kattarnef - flestir þeirra náðu ekki einu sinni 20 ára aldri. Hann myrti helsta andstæðing sinn Salvador Alliende 11. september 1973. CIA hjálpaði til við verkið enda óttuðust Bandaríkjamenn félagshyggjuöflin í Suður-Ameríku meira en djöfulinn sjálfan. Pinochet var aldrei sóttur til saka fyrir voðaverk sín og í 10 ár var heilsa hans notuð sem afsökun fyrir aðgerðarleysinu. Ég man ekki til þess að hann og dauðasveitir hans hafi nokkuð tekið tillit til heilsu þeirra sem þeir hnepptu í varðhald og pyntuðu og drápu. Járnfrúin breska talaði fallega um vin sinn Pinochet fyrir nokkrum árum og botnaði ekkert í þeim sem vildu draga hann fyrir dómstóla. Legg til að við minnumst fórnarlamba Pinochet og vina hans í CIA.


Ég sakna Pinochet ekki neitt.

laugardagur, desember 09, 2006

Kók og bland í poka


Það fer kannski vel á því að í mánuði ofáts samþykki alþingi Íslendinga að lækka verð á gosdrykkjum og nammigotti. Á meðan þjóðirnar í kringum okkur reyna að stýra neyslunni með vörugjöldum ákveðum við að fara aðrar leiðir. Engu virðist skipta þótt þjóðin fari fitnandi og að gos- og sælgætisneysla okkar aukist jafnt og þétt. Allar tilraunir til að benda á ávinning neyslustýringar eru umsvifalaust skotnar niður með þeim rökum að um forræðishyggju sé að ræða.

Hlaupum því út í sjoppu og kaupum okkur bland í poka og kók – verðið fer fallandi.

mánudagur, desember 04, 2006

Samgöngur


Sorgleg helgi í umferðinni. Umferðarþunginn að aukast á helstu þjóðvegum með tilkomu sprengingar í bílainnflutningi og síðast en ekki síst með vöruflutningum sem færðar voru af sjó á land. Í framhaldi slíkra slysa fara eðlilega af stað umræður um samgöngumál og það sem betur mætti fara á þeim vígstöðvum. Fólk er reitt og krafist er tafarlausra úrbóta. Þetta er allt skiljanlegt en því miður ómarkvisst og jafnvel krampakennt.

Líkleg niðurstaða í þessu máli verður að þjóðarsátt skapast um að tvöfalda Suðurlandsveg að Selfossi og Vesturlandsvega að Hvalfjarðargöngum. Algjörlega réttlætanlegar framkvæmdir sem ekki nokkur mun mótmæla. En það er sorglegt að við skulum þurfa að ganga í gegnum tilgangslausar fórnir til þess að raunverulegt skrið komist mál.

Við verðum að komast upp úr hjólförum viðbragðslausna. Slíkar lausnir eru sjaldnast jafn farsælar og velígrundaðar lausnir. Samgönguyfirvöld bera ekki ein ábyrgð á þessari stöðu. Það era allir Íslendingar ábyrgð. Hvað á það t.d. að þýða þegar landshlutar berjast við aðra landshluta um fé til framkvæmda? Oddsskarð vs. Óshlíð – Reykjanesbraut vs. Suðurlandsvegur o.s.frv. Lobbyisminn tröllríður stjórnsýslunni og hagsmunapot einstaklinga getur skipt sköpum. Hér er ég ekki að taka út einhvern einn ráðherra eða einhvern einn flokk – þetta á við okkur öll. Lobbyisminn grefur skotgrafir á milli samherja.

Ég er fylgjandi tvöföldun hringvegarins eins og hann leggur sig eins og Styrmir Gunnarsson hefur ítrekað bent á í leiðurum og ræðum. Fyrsti hluti þeirra framkvæmda ætti svo sannarlega að vera í kringum höfuðborgina – það segir sig sjálft. En ég er líka á því að nú þurfi samgönguyfirvöld og landsmenn allir að sameinast um það að koma vöruflutningum aftur á sjó. Trukkarnir eru of stórir og of margir fyrir ásetið vegakerfi okkar. Kostnaðurinn kann að vera nokkur að koma þessu aftur í skipin en kostnaðurinn vegna hvers mannslífs og þeirra skemmda sem slysin valda er mun meiri.

Það þarf að hugsa stórt þegar samgöngur eru skoðaðar. Hættan við þá tíð sem nú ríkir er að í vor eru kosningar. Við slíkar aðstæður víkur skynsemin á stundum fyrir óttanum við slakt gengi í kosningum.

sunnudagur, desember 03, 2006

Ferðalag

Ég ætla að keyra til Reykjavíkur á morgun. Mér er það þvert um geð en í þágu málstaðarins má skjótast til Höfuðborgarinnar fyrir stutt stopp. Ferðafélagarnir eru heldur ekki af verri endanum. Eva Grímsdóttir og Lýður Árnason verða í bíl með mér. Í öðrum bíl verður restin af Grjóthruninu. Stefni á sveittan borgara á Brú.

Það er ýmislegt sem á daga þjóðfélagins hefur drifið síðustu vikurnar og óábyrgir menn gætu gert sér mat úr mörgu. Mig langar stundum að vera einmitt þannig en börn hafa 100 mál og við tökum 99 af þeim.....

Gestur náði ágætri kosningu í prófkjöri VG á Höfuðborgarsvæðinu - gæti verið raunhæft að hann dytti inn sem varaþingmaður. Fátt kom á óvart. Kannski hvað Álfheiður fékk góða kosningu en hún hefur lengi verið á leiðinni upp töfluna.

föstudagur, desember 01, 2006

Ábreiðugestur


Gestur Hafnarfjarðarbersi fer mikinn í mogganum og á bloggsíðu sinni þessa dagana. Ég er oftast algjörlega sammála Gesti og hef sagt það hér og segi það enn að þingheimur yrði betri með þann ágæta mann innanborðs. Hins vegar ætla ég aðeins að deila á hann þegar kemur að tónlistarsmekk. Ég gaf honum og Dóru í brúðkaupsgjöf frípassa á alla tónleika Austur Þýskalands á síðasta ári. Þau létu sig iðulega vanta á viðburðina. Margar þeirra fjarvista voru nær guðlasti en fjarvistum. Í gær frétti ég síðan af Gesti í Laugardalshöllinni á risastóru ábreiðuhófi. Sagt með fullri virðingu fyrir Magna þeim mikla meistara og hans frábæru fjölskyldu sem ég þekki bara af góðu einu.

Gestur, get ég treyst því að þetta lagist þegar þú kemst á þing? Kjósendur þínir þurfa að fá að vita þetta?